21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Jón Baldvinsson:

Það voru hvorki margar nje mikilvægar breytingar, er ágreiningur varð um í nefndinni. Það eru aðeins tvö atriði, eins og sjá má á þskj. 33. Jeg vil, að það sje sett í lögin, að mönnum sje óheimilt að ráða til sín erlent fólk, þótt því ætti ekki að vera annað goldið í kaup en fæði og húsnæði. Stjórnin hefir þó eftir sem áður heimild til að veita undanþágur, ef nægar ástæður eru til þess. Jeg vil, að ákvæði laganna sjálfra sjeu sem ströngust, og koma þannig í veg fyrir, að tilgangur þeirra verði fótum troðinn.

Hitt atriðið er þó meira um vert. Jeg vil, að lögin gangi þegar í gildi, svo að þau geti byrjað að verka í sumar. Lögunum er aðallega ætlað að hefta innflutning verkafólks við síldarvinnu; en Norðmenn hafa árlega flutt hingað margt verkafólk til þeirrar vinnu, og hefir verið litið svo á, að ekki sje hægt að meina það. Lögin frá 1920 hjeldu menn að bönnuðu þetta, en seinna var það álitið, að þau snertu aðeins eftirlit með heilbrigði þeirra manna erlendra, er hingað koma, og að heilbrigðu fólki væri ekki hægt að meina landsvist. Vil jeg því hjer með grípa tœkifærið til þess að þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, að hafa komið fram með þetta frv. Jeg var einn af þeim, sem áttu hlut að máli um það í fyrra að skora á hæstv. stjórn að bera fram frv. um þetta efni.

Þessi seinni brtt. mín er talsvert mikilvæg. Hjer er um það að ræða, hvort við eigum að láta sumarið líða svo, að menn geti streymt hingað í atvinnuleit og máske 100–200 manns taki atvinnu frá jafnmörgum íslendingum. Þetta hefir eigi aðeins þýðingu fyrir þá af íslenskum verkamönnum, sem út undan verða, heldur getur það haft mikla þýðingu fyrir bæjar- og sveitarfjelög, sem verða að sjá fyrir framfærslu atvinnuleysingja. Það er hægt að koma frv. þessu í gegnum þingið einhverntíma í mars, og sje það þá þegar sent út til staðfestingar, þá getur það verið orðið að lögum áður en menn eru yfirleitt farnir að búa sig undir atvinnurekstur í sumar og ráða fólk. Jeg álít, að það sje forsvaranlegur frestur, ef lögin ganga í gildi 4–5 mánuðum áður en síldveiðar byrja.

Jeg legg mikið upp úr þessu. Það hefir verið hart í ári að undanförnu, og árið sem leið var eitt hið versta ár, sem yfir okkur hefir komið. Menn eru því illa búnir undir annað atvinnuleysisár. Það er engin ástæða til að óttast það, að aðrir atvinnuvegir, svo sem landbúnaður, bíði neinn hnekki við það, þótt lögin gangi strax í gildi og banni innflutning útlendra verkamanna í sumar, því að undanfarin sumur hefir verið nóg framboð á verkafólki, og svo mun enn verða. Mjer finst því öll rök hníga að því, að frv. eigi sem fyrst að verða að lögum.