16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal byrja á því að þakka hv. samgmn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu þessa máls. Jeg hefi lítið við brtt. hennar að athuga. Vil þó benda á viðvíkjandi síðustu brtt., sem er um það, að svo framarlega, sem ekki verður byrjað á lagningu brautarinnar fyrir 1. maí 1929, þá lengist sá frestur, sem fjelaginu er veittur, um 2 ár. En samkvæmt frv. stjórnarinnar er það svo, að sje ekki byrjað á verkinu fyrir 1. maí 1929, fellur sjerleyfið niður þegar í stað. Þessari brtt. geri jeg tæpast ráð fyrir að greiða atkvæði mitt. Um 3. brtt., við 1. gr. 5. lið, að í staðinn fyrir „eða til“ komi „og“, vil jeg segja það, að hún er í samræmi við það, sem um hefir verið talað við væntanlega sjerleyfishafa, að þeir skuli ekki bundnir við, til hvers þeir noti orkuna, að undantekinni saltpjetursvinslunni. Þetta er því öllu skýrara til orða tekið en í frv.

Viðvíkjandi 6. brtt., við 8. gr., vil jeg taka það fram, að það hefir verið tilskilið við hlutaðeigendur, að tillag ríkissjóðs yrði greitt í hlutfalli við það, sem þeir legðu sjálfir fram og verkinu miðaði áfram. Jeg tek þetta fram út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði um þetta. Það er engin hætta á, að ríkissjóður fari að greiða alt fjeð fyrirfram. Annars var mín tilætlun, að ákvæði um þetta kæmu í sjerleyfi, en ættu ekki að vera í lögunum.

Og í þessu atriði liggur mikil svipa á fjelagið um að halda verkinu áfram, því að hætti það verkinu, á ríkissjóður 1/3 af því, sem búið er, alt að 6 milj. kr., og fjelagið getur ekki tekið hinn tilbúna brautarspotta burtu nema með samþykki meðeiganda síns, ríkissjóðs.

Mig langar nú til að gera samanburð á sjerleyfi því, sem veitt var í fyrra til að virkja Dynjandisá, og þessu sjerleyfi. Eins og háttv. deildarmenn muna, var Dynjandasjerleyfið veitt með því skilyrði, að aðeins væru greiddar 3 kr. fyrstu 3 árin fyrir hverja nýtta hestorku og síðan 5 kr. Hjer eiga hlutaðeigendur að greiða 3 kr. á ári fyrstu 10 árin, síðan 5 kr. á ári. Mismunurinn er 2 kr. á ári í 7 ár. En á móti þessu kemur 83 km. járnbraut frá Reykjavík til Þjórsár. Hún kostar 8–9 milj. kr., segjum 8 milj. Þar upp í fær fjelagið 2 milj. kr. úr ríkissjóði og 2 kr. fyrir hverja nýtta hestorku í 7 ár. Eftir útreikningi fagmanna er ekki líklegt, að úr Urriðafossi fáist meira en 100 þús. nýttar hestorkur á ári. Sá liður verður í 7 ár 1400000 kr. Mismunur er 4600000 kr. Þannig er þetta sjerleyfi rúmlega hálfri 5. milj. kr. betra en það í fyrra, án þess þó að nokkurt þjóðþrifafyrirtæki væri í sambandi við það.

Mjer kemur það því mjög á óvart, ef þessu tilboði verður ekki tekið. Jeg þóttist hafa komist að eins góðum samningum og frekast var unt og hjelt, að hv. Alþingi myndi taka þeim tveim höndum.

Vitaskuld hefði það verið betra að þurfa ekkert að leggja fram til járnbrautarinnar sjálfir, ef við hefðum samt getað haft sömu yfirráð yfir brautinni eins og við nú getum haft með því að leggja fje til hennar. En sanngjarnt ,væri það ekki. En þetta framlag ríkissjóðs hefir verið áskilið af fjelaginu og að betri skilmálum var ekki hægt að komast en að við legðum 2,milj. kr. fram. En stjórnin gekk út frá því, að þetta fje yrði að taka að láni, því að engar líkur eru til þess, að ríkissjóður geti lagt það fram af árlegum tekjum sínum á þessum árum, þótt útilokað sje það ekki með öllu. En jeg geng ekki út frá því, en held mjer við heimild þá, sem felst í frv., að stjórnin megi taka 2 milj. kr. lán í þessu skyni.

Það væri auðvitað betra að geta losnað við að taka lán, en jeg held jeg geti sýnt fram á það, að þótt við þurfum þess, þá verði það enginn drápsbaggi. Jeg geng út frá því, að við getum fengið lánið til 20 ára með 6% vöxtum. Þá þurfum við að borga á fyrsta ári 220 þús. kr.; síðan fer sú fúlga minkandi um 6 þús. kr. á ári. Verði nú af virkjuninni, fáum við fyrstu 10 árin 300 þús. kr. á ári og síðan, eftir 10 ár, 500 þús. kr. M. ö. o., verði af virkjuninni, verður gjaldið af henni meira en þarf til að borga vexti og afborganir af láni ríkissjóðs. Jeg get því ekki sjeð, að það sje sjerlega hættulegt að taka lán í þessu skyni. Hjer er gengið út frá, að verði af virkjuninni. En sje gengið út frá, að ekki verði af henni, þá höfum við fengið 83 km. járnbraut fyrir 2 milj. kr., og það er vitaskuld afaródýrt. Svo er líka annað atriði, sem taka verður til greina, að komi járnbrautin þessa löngu leið, losnar ríkissjóður við talsverð útgjöld. Það þarf að halda við veginum austur, og það viðhald er dýrt, umferðin er mikil og mun vaxa á næstunni. Viðhaldskostnaðurinn eykst því stöðugt. Jeg get upplýst það, að síðan 1920 hefir verið varið til viðhalds og endurbóta á veginum austur að Þjórsá að meðaltali rúmlega 100 þús. kr. á ári. Komi járnbraut þessa leið, er enginn efi á, að mikið fje sparast í viðhaldskostnaði. Jeg hefi spurt vegamálastjóra að því, hvað hann áliti, að sparaðist árlega á viðhaldi, ef brautin kæmi, og hvað þyrfti til þess, ef brautin kæmi ekki. Hann sagði, að það yrði ekki undir 100 þús. kr. á ári með þeirri umferð, sem nú er. En kæmi járnbraut, myndi umferðin minka það mikið, að viðhaldskostnaður yrði aðeins 1/3 af því, sem hann nú er. Og hann segist miða þetta við viðhald á öðrum vegum.

En til þess að ganga ekki of langt, vil jeg gera ráð fyrir, að helmingur þess, sem nú fer í viðhald veganna, sparaðist við brautina. Það yrðu 50 þús. kr. á ári. Það myndi slaga hátt upp í vexti af annari miljóninni, sem tekin væri til láns. Auk þess má benda á, að ríkissjóði hlotnast ekki litlar tekjur af fyrirtækinu í innflutningsgjöldum og tollum. Það fer því ekki fjarri því, að ríkissjóður fái þannig í þessu vexti af báðum miljónunum.

Þetta er fjárhagslega hlið málsins, og hún er ekki ægileg.

Svo er hin hlið málsins, samgöngubótin, sem kemur að liði alt að þriðjungi þjóðarinnar. Um þetta þarf ekki að ræða, því að allir munu þekkja til áhrifa járnbrautanna og þýðingar þeirra fyrir samgöngurnar. Og okkur ríður langmest á samgöngubótum, því að þær eru undirstaða allra verklegra framkvæmda og framfara.

Það hefir verið vikið að því, að það hefði enga þýðingu fyrir fjelagið, hvort við legðum fram þessar 2 milj. eða ekki. Þetta er hægt að segja, ef litið er á það eitt, að fjelagið útvegi alt fjeð til virkjunarinnar. En hitt er meira um vert, að við sýnum í verkinu áhuga okkar og að okkur þyki einhvers um vert að fá þessa samgöngubót með því að leggja eitthvað fram til hennar, og það er mælikvarði fyrir þá, sem ætla að leggja fram fje í fyrirtækið, því að leggjum við ekkert fram, álíta þeir, að við sjáum enga flutningamöguleika, svo það getur orðið til þess að þeir kippi að sjer hendinni. En hitt sýnir þeim, að þjóðin trúir á fyrirtækið og er fús til að leggja byrðar á sig til þess að fá járnbrautina. Því hefir verið haldið fram, að járnbrautin sje sjálfsagt skilyrði til þess að geta virkjað fossana. Það er ekki rjett. Það er hægt að koma austur þeim vjelum, sem með þarf, án járnbrautar.

Hvað það snertir, að Alþingi þurfi að kippa að sjer hendinni með veitingu sjerleyfa, þá sje jeg ekki, að svo langt sje komið á þeirri braut, að vjer þurfum að iðrast, þótt vjer veitum þetta sjerleyfi, því að engin hætta er á ferðum. Það gladdi mig að heyra hv. þm. V.-Húnv. segja, að hann gerði þetta mál ekki að kappsmáli. Og mjer þykir vænt um að heyra, að hann er nær því að fylgja þessu frv. en frv. í fyrra, enda liggur málið sannarlega alt öðruvísi fyrir nú en þá.

Aðalatriðið í augum meðmælenda þessa máls er, hverjar líkur sjeu fyrir því, að af þessu fyrirtæki verði. Jeg get þar vísað til ræðu hv. frsm. þessa máls, sem er í stjórn fjelagsins. Vona jeg, að hv. deildarmenn rengi ekki frásögn hans um það. Mjer er einnig persónulega kunnugt um það, að í fjelaginu eru þektir menn í fjármálaheiminum, sem líklegir eru til þess að geta útvegað það fje, er með þarf. Og eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi nýlega fengið, geri jeg mjer fulla von um, að framkvæmdir geti bráðlega orðið í þessu máli.

Annars get jeg tekið undir það með háttv. ræðumönnum, að langar ræður hafi litla þýðingu í þessu máli, og skal því ekki tefja tímann lengur við þetta mál.