12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Jeg get vel skilið það, að hv. fjvn. sætti sig vel við, að sjútvn. taki ekki til máls. En mjer þykja ummæli hafa fallið hjer í hennar garð, sem ekki eru á rökum bygð, og mjer finst ekki sanngjarnt að ætlast til, að hún sætti sig við að þegja við þeim. Hv. frsm. gat þess, að það væri sorgleg tilhugsun, ef það hefði við nokkur rök að styðjast, að fjvn. bæri fremur fyrir brjósti hag landbúnaðarins en sjávarútvegsins. Hann lýsti því með hjartnæmum orðum, að fjvn. vildi styðja allar sanngjarnar kröfur af hálfu beggja þessara atvinnuvega. En jafnframt sagði hann frá þeirri sorglegu staðreynd, að málin af hálfu sjútvn. hefðu verið of illa undirbúin til þess að hægt væri að sinna þeim. Hv. frsm. fer hjer með hið mesta rangmæli, og okkur sjútvn.mönnum er full vorkunn, þó að við viljum bera af okkur það ámæli.

Till. sjútvn. eru tvær. Fer sú fyrri fram á, að veittar verði 60 þús. kr. til að reisa þrjá miðunarvita. Jeg reyndi að rökstyðja þessa till. eftir bestu getu, og sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka þær röksemdir. En þess skal jeg geta, að nefndin studdist við ósk og áskorun vitamálastjóra, og ef það er illur undirbúningur að byggja á áliti sjerfræðings um málið, þá veit jeg satt að segja ekki, hvernig á að undirbúa svona mál. Jeg skal leyfa mjer að lesa upp nokkur orð úr áliti vitamálastjóra, sem lá fyrir hv. fjvn., og jeg vona, að hún hafi kynt sjer. Hann segir um miðunarvitakerfið:

„Jeg þykist viss um, að með því móti fáist sú besta trygging, sem nú er kostur á, fyrir líf sjómanna og skip þeirra, meiri trygging fyrir sjómennina en nokkrum manni fyrir 10–15 árum datt í hug að hægt væri að ná. — — Og að því mun koma innan margra ára, að radioáttavitinn verði talinn jafnsjálfsagt áhald í hverju skipi eins og segulmagnsáttavitinn og önnur tæki, sem nú eru lögboðin“.

Eftir að vitamálastjóri hefir gefið þessa lýsingu á ágæti vitanna, ber hann fram svohljóðandi tillögu:

„Jeg vil að öllu þessu athuguðu leggja til, að hið háa ráðuneyti vilji koma því til leiðar, að máli þessu verði hrundið í framkvæmd á næstu árum, með því að annaðhvort verði gefin sjerstök lög, er heimila stjórninni að koma upp hinum umræddu radiovitum eins fljótt og ástæður leyfa, þó ekki á lengri tíma en 6 árum, eða með því að veita nú þegar í fjárlögum 1928 kr. 60000 til þess að setja upp 3 fyrstu stöðvarnar á þeim stöðum, sem álitið er, að stöðvarnar eigi að koma fyrst, og að haldið verði áfram með slíkar fjárveitingar, þangað til kerfið er komið um alt land.“

Hjer hefir þá háttv. frsm. umsögn vitamálastjóra annarsvegar fyrir því, hve hann álítur þetta nauðsynlegt og stórt spor í þá átt að tryggja líf og öryggi sjómannanna, og hinsvegar tillögu hans um fjárframlag til þessara vita, þá tillögu, sem sjútvn. hefir tekið upp.

Þá kem jeg að till. um framlag til markaðsleitar fyrir sjávarafurðir. Jeg hefi ekki heyrt hv. frsm. andmæla þeim rökum, sem hv. 1. þm. S.-M. færði fram fyrir þessu máli. Rök hv. frsm. voru ekki önnur en þau, að einn hv. þm., sem hefði reynslu í sjávarútvegsmálum, hefði látið svo um mælt, að hjer væri um vetlingatök að ræða hjá sjútvn. Nú hefir sá hv. þm. lýst því yfir, að þessi ummæli væru bygð á misskilningi, svo að hjer þarf raunar ekki framar vitna við. — Jeg hygg, að sjútvn. sje samhuga um það, að fram á þessa fjárveitingu muni ekki farið, nema bak við sendimanninn standi örugg framkvæmd, annaðhvort dvelji maðurinn langvistum í landinu, eða menn verði reiðubúnir að fylgja ráðum hans, þegar hann kemur heim. Það hefir komið fyrir, að sendimenn hafa skilað álitlegum tillögum, en þeim ekki verið framfylgt. — Nefndin vill því, að atvrh. sje falið að leggja úrskurð á, hverjum skuli veittur þessi styrkur, og að enginn geti fengið hann, nema hann hafi trygt sjer samband við íslenska framleiðendur og að þeir fari að ráðum hans. Jeg veit ekki, hvaða frekari undirbúningur menn ætlast til, að á þessu sje hafður. Jeg þarf víst ekki að segja hv. fjvn. það, að í þessum löndum, sem fyrirhugað er að senda mann til, er fiskát mikið, en þar er lítið eða ekki etinn íslenskur fiskur. Um fiskinnflutning til Portúgals skal jeg geta þess, að árið 1924 var hann 33 þús. smál., 1925 36 þús. smál. og 1926 45 þús. smál. Hann hefir því aukist um 33% eða vel það á tveim árum. En á sömu árum hefir innflutningur íslensks fiskjar þangað minkað að miklum mun. Mjer finst ekkert undarlegt, þó að leitað sje aðstoðar hins opinbera til þess að reyna að ná þessum markaði. íslenskir fiskútflytjendur hafa að vísu stöðugt reynt að selja þangað fisk, en aðstaðan væri ólíkt betri, ef þeir ættu þar íslenskan fulltrúa. Markaðurinn fyrir okkar fisk er að vísu verri þarna en á Spáni, en þar er íslenskur fiskur nú viðurkendur besti fiskur. Aðstaða okkar er þó ekki verri í Portúgal nú en hún var fyrir nokkrum árum á Spáni. — Jeg skal játa það, að ef okkur tekst að vinna markað fyrir íslenskan fisk í þessum löndum, má búast við harðari samkepni á Spáni af þeirra hendi, er nú selja fisk sinn þar. En aðstaða okkar er betri á Spáni, af því að okkar fiskur er álitinn þar besti fiskur. En það er fyllilega þess vert að leggja eitthvað í sölurnar til þess að vinna nýjan markað, og það mundum við átakanlega reka okkur á, ef Spánn og Ítalía lentu í ófriði og andstæðingar þeirra gætu varnað okkur að flytja þangað fisk. Úr þessari áhættu verður að draga, en það verður ekki gert með öðru móti en því að reyna að vinna markað í öðrum fiskneyslulöndum. Jeg vænti nú, að mjer hafi tekist að bæta nokkru við þau rök, sem háttv. frsm. fjvn. heimtaði af sjútvn. í þessu máli. Jeg vona, að hann mótmæli með rökum, en ekki fullyrðingum, en fylgi okkur að málum ella.

Ef einhverjir álíta jafngott að hafa erlenda milligöngumenn eins og innlenda, get jeg svarað þeim því, að jeg hefi reynt hvorttveggja, og að útlendingunum ólöstuðum, hafa íslensku milligöngumennirnir reynst mjer betur.

Að endingu vil jeg spyrja hv. frsm., hvort honum finnist enn því til að dreifa, að hjer sje til of mikils mælst af sjútvn. Jeg skal ekki fara í neinn meting við hv. fjvn. út af framlögum til landbúnaðarins í samanburði við framlög til sjávarútvegsins. En þó að þessar fjárveitingar verði samþyktar, nema þær ekki meiru en 3–4% af því, sem ríkissjóði drýpur í útflutningsgjöldum af síld og fiski. Ef jeg á að skoða háttv. frsm. sem boðbera þeirrar hugsunar, sem ríkjandi er í hv. fjvn., þá verð jeg að segja þeirri hv. nefnd það, að jeg held hún hafi komist fulllangt í því að gera upp á milli sanngjarnra krafa landbúnaðar og sjávarútvegs. Jeg andmæli því ekki, að landbúnaðurinn þurfi nú á meiru að halda. En jeg vil, að jafnframt sje viðurkent ágæti hins atvinnuvegarins með því að samþykkja fjárveitingar í þágu hans, þegar jafnmikil nauðsyn og brýn þörf er á, eins og hjer er um að ræða.