13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jónas Jónsson:

Jeg þarf að segja fáein orð við hæstv. forsrh. (JÞ). Það er kunnugt, að þetta mál var frá upphafi miður undirbúið en skyldi og nú er orðið. Þegar það kom fyrir háttv. Nd., mætti það strax mótstöðu. Það var þá því líkast, sem væri það beinlínis gert til þess að kæfa þann litla vísi til innlends iðnaðar, sem fyrir er, og reisa skorður við vexti hans á næstunni. Það er kunnugt frá mönnum, sem standa að þessum iðnaði, ölgerð, kaffibætisvinslu o. s. frv., að megnar hótanir höfðu komið í garð þessara íslensku atvinnurekenda frá mönnum, sem hafa umboð fyrir útlend firmu á þessum vörum, að svo hár tollur skyldi verða lagður á hina innlendu framleiðslu, að þeim veittist erfitt að standast samkepnina. Þetta tók hv. Nd. til greina og gerbreytti frv., svo að það er ekki út af eins skaðlegt nú og það var.

Þar sem nú er ástæða til að halda, að hæstv. landsstjórn hafi staðið í sambandi við umboðsmenn þá, sem flytja inn þessar vörur og eru sumir hverjir stuðningsmenn hæstv. stjórnar og framleggjendur í blaði flokksins, fyndist mjer rjettara, að málið væri tekið upp aftur á almennari grundvelli, og það því fremur, sem einstakir nefndarmenn hafa vitneskju um, að það er í undirbúningi hjer að stofna til íslensks iðnaðar í tóbaksgerð. Þar sem allar þjóðir, þótt ekki rækti þær tóbak, reyna að hafa þessa iðju hjá sjer í eigin landi, tel jeg það frekar gagnlegt fyrir okkur, að sú iðja sje rekin innanlands, meðan tóbak er á annað borð notað.

En þegar tekið er tillit til þess, hversu mikið gjald verður að greiða af hráefni, sem inn er flutt, og þar við bætist geysihár tollur af vörunni sjálfri framleiddri, er útlitið fyrir slíka iðju síður en svo vænlegt.

Jeg get búist við að greiða atkvæði á móti frv., jafnvel þótt það hafi batnað töluvert við brtt. þær, sem hv. meiri hl. nefndarinnar hefir gert.