13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og frh. (Jón þorláksson):

Jeg þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls og fyrir þær till., sem hann gerir, sem jeg eftir atvikum get sætt mig við og jeg hygg að sjeu a. m. k. fullkomlega sanngjarnar í garð þessa atvinnurekstrar, sem hjer er um að ræða. — Stjórnin hafði farið fram á að setja atvinnufyrirtækjum, sem sjerstaklega framleiða öl og kaffibæti, nokkuð þyngra gjald en farið er fram á í till. meiri hl.; og jeg álít, að í sjálfu sjer hafi það verið sanngjarnara að hafa gjaldið eins hátt og stóð í stjfrv. En þó er á það að líta, að það var á þessum tveimur sviðum aðallega búið að koma upp iðnaðarfyrirtækjum í skjóli þeirrar miklu tollverndar, sem nú er, og því mátti kannske búast við, ef engin ívilnun væri ger, að svona löggjöf kynni — þegar hún kemur eftir á — að baka þeim fyrirtækjum erfiðleika.

Nú hefir hv. meiri hl. tekið tillit til þessa. Fyrir það fyrsta stingur hann upp á, að endanlegt gjald verði lægra, 1/2 gjald af kaffibæti og 1/3 gjalds af öli, þar sem stjfrv. hefir 2/3 og 1/2; þar að auki eiga þau fyrirtæki, sem nú þegar eru komin á fót, að njóta sjerstakrar ívilnunar, gjalda 1/6 fyrir það framleiðslumagn, sem svarar framleiðslumagninu 1926, og sje svo í nokkur ár. Jeg hefi borið mig saman við eigendur hinna helstu þessara fyrirtækja, sem nú eru til á þessu sviði — en þau eru hjer í bænum — og hafa þeir fyrir sitt leyti tjáð mjer, að þeim þætti þessi uppástunga meiri hl. ekkert óaðgengileg fyrir sig. — Mjer finst því ekki geta talist ástæða til þess fyrir hv. þd. að krefjast betri kjara eða lægra gjalds þessum atvinnuvegi til handa heldur en nú er farið fram á.

Jeg skal heldur ekki fara neinum orðum um rjettmæti þessa gjalds yfir höfuð, meðan ekki hafa komið fram nein andmæli gegn því hjer.