26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get farið fljótt yfir sögu. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hefir nokkuð svarað því, sem hæstv. forsrh. sagði. Aðeins vil jeg bæta við nokkrum orðum.

Jeg hygg það sjeu mjög hæpnar röksemdir hjá hæstv. ráðh. (JÞ), að ívilnun á skattgreiðslu hjá þessum innlendu fyrirtækjum verði til þess að halda uppi vöruverði í landinu. Jeg hjelt, að íslendingar þektu nokkur dæmi um, með hverskonar verðlagi erlendar vörur eru seldar hjer, þar sem erlendir menn eru einir um hituna. Svo að hún gæti orðið til að vinna það upp, þessi litla ívilnun, sem við gefum þessum innlendu fyrirtækjum, meðan þau eru að koma fótum fyrir sig. — Svo var hann undrandi yfir því, að maður úr sveitakjördæmi skyldi halda slíkum till. fram, þar sem hann taldi þessi fyrirtæki draga fólk frá sveitunum. Fanst hæstv. forsrh., að við fulltrúar sveitanna hefðum annað þarfara að vinna en stuðla að slíku. Jeg undrast mjög að heyra þessi ummæli hjá hæstv. ráðh., að fara að nefna þessi litlu fyrirtæki, sem ekki hafa nema örfáa menn í sinni þjónustu, í sambandi við fólksfækkun til sveita. Jeg þori ekki að fullyrða, hve margir starfsmenn eru við þessi fyrirtæki, hygg þó, að þeir sjeu talsvert fyrir innan 100. Mun jeg fljótlega grenslast um þetta nákvæmlega. Nei, þetta getur vart orðið til þess að fækka fólki til sveita. Slík ástæða finst mjer tæplega frambærileg frá ráðherrastóli, því að hún er hjegómi og fjarstæða. Hjer í þessum bæ getur maður gengið um göturnar hvaða tíma dags sem er —, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár, og sjeð fólk, oft sama fólkið, á besta aldri, ekki í tugum og hundruðum, heldur jafnvel í þúsundum iðjulaust á reiki. — Og svo er verið að tala um, að með lítilfjörlegri iðnstarfsemi, þó hún sje ekki með þungum skattálögum drepin strax í byrjun, sje verið að draga fólkið úr sveitunum, af því að maður vill ekki verða til að velta undir eins um koll þeim iðnaði, sem þjóðlegir menn eru að reyna að koma á fót. Jeg hefi skoðað mig hingað kominn til þess að leggja góðum málefnum liðsyrði, hvaðan sem þau eru komin, og skiftir þess vegna engu máli, hvort þau snerta kaupstaði eða sveitir. Ef málið er heildinni fyrir bestu, þá skiftir mig ekki, hvort það snertir mitt kjördæmi eða kauptún.

Dálítið er það undarlegt, þegar hæstv. ráðh. var að tala um þessi fyrirtæki og kvaðst vera að hugsa um að skaða þau ekki. Er hæstv. ráðh. þá að hugsa um hagsmuni sveitanna? Hann er landskjörinn þingmaður, ekki einungis fyrir kauptúnin, heldur einnig sveitirnar. Honum er því jafnskylt og mjer að hugsa um hagsmuni þeirra. Þá er jafnt á komið með okkur, því að þótt jeg sje ekki landskjörinn þingmaður, finn jeg vel til skyldunnar að hugsa jafnt um alla landshluta.

Jeg hygg það muni fremur mega segja það um okkur yfir höfuð, að við höfum gert alt of lítið að því að koma upp innlendum iðnaði, en alt of mikið að því að kaupa vinnu hjá útlendingum á ýmsum nauðsynjum. Jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að það muni ekki láta fjarri, að við höfum borgað í saumalaun árið 1924 (heldur en 1925) upp undir 200 þús. til útlendra manna í tilbúnum fötum hingað keyptum. Þetta er áreiðanlega ekki of há tala. Jeg held það væri í alla staði hyggilegt að reyna að draga úr þessum greiðslum til útlendinga.

Jeg hygg, að afgreiðsla þessa máls verði best með því móti að samþ. þá brtt., sem fram er borin; skemra held jeg, að ekki megi ganga. Og jeg fyrir mitt leyti get sagt það fyrirfram, að atkvæði mitt með þessu frv. er undir því komið, hvernig fer um þessa brtt.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) drap á fleiri þau atriði, sem jeg var búinn að skrifa hjá mjer, en jeg skírskota til ræðu hans og get látið við þetta sitja.