19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir dálitlum tekjuafgangi, sem nam 100 þús. kr. í meðferð hv. Nd. hefir frv. tekið þeim breytingum, að hingað kemur það með tekjuhalla, er nemur 327819,97 kr. Þessi breyting er aðallega í því fólgin, að útgjöldin hafa hækkað um hátt á fjórða hundrað þúsund krónur, en tekjuáætlun lækkað á einum lið um 50 þús. kr. Jeg verð að láta í ljós það álit mitt, að sú hækkun útgjalda, sem orðin er á frv., sje meiri en útlit er fyrir, að ríkissjóður geti borið með þeim tekjum, sem honum eru ætlaðar eftir núgildandi lögum. Þess vegna eru það eindregin tilmæli mín, fyrst og fremst til hv. fjvn. og í öðru lagi til háttv. deildar í heild sinni, að sú breyting verði gerð á þessu, að útgjöldin verði færð niður, svo að jöfnuður fáist. Jeg tel það ekki vera neinum sjerstökum erfiðleikum undirorpið að ná slíkri niðurfærslu, án þess að gengið sje of nærri rjettmætum hagsmunum. Þessa skoðun mína styð jeg við það, að í frv. stjórnarinnar var stungið upp á fjárveitingum til allskonar nýrra verklegra framkvæmda, þar á meðal búnaðarframkvæmda, sem nema alls um 1 milj. 486 þús. kr. Þetta er í sjálfu sjer há upphæð til nýrra verklegra framkvæmda, en í meðferð hv. Nd. hafa þau útgjöld hækkað upp í 1 milj. 750 þús. kr., með öðrum orðum er hækkunin á þeim lið 264 þús. kr. Að öðru leyti hækka útgjöldin í meðferð hv. Nd. um 100 þús. kr., sem sumpart eru hækkanir á þeim liðum, sem fyrir eru, og sumpart ný útgjöld til ýmissa annara hluta en þessara verklegu framkvæmda. Jeg álít, að ekki sje fært að treysta því, að ríkissjóður geti 1928 látið af hendi 1% milj. kr. til slíkra nýrra verklegra framkvæmda. Auk þess sem á að endurskoða útgjaldatillögur frv. og hækkanir hv. Nd. á öðrum liðum, er öldungis rjett hjer í þessari hv. deild að færa útgjöldin til þessara nýju verklegu framkvæmda niður í nánd við stjfrv.-upphæðina. Jeg tel, að af því að svo stendur á, að verðlag á því, sem gert er, fer lækkandi, sje vel forsvaranlegt að setja niður upphæðina, í trausti þess, að það þurfi ekki að þýða tilsvarandi minkun á sjálfum framkvæmdunum.

Jeg skal geta þess, að það liggja þegar fyrir dálitlar upplýsingar um tekjur ríkissjóðs á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs, og þær gefa tilefni til að ætla, að tekjurnar verði í ár æði miklu minni en síðastliðið ár, bæði vegna breyttrar löggjafar —, þar á jeg við lækkun kola- og salttollsins, — og af því, að innflutningur er minni nú en í fyrra, og má búast við, að það haldi áfram. Það er ekki rjett að treysta því, að árið 1928 verði betra, og Alþingi verður því að stilla kröfum sínum um hraða á verklegum framkvæmdum ríkissjóðs í hóf.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að bera fram þá sjálfsögðu tillögu, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjvn.