21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Jón Baldvinsson:

Jeg var búinn að gera ráð fyrir þeim ástæðum, sem stjórnin hefði fyrir því að láta lögin ekki ganga í gildi 1. október, og það kom ekkert fram í viðbót við þær. Hæstv. stjórn finst tíminn of stuttur fyrir erlenda menn, sem hingað leita um atvinnu. Jeg álít hjer nægilega kurteisi sýnda, ef atvinnurekendur fá að vita þetta þrem mánuðum fyrirfram. Það er aðeins þetta, að hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir, að lögin verði ekki tilbúin fyr en seint í júní, og þá má náttúrlega segja, að fyrirvarinn sje nokkuð stuttur, ef atvinnan á að byrja 1. júlí. En jeg held samt, að maður eigi heldur að líta á hitt, hvort landið í heild sinni tapi eða græði mikið á þessu. Jeg vil að minsta kosti meta það jafnmikils, ef landsmenn hafa hag af þessu, eins og þótt Norðmönnum eða Svíum þætti þetta ekki nægilegur frestur. Jeg get ekki sjeð, að hæstv. stjórn geri sig seka um nokkra ókurteisi, þótt hún reyni að koma þessum lögum í kring í næsta mánuði og ljeti staðfesta þau, svo framarlega sem hún getur nokkru um þetta ráðið, og þá er fresturinn alveg nægilegur. Í tollalöggjöfinni er ekki ætíð verið að hugsa um fyrirvarann, og þó snerta þau lög heilar þjóðir. Jeg má segja, að norski kjöttollurinn kom með tiltölulega stuttum fyrirvara í gildi gagnvart Íslandi. En þetta er afarmikið fjárspursmál fyrir okkur Íslendinga, hvort eitt til tvö hundruð manns verða gerðir atvinnulausir á næsta sumri.

Hæstv. ráðh. (MG) vildi segja, að stjórnin rjeði því ekki, hvenær málið gæti komist fram. Jeg álít, að hæstv. stjórn geti ráðið ákaflega miklu um það. Ef hæstvirtir ráðherrar leggja áherslu á að fá slík lög samþykt sem fyrst, þá geta þeir miklu um það ráðið. Mjer sýnist málið ekki þess eðlis — án þess að jeg geti fullyrt það að svo stöddu — að það ætti að verða mikil fyrirstaða að fá því framgengt. Jeg vil því mælast til þess við háttv. deild, að hún samþykki mínar brtt. Það er engin ókurteisi við neinn, þótt við setjum hjá okkur samskonar lög og aðrar þjóðir hafa þegar sett hjá sjer. Það má afgreiða þetta mál svo fljótt, að það sje nægur tími til þess að láta þá vita, sem atvinnu ætla að reka hjer á næsta sumri, að þeir geti ekki haft það eins og undanfarin sumur.

Viðvíkjandi innflutningi á verkamönnum alment, þá efast jeg um, að íslenskum stjórnarvöldum hafi ávalt verið tilkynt koma þeirra hingað til lands, sem vera ber að lögum. Jeg hefi mikla ástæðu til að ætla, að atvinnurekendur útlendir — og þá sjerstaklega Norðmenn — tilkynni ekki lögreglustjórum í hjeruðum norðanlands, þegar þeir koma með útlenda verkamenn til atvinnu hjer á landi. Þarna sýna þeir okkur litla kurteisi. Um Krossanesverksmiðjuna sannaðist það að minsta kosti, að lögreglustjóra á Akureyri var ekki tilkyntur innflutningur erlendra verkamanna þangað. Jeg ætla, að þetta sje í mörgum tilfellum svona. Þessir atvinnurekendur, sem flytja inn verkamenn, hafa komið þannig fram, að þeirra vegna gerir ekkert til, þótt lögin komi í gildi strax í sumar og stjórnarleyfi þyrfti til innflutnings verkamanna. Geri jeg ráð fyrir, að hæstv. stjórn veiti leyfið, ef um sjerstaka kunnáttumenn er að ræða. En jeg geri líka ráð fyrir, að hún fari varlega í að veita undanþágur frá lögunum að því er snertir innflutning á verkafólki. Jeg get ekki hugsað mjer, að það verði um langan tíma hörgull á því. Það sýna að minsta kosti öll árin frá stríðslokum, að meira og minna af fólki er atvinnulaust á hverju sumri. Þess vegna vænti jeg, að hver stjórn, sem á að framfylgja þessum lögum, fari mjög varlega í að veita undanþágurnar.