06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að það sje misskilningur hjá hv. 4. landsk. (MK), að þessi starfsmaður símans hafi orðið fyrir ofsóknum, vegna þess að hann hafi reynt að bjarga landinu frá einhverju símafári. Hv. þm. vitnaði í viðburði frá 1914 því til stuðnings, en þá var Eggert ekki í þjónustu landssímans, á tímabilinu frá 1. október 1912 til í júlí 1915.

Þá talaði hv. þm. um, að stjórnendur landssímans hefðu ekki haft vald á starfsmönnum sínum, og verð jeg að taka undir það, að það er mjög mikilsvert við jafnstóra stofnun og landssíminn er, að yfirmennirnir hafi full tök á starfsfólkinu. En þá mega ekki yfirboðarar þeirra, þing og stjórn, taka fram fyrir hendur þeirra í ráðstöfunum eins og þeim að víkja manni frá starfi sínu. En þetta er verið að gera með því að veita þessum frávikna starfsmanni há eftirlaun. Auk þess er verið að gera landssímastjóra ómerkan að því að víkja honum frá. Það er ekki uppörvandi fyrir yfirmenn símans, ef starfsmennirnir geta, hvað sem á milli ber, farið til æðsta valdsins í landinu, þingsins, og fengið það til að taka upp sinn hlut móti stjórn símans. Það er ekki vegna fjárhæðarinnar, sem jeg er að blanda mjer í þetta mál, heldur vegna þess, að 18. gr. fjárlaganna heyrir undir minn verkahring, og jeg tel mjer skylt að benda á það, þegar á að koma þar inn ákvæðum, sem ekki eiga þar að vera, og koma í veg fyrir það. Jeg hefi ekki sagt neitt um það, hvort þessi maður væri fær eða ekki fær til starfsins. Það er alt annað, sem honum hefir verið gefið að sök, en vankunnátta.

Hv. 4. landsk. sagði, að landssímastjóri hefði sjeð sjer fært að veita Eggerti stöðu, sem nú væri talin ágæt. En það var ekki landssímastjóri, sem veitti stöðuna, heldur hlutaðeigandi ráðherra. En landssímastjóri „innstilti“ tveimur mönnum, og Eggert var annar þeirra, og eins og rjettilega er lýst í skýrslu þeirri, sem jeg gaf, var þetta aðeins tilraun til að hjálpa honum. Að hann hafi verið svikinn, er ekki rjett. Jeg hefi heyrt, að honum hafi verið lofað, að hann skyldi ekki af þessu verða fyrir fjárhagslegu tjóni, enda veit jeg ekki betur en að hann hafi fengið stöðu á Akureyri með þeim launakjörum, að hann beið ekkert fjárhagslegt tjón. En hvernig fór? Hann gat ekki haldist við í stöðunni, af þeim ástæðum, sem jeg hefi greint.

Þá vil jeg taka það fram, að það er fullkomin missögn, ef einhver hefir sagt hv. 4. landsk., að jeg hafi gefið nokkurn ádrátt um stuðning í þessu máli. Það hefir verið sótt fast að mjer af góðum vinum mínum, sem eru nákomnir þessum manni, að styðja málið, en jeg hefi altaf neitað því afdráttarlaust. Sömuleiðis kom maðurinn sjálfur til mín snemma á þessu þingi, en jeg gaf honum engar vonir. Ef nokkur maður hefir sagt annað, er það bein missögn.