16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Jeg vildi segja nokkur orð út af innskoti hæstv. forsrh. um það, að í umsókninni væri beiðni um að mega leggja járnbraut. Jeg hafði skilið hv. 1. þm. Rang. svo, að það hefði ekki verið í upphaflegu beiðninni, en jeg skal ekkert. um það segja, hvort það hefir þá verið formleg beiðni, en að þetta hafi svo verið, sem jeg sagði, staðfestir það, að hv. þm. (KIJ) svaraði mjer um þetta atriði, þar sem hann sagði, að fjelagið hefði verið svo sniðugt að fara ekki fram á það, sem það vissi, að mundi verða heimtað af því. Með þessu er það sannað, sem jeg sagði upphaflega, að það hefir ekki verið beðið um leyfi til járnbrautarlagningar, svo að jeg hefi þá sagt það eitt, sem rjett var. Jeg hefi ekki sjeð þessa leyfisbeiðni, sem fram kom, en áður en hún kom, hefir þá verið farið fram á að fá þetta sjerleyfi, án þess að járnbraut væri nefnd í sambandi við það.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að bæta frekar við þetta, nema jeg vil geta þess, að hv. 1. þm. Rang. fjekk mjer í þessu leyfisbeiðni fjelagsins, með áskorun um að athuga 12. gr. hennar, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa grein. Vona jeg, að menn skilji hana, þótt hún sje á norsku, og sömuleiðis að menn fyrirgefi, að jeg les hana upp án þess að þýða hana. Greinin hljóðar svo:

„Kraften agtes anvendt til fremstilling elektrokemisk eller elektrothermisk av metaller eller metalliske legeringer og deres videre behandling, f. eks. jern, aluminium, zink eller andet, deres legeringer og derivater og andre fabrikationer eller fremstillinger av de til sådan industri hörende stoffer, og ethvert produkt, som er tjenlig til fremstilling av vedkommende metal.

Videre til fremstilling av kunstig gjödning, f. eks. kvælstof eller fosforfabrikationer og ethvert stof eller produkt, som er tjenlig til fremstilling herav, og forövrig til enhver anden utnyttelse, hvortil vandkraft eller elektrisk kraft er tjenlig“.

Mjer finst, að mátt hefði láta sjer nægja niðurlagið, að meiningin er að nota vatnsaflið á hvern þann hátt, sem hægt er að nota vatnsafl. Annars er alt óákveðið. Tilbúinn áburður kemur ekki í fyrsta lið; þeir vita, að framleiðsla hans er ekki glæsileg, en hyggja á eitthvað skárra. Það kemur ekki til nokkurra mála, að þeir hafi nokkra rannsókn á því, hvað hægt sje að gera. Upplestur 12. gr. staðfestir það, sem jeg hefi sagt, að mál þetta er á sandi bygt.