07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Jón Guðnason):

Aðeins örfá orð. Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að sparnaðurinn af þessu frv. mundi ekki verða nema örlítill. En sá samanburður, sem hann gerði á launum, sem fylgja þessu embætti, og kostnaðinum við að halda uppi kenslu, var ekki rjettur. Það er rjett, sem jeg sagði, að kostnaður við þetta embætti undanfarið er um 71/2 þús. kr. árlega. Ef dýrtíðaruppbótin lækkaði frá því, sem var, þá get jeg hugsað, að komast rosetti af með minni upphæð til þess að halda uppi kenslunni í grísku framvegis en þá, sem stjórnin hefir veitt til þess í vetur. En þó býst jeg við, að kenslukostnaður þyrfti ekki að fara fram úr 1/4 embættislaunanna.

Þar sem hv. þm. Borgf. sagði, að launin væru 5 þús. kr. með dýrtíðaruppbót, þá er það því aðeins að skipaður verði maður, sem ekki hefir verið í embætti áður. En það er alls ekki hægt að gera ráð fyrir, að svo verði, síst þegar um háskólakennara er að ræða. Í slík embætti er ekki tekinn hver óvalinn maður frá prófborðinu. Það má hiklaust gera ráð fyrir, ef embættið væri veitt, að launin yrðu nokkru hærri en byrjunarlaun, og það því fremur, sem launin ná hámarki sínu á fáum árum.

Aðalatriðið í þessu máli finst mjer vera það, að hjer fæst unnið sama starf og áður fyrir aðeins lítinn hluta af því, sem til þess var varið áður. Og það er sparnaður, sem að sjálfsögðu er aðgengilegur fyrir okkur hv. þm. Borgf. báða, og aðra hv. deildarmenn.