13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

115. mál, bankavaxtabréf

Magnús Kristjánsson:

Jeg finn ástæðu til þess að láta í ljós þá skoðun mína, að ekki sje vanþörf á að þetta frv. verði samþykt. Það er kunnugt, að fjeð, sem veðdeildin hefir haft undir höndum, er mjög gengið til þurðar. Lítur svo út, sem annaðtveggja sje alt fjeð þegar notað eða þá afgreiðsla lánbeiðna mjög treg. Jeg skil ekki, af hverju þurfi jafnan að liggja fyrir umsóknir um lánveitingar svo hundruðum skiftir óafgreiddar, sumar, að því er mjer er kunnugt um, síðan fyrripart síðastliðins vetrar. Út frá því er ekki sýnilegt annað en full þörf sje fyrir aukið lánsfje. En hjer kemur margt til greina. Jeg álít kjörin hafa verið viðunandi hingað til, en jeg hefi einhversstaðar sjeð þess getið, að samskonar lánskjör geti ekki haldist áfram. Jeg hygg, að verðbrjefin í 5. flokki hafi verið seld fyrst á 92 kr., en færst síðan niður í að jeg hygg, jeg fullyrði það þó ekki, 88 kr. (Forsrh. JÞ: 89 krónur). Nú, jæja, segjum það, 89 kr. En ef þau eiga enn eftir að lækka, — jeg veit ekki hvað mikið, en gæti vel orðið um 2–3 kr., — þá eru lánskjörin orðin svo hörð, að ekkert virðist geta knúð menn til lántöku, nema brýnasta þörf, sem ekki er hægt að standa á móti. En er þessa er gætt, virðist mjer þessi till., sem nú er til umræðu, ekki vera eins fráleit og hæstv. forsrh. vill láta hana líta út fyrir.

Jeg játa, að jeg hefi aldrei lággengismaður verið, en að taka slík. lán, þótt í þörf sje, getur orðið litt bærilegt. En á hinn bóginn er það hagnaður hreint og beint fyrir ríkið að kaupa veðdeildarbrjef fyrir t. d. 85 kr., sem gefa af sjer 6%. Það er bersýnilega allmikill gróðavegur ríkissjóði, en að sama skapi erfitt lántakendum.

Jeg hygg því, að hæstv. ráðh. hafi lýst óþarflega svart afleiðingunum af samþykt slíkrar till. sem þessarar. Ekki þar með sagt, að till. sje í allra besta lagi; það segi jeg ekki, en jeg hygg, að meginhugsunin í henni miði í rjetta átt. Það vil jeg rökstyðja með því, að þá er lánsheimildin mjög umtalaða var til umræðu í hv. Nd., tók jeg eftir ummælum hæstv. forsrh., þegar háttv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um óheillavænlegar afleiðingar af því, ef hún yrði gefin og notuð, og fór nokkrum orðum um það, að hann myndi koma með einhverjar varúðarreglur, til þess að gengishækkunin yrði ekki eins tilfinnanleg í framtíðinni og verið hefir og annars mundi verða. Man jeg þá ekki betur en hæstv. ráðh. viðhefði þau orð, að hann vildi fúslega ræða með velvilja hverja þá till., sem hnigi í þá átt að koma í veg fyrir ranglæti, sem ætti sjer stað í þessum efnum.

Jeg man ekki ummæli hans orðrjett, en efnið í þeim var á þessa leið. Jeg hefði því ekki búist við, að hæstv. ráðh. færi að mála afleiðingar þessarar till. jafnsvart og hann virtist gera, enda þótt honum þætti sitt af hverju við hana að athuga.

Jeg lít svo á, að útreikningur hæstv. ráðh. geti orkað tvímælis, nema jeg misskilji málið, en það held jeg samt ekki. Það lætur að vísu nærri, að upphæðin geti orðið nálægt því, sem hæstv. ráðh. tilgreindi, svo framarlega sem krónan næði gullgildi og þar við sæti. En hitt get jeg enganveginn fallist á, að ríkissjóður yrði að snara út þessum 21/2 milj. kr. í einni svipan. (Forsrh. JÞ: Það stendur í seinni greininni). Já, en jeg sagði áðan, að jeg væri ekki ánægður með orðalag till., en með góðum vilja má skilja þetta á annan veg. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að nein útborgun eigi sjer stað öðruvísi en sem hlutfallsleg lækkun á afborgunum á hverjum tíma. Um hver áramót er afborgun lána færi fram, mundi verða gert upp, hversu miklu þessi lækkun næmi fyrir það árið. Þannig gæti stór upphæð deilst niður á fjöldamörg ár, svo að jeg er ekki hræddur um, að ríkissjóður stæði uppi alveg í vandræðum. Það fyrirkomulag gæti vel blessast.

Ef hæstv. ráðh. (JÞ) vildi framfylgja þeirri ágætu hugsun, sem hann ljet í ljós í hv. Nd. og jeg gat um áðan, ætti hann að taka þessari till. með velvilja sem líklegri leið, benda á gallana, svo að laga mætti, eða koma sjálfur með till., er stefni að sama marki.

Jeg þarf ekki að fjölyrða meira um þetta, aðeins benda á, að þessi háa útborgun, sem hæstv. ráðh. (JÞ) óttaðist svo mjög, gæti skifst niður á mörg ár. (Forsrh. JÞ: Ekki eftir till.). Það skiftir ekki máli, og þarf ekki um það að karpa. Þeir, sem eru velviljaðir, fara aðeins eftir efni og anda till., en ekki eftir mishepnuðu orðalagi. Það vona jeg, að hæstv. ráðh. sjái og átti sig á.

Annað er hitt, að jeg álít, að algerlega verði að slá striki á milli veðdeildar og ræktunarsjóðs, ef sú hætta, er hæstv. ráðh. mintist á, væri til staðar. Því get jeg að vísu ekki samsint, þó að hinsvegar sje ekki hægt að afsanna möguleika fyrir slíkri hættu, hvað húseignir snertir. En um það fje, er ræktunarsjóður lánar, kemur hún ekki til greina.

Það var ekki tilætlun mín að fara að halda hjer meiri háttar ræðu, eins og sumir góðir menn tíðka. Jeg vildi aðeins benda á, að jeg tel illa farið, að umræður um jafnþýðingarmikið mál lendi í karpi um klipt eða skorið. Meginhugsun þessarar till. er skynsamleg, og mjer virðist hæstv. forsrh. hafa líka viðurkent hana í orði. Þó að mjer líki ekki allskostar orðalag till., mun jeg greiða henni atkvæði, enda þótt jeg búist við, að hún verði ekki samþykt, eins og fylkingum hjer er háttað. En jeg vil þá beina því til hæstv. ráðh., að hann komi með till. í öðru formi, sem nær svipuðu takmarki. — Það stendur óhrakið, sem jeg hefi haldið fram, að hjer sje ekki um neinar stórar útborganir að ræða, heldur árlegar greiðslur, ef til kæmi.