16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þegar mál þetta var hjer til 1. umr., voru haldnar ekki allfáar ræður um það frá almennu sjónarmiði, bæði að því er járnbrautarmálið og sjerleyfið snertir, einkum hið fyrnefnda. Sje jeg því ekki ástæðu til að rifja þær upp nú, því að það yrði ekki til neins annars en að endurtaka það, sem sagt hefir verið bæði nú og í fyrra, og vænti jeg þess, að allir þingmenn fylgi mjer í þessu.

Máli þessu var vísað til samgmn. og hún hefir rætt það á mörgum fundum; til þess hafði hún góðan tíma, þar eð hún hafði ekki annað mál til meðferðar þá. Hún komst fljótt að þeirri niðurstöðu, að rjett myndi að samþykkja það. Að vísu hefir einn nefndarmanna skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, en sá fyrirvari hefir í sjálfu sjer enga þýðingu, og hans óbreytt orð eru, að hann vill ekki leggja stein í götu frv., ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, en annars mun hann sjálfur gera grein fyrir þessum fyrirvara sínum.

Þá kem jeg að brtt. nefndarinnar. Fyrsta brtt. er um heimild til þess að gera uppistöðu í ánni ofan við fossinn og strengi þá, sem að honum liggja, hækka eða lækka vatnsborð eða farveg, gera vatnsrásir o. s. frv. Úr því aðeins var beðið um að virkja Urriðafoss einan, þá fanst nefndinni eðlilegast að miða hana við fossinn sjálfan, en ekki gefa heimild til meira en um var beðið; þess vegna fanst henni gengið of langt, þegar vötn, sem liggja 60–70 km. frá Urriðafossi, eru tekin með. Nefndin vildi með þessari brtt. veita heimild til þess að gera öll þau mannvirki, sem nauðsynleg eru til virkjunar fossins, en heldur ekki meira. Við nánari athugun þótti nefndinni þó ef til vill þessi brtt. of þröngt orðuð, og hefir það orðið samkomulag að taka hana aftur til 3. umr. og athuga hana betur.

Þá er 2. brtt. Nefndinni fanst rjett, að það sje beint tekið fram í sjerleyfinu sjálfu, hvar og hvernig raforku megi leiða frá orkuveri að iðjuveri.

Þriðja brtt. nefndarinnar er að breyta orðinu „eða“ í „og“; þykir það rjettara og ákveðnara, svo það komi skýrt og skýlaust fram, að fjelagið sje fyrst og fremst skylt að framleiða saltpjetur, því að það er aðallega með það fyrir augum, sem jeg hygg, að mikill hluti alþm. vilji samþykkja frumvarpið. Þar með er og hrundið mótbáru hv. 1. þm. Reykv. við 1. umr., að fjelagið viti ekki, hvað það ætli að framleiða. Það var auðvitað rangt, en með þessu ákvæði er það lögbundið, að það skuli framleiða þessa vörutegund. Þetta er og í samræmi við tilætlun fjelagsins.

Hvað 4. brtt. snertir, þá er hún lítilfjörleg og miðar til þess að binda ekki framsal sjerleyfisins einungis við skilyrðin, sem sett eru í 2. gr„ um varnarþing o. fl., heldur binda það við öll skilyrði sjerleyfisins.

Þá er 5. brtt. nefndarinnar. Ástæðurnar fyrir henni eru teknar fram í nál. Nefndin vildi ekki binda útsvarsgreiðsluna beint við útsvarslögin, heldur heimila ráðherra að skifta útsvörunum milli þeirra sveitarfjelaga, er geta sannað, að þau bíði átroðning og usla af fyrirtækinu. Hinsvegar er ekki líklegt, að þau sveitarfjelög, er leiðslurnar liggja um, bíði usla af því, en óhugsandi er það ekki. Hitt getur aftur auðveldlega komið fyrir, svo sem með það sveitarfjelag, sem nefnt er í nál.

Sjötta brtt. er fram komin sakir þess, að nefndinni þykir rjett að taka beint fram, að tillagið úr ríkissjóði greiðist hlutfallslega eftir á, eftir því sem járnbrautinni miðar áfram. Auðvitað myndi slíkt ákvæði hafa verið sett inn í sjerleyfið, en nefndin álítur tryggilegra að taka það beinlínis fram í lögunum. Þessi brtt. mun því varla sæta andmælum frá þeim, sem annars eru frumvarpinu hlyntir.

Þá kemur síðasta brtt., sem er aðalbreyting nefndarinnar. Eins og kunnugt er og margtekið var fram við 1. umr. þessa máls, þá heimilaði síðasta þing að virkja Dynjandisá í Arnarfirði. Fjelag það, sem leyfið fjekk, hafði lítið aðhafst hjer áður og var því lítt þekt. En þó var engin trygging heimtuð fyrir því, að sjerleyfið yrði notað. En Titan hefir þegar varið hart nær einni milj. króna til mælinga, kaupa á vatnsrjettindum o. s. frv., og það fje hefir að mestu leyti runnið til landsmanna sjálfra. Auk þess greiðir það enn í dag talsvert fje fyrir leigurjettindi m. m. Af þessum ástæðum þótti nefndinni ekki sanngjarnt að heimta af Titan tryggingu, en vildi samt leggja aðhald á fjelagið, að það byrjaði sem fyrst og fullgerði járnbrautina, og með það fyrir augum kom hún með þessa brtt. Það kann nú sumum að virðast, að brtt. þessi veiti fjelaginu ívilnun frá ákvæðum frv., en það er ekki, heldur herðir hún að mun að sjerleyfishafa. Eftir ákvæðum frv. er nóg, ef sjerleyfishafi byrjar á járnbrautinni 1. maí 1929, en svo getur hann alveg lagt árar í skut um lengri tíma, aðeins ef hann er búinn 1. júlí 1933. En eftir brtt. er hann skyldur að halda áfram með hæfilegum hraða, og ef verkið stöðvast á fyrsta eða öðru ári, fellur sjerleyfið úr gildi í árslok 1931, eða í rauninni tveimur árum áður en frv. áskilur. Þetta er því áherðing frá ákvæðum þess, og þar við bætist svo, að í þessu tilfelli verða öll unnin mannvirki eign ríkissjóðs án nokkurs endurgjalds af hans hálfu. Missir þá sjerleyfishafi alt, sem hann hefir lagt til járnbrautarinnar. Þetta er í sannleika hart aðhald, svo hart, að jeg veit ekki, hvort fjelagið sjer sjer fært að ganga að því, og því verður ekki neitað, að það er ólíkt harðara en það, sem sett var í Dynjandisárlögin. Jeg vona nú samt, að fjelagið gangi að þessu, því jeg er sannfærður um, að því auðnist að fá nægilegt fje til umráða, þar sem að því standa mjög miklir fjármálamenn. Jeg verð þess vegna að leggja það til fyrir nefndarinnar hönd, að þessar brtt., nema sú 1., sem tekin er aftur til 3. umr., verði samþyktar, og eins sú síðasta, þótt mjer sjálfum sje það ekkert kappsmál í sjálfu sjer; en jeg giska á, að hv. þdm. sjái það, að hjer er um mikið aðhald að ræða, og jeg býst við að fá bráðlega vitneskju um undirtektir Titans hvað 7. brtt. snertir.

Þá hefi jeg gert grein fyrir þeim brtt., sem nefndin hefir komið fram með. Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að hafa langa ræðu um þær, heldur aðeins taka fram tilgang þeirra í fáum orðum. Hjer eru ennfremur komnar fram brtt. á þskj. 162, frá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og hv. þm. N.-Þ. (BSv), og þótt hv. aðalflm. (ÞórJ) hafi ekki talað fyrir þessum brtt., get jeg þó talað um þær, vegna þess að hv. þm. talaði um þetta atriði málsins við 1. umr., og það var ekkert annað en það, sem búast mátti við eftir þeim ummælum, sem hv. þm. Ijet falla við 1. umr., að hann myndi koma fram með slíkar brtt. Jeg get þess vegna talað um þessar brtt. strax fyrir mína og nefndarinnar hönd. Mjer skilst af þessum brtt., að svo framarlega sem sjerleyfishafi vill gefa landinu alla járnbrautina frá Reykjavík og austur að Þjórsá, að hv. flm. vilji þá vera svo náðugir að gefa sjerleyfishafa heimild til þess að virkja Urriðafoss, sem búast má við, að verði til mikilla hagsmuna fyrir allan bændalýð á Íslandi, og þó sjerstaklega til ómetanlegra hagsmuna fyrir bændur á öllu Suðurlandsundirlendinu. Jeg get nú ekki verið hv. flm. sjerstaklega þakklátur fyrir það, þótt þeir með þeim skilyrðum vilji gefa þetta sjerleyfi, en jeg get um það, hvort það sje sanngjarnt, að sjerleyfishafi leggi fram alt fjeð til járnbrautarinnar, eða hvort landið eigi ekki að leggja nokkuð til, vísað til þeirrar glöggu greinargerðar, sem hæstv. forsrh. gaf við 1. umr. málsins. Hæstv. forsrh. sýndi þar fram á, að það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að landið legði eitthvað til. Jeg vil þess vegna lýsa yfir því, að svo framarlega sem þessar brtt. verða samþyktar, þá er málið alveg fallið, og jeg veit meira að segja, að í þessu atriði hefir sjerleyfisbeiðandi gengið talsvert lengra en meiningin var upphaflega. Eftir því, sem jeg skildi hæstv. ráðherra (JÞ og MG), þegar jeg átti tal við þá fyrir jólin í vetur, voru þeir ekki fráhverfir því að bera fram frv. um járnbraut, með því skilyrði, að lagt væri fram 2/3 hlutar járnbrautarverðsins, en hæstv. atvrh. hefir nú fengið þá til að ganga talsvert lengra,

því að nú er það tilskilið, að tillag ríkissjóðs megi ekki fara fram úr 2 milj. króna; en eftir áætlun Sverre Möllers verkfræðings kostar járnbraut hjeðan austur að Ölfusá 6 milj. króna, og er þá tillag ríkissjóðs ekki nema 1/3 af þeim kostnaði. Verður þá sjerleyfishafi fyrst og fremst að byggja járnbrautarbrú yfir Ölfusá, og alla leiðina austur að Þjórsá, sem mun vera um 20 km. Þetta skuldbindur sjerleyfishafi sig til að leggja alveg á sinn eiginn kostnað. Þetta hefir hæstv. ráðh. (MG) getað þokað sjerleyfishafa til að ganga inn á. Jeg get ekki ímyndað mjer annað en að ný brú yfir Ölfusá og járnbraut þessa 20 km. muni kosta um 3 milj. króna, svo að alls leggur Titan þá til þessarar járnbrautar 7 milj. króna. Þetta er svo há upphæð, að ekki verður krafist, að fjelagið gangi lengra í þessu, og það verður ekki landinu ofætlun, þótt það leggi til 2 milj. kr. í þessa ágætu samgöngubót, sem fjöldi manna hefir vonast eftir. Jeg vona þess vegna, að þeir, sem vilja fá slíka samgöngubót og vilja hlynna að landbúnaðinum með þessu, muni samþykkja þetta frv. ekki síður en Dynjandafrv. í fyrra, og að þeir felli brtt. hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. N.-Þ., svo framarlega sem þeir ekki vilja sýna málinu þá vinsemd að taka þær aftur.