03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 1. landsk. (JJ) mælti hjer nokkur reiðiorð, en þar sem hann á ekki kost á að tala aftur og er auk þess genginn út úr deildinni, fer jeg ekki lengra út í ræðu hans en að mótmæla þeim ummælum um kjósendur í Rangárvallasýslu, sem sótt hafa fund, þar sem hv. 1. landsk. fór mjög halloka, sem hann hefir leyft sjer að láta sjer um munn fara. Hv. þm. notaði orðið skrílfundur og skrílsskapur. Það er mjög óviðeigandi af hv. þm., sem sjálfur er fæddur og uppalinn í sveit, að nota slík orð um hið eina kjördæmi á öllu landinu, þar sem enginn er úr kaupstað eða þorpi. Auk þess veit jeg, að þetta fólk er sjerstaklega myndarlegt fólk.

Hv. þm. (JJ) mintist aðeins á eina af brtt. sínum, um að veita 50 þús. kr. til sundhallar í Reykjavík. Jeg held, að það hafi ekki komið fram í umr., að með þessari tillögu er farið að öfuga endanum á þessu fyrirtæki. Það hefir þegar verið gerð áætlun um að veita heitu vatni úr laugunum til bæjarins til að hita upp byggingar í bænum. Kostnaðaráætlunin er 200 þús. kr. Enn er áreiðanlega ekki búið að gera ráðstafanir til þess að fá fje til þessarar veitu, en það liggur í hlutarins eðli, að meðan ekki er sjeð fyrir því, er tillaga hv. 1. landsk. gersamlega ótímabær. Það lægi nær að reyna að koma á veitunni sjálfri, og gera síðan ráðstafanir til að koma upp sundhöllinni og öðru, sem nota ætti vatnið til. Þó að jeg viðurkenni, að hjer sje um nauðsynlegt menningarmál að ræða, get jeg ekki verið með þessari tillögu, þar sem líka fjárhagsástæður gera það mjög óaðgengilegt.