16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Háttv. 1. þm. Rang. vísaði fyrst til afstöðu minnar til sjerleyfismálsins í fyrra og sagðist ekki hafa búist við, að jeg legðist svona ákveðið á móti þessu máli nú. Út af þessum ummælum vil jeg vekja athygli hans á, að hjer er mikill munur á. Sjerleyfi það, sem farið var fram á að fá í fyrra, var áreiðanlega helmingi minna en þetta og mjög takmarkað. En þar sem um Þjórsá er að ræða, eru möguleikarnir ekki takmarkaðir við 160 þús. hestorkur.

Hv. þm. sagði, að ekki væri liðið nema eitt ár enn, og ekki það, síðan það var samþ. að veita sjerleyfi til að virkja Dynjandifossana, og að ekki væri hægt að spá neinu, hvorki góðu nje illu, um það. En mjer finst, að það megi gjarnan bíða eitt ár, til þess að sjá, hvað úr þessu verður, áður en farið er að veita önnur sjerleyfi, sem ekki er nein frekari vissa fyrir, að sje neitt annað en „humbug“. Hinsvegar hefi jeg heyrt um þetta Vestfjarðafyrirtæki, að það væri full ástæða til að spá ekki góðu um það. Jeg hefi heyrt því fleygt fyrir um það, og það meira að segja hjá þeim mönnum, sem ættu að vera því vel kunnugir, að það sjeu sáralitlar líkur til, að nokkuð verði úr því. Háttv. þm. sagði, að það væri varla sæmilegt að veita á einu þingi sjerleyfi fjelagi, sem ekkert væri þekt, en svo á næsta þingi að neita fjelagi, sem vel væri þekt; en þessi umsögn á hjer alls ekki við, vegna þess að það fjelag, sem sjerleyfi var veitt í fyrra, er ekki mikið ver þekt heldur en Titan. Jeg er líka sannfærður um, að hv. þm. man eftir því, að þetta mál var mjög vel undirbúið, eftir því, sem við er að búast um svona mál, fullkomin áætlun um stofnkostnað og nákvæmir uppdrættir yfir mikið af mannvirkjunum, og fjelagið, sem stóð fyrir þessu starfi, hefir verið þekt hjer í mörg ár, og auk þess eru margir menn í því fjelagi, sem eru engu síður þektir hjer en þeir, sem í hinu fjelaginu eru, svo að hvað það snertir, þá verður ekki sagt, að það sje neitt ósæmileg framkoma gagnvart Titan, þó að þetta fjelag, sem fyr kom, fengi sjerleyfi, en Titan ekki. Þá þótti hv. þm. það ofsagt hjá mjer, að eftirleiðis mundi fara að rigna niður sjerleyfisbeiðnum; jeg veit nú ekki, hvað þau eru mörg alls, þessi fjelög, en jeg veit bara það, að þau eru fleiri en þessi tvö. Jeg man heldur ekki, hvað þau heita öll, enda geri jeg ráð fyrir, að hv. þm. muni eins vel og jeg, að þau eru fleiri en þetta. Þá vildi hv. þm. líka átelja það hjá mjer, að jeg hefði gefið það í skyn, að Titan hefði flanað út í þetta fyrirtæki að lítt rannsökuðu máli. En hver var reynslan? Hv. þm. lýsti því í framsöguræðu sinni, að Titan hefði sótt um sjerleyfi, en sagði jafnframt, að þótt Titan hefði fengið sjerleyfið, þá mundi það samt hafa hætt við alt saman, af því að tímarnir breyttust. (KIJ: Já, af því að tímarnir breyttust). Já, það er sama; það sýnir, að þeir hafa ekki sjeð fram í tímann, og það er heldur ekki sjeð, að þeir fjármálamenn, sem ráðast í 40 milj. kr. fyrirtæki, geri það, nema því aðeins, að þeir hafi athugað nákvæmlega allar framtíðarhorfur. (KIJ: Áttu þeir að sjá fyrir heimsstyrjöldina?). Jeg veit ekki, hvort heimsstyrjöldin hefir gert svo mikið, heldur hitt, að framleiðsla á þessari vöru, sem gert er ráð fyrir að framleiða, hefir aukist stórkostlega, og ef Titan hefði ráðist í að reisa hjer verksmiðju til þess að framleiða saltpjetur, þá mátti gera ráð fyrir því, sem skeð hefir, að aðrar verksmiðjur hafa verið reistar, svo að samkepnin hefir orðið svo mikil, að fyrirtækin hafa ekki borið sig; og jeg vil leyfa mjer að segja, að ef þeir menn, sem hjer eiga hlut að máli, hafa ekki gert ráð fyrir því, þá er rjettmætt að það svo, að þeir hafi flanað út í fyrirtækið.

Jeg skal ekki deila við hv. þm. um það, að það geti verið eðlilegt, að í umsókn um sjerleyfið hafi verið slept að biðja um leyfi til að leggja járnbraut, og það má líka vel vera, að það hafi verið með ráðum gert, en að minsta kosti get jeg ekki sjeð, að það sje rjett, sem hv. þm. sagði, að járnbraut væri ekki leggjandi nema í sambandi við virkjun, og virkjun ekki framkvæmanleg án járnbrautar, því að fjelagið hlaut að gera ráð fyrir öllu, sem nauðsynlegt væri til virkjunar, og þá hlaut fjelagið að fara fram á að fá að leggja járnbraut fyrir sig, því að það gat alveg eins komist að sömu kostum hjá ríkisstjórninni, svo að jeg get ekki sjeð, hvaða klókskapur það hefir verið að fella þetta atriði niður. Jeg held því, að fjelagið hefði getað komist af með það, sem það bað um í fyrstu, enda er líka þess að gæta, að það er mikill munur á því að leggja bráðabirgðajárnbraut, til þess að koma að sjer vjelum, eða að leggja járnbraut, sem á að vera í rekstri altaf. Og nokkuð er það, sem víst er, að fjelagið hefir ekki farið fram á þetta af því, að það hafi álitið sjer það nauðsynlegt, heldur hefir það gripið til þess að hafa það sem beitu fyrir menn. Hv. þm. sagði, að skýrt væri frá áformum fjelagsins í 12. gr. leyfisbeiðninnar, og að það væri svo margbrotið og mikilfenglegt, að ekki væri hægt að skýra frá því. Jeg hefi ekki átt kost á því að sjá þessa grein, og mig varðar heldur ekkert um það, sem stendur í brjefinu; mig varðar aðeins um það, sem stendur í frv. Þar stendur „til saltpjetursvinslu eða til annarar iðju“, og fjelagið er ekki bundið við annað en það, sem stendur í lögunum, og fyrirtækið er þá, að því er mjer virðist, stofnað alveg út í bláinn.

Háttv. þm. þótti jeg vera allfróður um þessi mál; jeg skal játa, að mjer kom það á óvart, en hinsvegar felli jeg mig vel við það, ef stjórn Titans virðir mig svo mikils að gera mann á minn fund til þess að leita sjer upplýsinga um það, hvað þeir eigi að gera. Jeg skal fúslega veita stjórn fjelagsins þær upplýsingar, sem jeg get, en þá held jeg, að best væri fyrir stjórn fjelagsins að taka þessa beiðni sína aftur, því að málið er þá sannarlega ekki nægilega undirbúið, ef fjelagið þarf að leyta upplýsinga til mín.