05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekki getað sannfærst um það af þeim umræðum, sem fram hafa farið um þetta mál, að hreppsnefndin í Mosfellshreppi hafi nokkra þörf á því að fá það land, sem hjer um ræðir, til eignar, heldur þvert á móti. Hreppsnefndin ætlar ekki að nota þetta land til nýbýlaræktunar, heldur til afrjetta, enda verð jeg að segja það, ef nota ætti landið til ræktunar, þá væri það betur komið í eign landsins en hreppsins. Það má nú svo heita um sveitina fyrir vestan Hellisheiði, að þar sje hver blettur ræktaður, sem hægt er að rækta og gróður er á. En þarna er Gósenland, sem bíður ræktunar. Nú á að leggja veg gegnum þetta land, og er þá hægara að nota landið og líkur fyrir því, að þar rísi upp mörg nýbýli. Það er því undarlegt, ef þingið ætlar sjer nú án neinnar þurftar að fara að flýta sjer að selja þetta land. Það er líka enn ein ástæða til þess að jeg tel ekki rjett að ráða þessu máli til lykta sem stendur. Eins og menn vita, er það hinn setti prestur, sem hefir umráð jarðarinnar nú, en eins og stendur getur hann tæplega kallast sjálfráður í tillögum sínum um málið. (ÓTh: Hvers vegna?). Af því að hann er væntanlegur biðill til prestakallsins og þarf því að eiga vingott við kjósendurna í hreppnum til þess að ná kjöri. Það má því með sanni segja, að hann sje varla sjálfráður um álit sitt í þessu máli; sennilega mundi það spilla kjörfylgi hans, ef hann neitaði beiðni hreppsnefndarinnar. En nú er ekki víst, að þessi setti prestur nái kosningu, þrátt fyrir alt, og þá tekur þingið með þessu fram fyrir hendurnar á hinum væntanlega presti. En það hefir aldrei verið stjórnarsiður að selja undan kirkjujörðum án þess að fá tillögur rjettra umráðamanna. Af fylgismönnum þessa máls hefir verið talað um að leita umsagnar biskups. En það tel jeg ekki rjett vegna aðstöðu hans, þar sem hann er faðir hins setta prests. Að öllu þessu athuguðu álít jeg, að mál þetta sje ekki svo undirbúið, að rjett sje að hrapa að því að samþykkja það.