16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob Möller:

Svo er til ætlast við þessa umræðu, að rætt sje aðallega um einstök atriði frv., en jeg býst við, að jeg komist ekki hjá því að tala nokkuð alment um málið líka. Jeg skal þó í byrjun víkja að einstökum atriðum þess. En jeg hlýt að hafa hjer nokkuð aðra skoðun en þeir, sem tekið hafa til máls hingað til.

Yfirleitt skilst mjer, að þm. vilji bera það fyrir, að málið sje aðallega járnbrautarmál, og sem tákn þess hefir því verið vísað til samgöngumálanefndar við 1. umr. En það ætti að vera öllum ljóst, að málið er miklu víðtækara en svo, að það sje aðeins samgöngumál. Hv. þm. hafa mjög haldið fram þýðingu og nauðsyn járnbrautarinnar. En það er annað í þessu efni, sem er enn þýðingarmeira en járnbraut austur að Þjórsá.

Það er lakur fiskimaður, sem ekki beitir vel öngulinn, enda sparar enginn beituna, ef hann vill fiska. Hjer er öngullinn vel beittur, og beitan er í mynd járnbrautarinnar. Er það líka hin girnilegasta beita, sem völ er á. Og hún virðist hafa þann stóra kost fyrir útgerðarmanninn, að hún virðist jafnvel ekki þurfa að kosta neitt. — Mjer virðist málið horfa þannig við, ólíkt því, sem háttv. 2. þingmaður Árn. (JörB) hjelt fram, að rjettur ríkisstjórnarinnar sje harla illa trygður í frv. Það stendur að vísu svo í 9. gr., að ráðherra skuli samþykkja flutningsgjöldin. Eftir venjulegri málvenju þýðir þetta ekki annað en það, að hann sje skyldugur að samþykkja þau gjöld, sem eigendur brautarinnar setja. Þetta ákvæði hljóðar ekkert um það, að ráðherra ákveði sjálfur gjöldin. (Atvrh. MG: Það liggur í því). Nei, hjer segir aðeins, að hann sje skyldugur að samþykkja það, sem hinir koma með. (Atvrh. MG: Já, ef honum líst svo). Nei, um það stendur ekkert. Segjum t. d., að tveir menn geri með sjer samning, og að í þeim samningi standi, að annar þeirra „skuli“ gera þetta eða hitt, þá er hjer um hreina skuldbindingu að ræða frá hans hendi.

Hjer við bætist svo, að þótt í gr. sje kveðið svo á, að fjelagið reki járnbrautina á sinn kostnað, þá eru engin viðurlög sett, ef það gerir það ekki. Fjelagið getur hætt hvenær sem er, — og hvað verður þá? Ríkissjóður er þá neyddur til að taka við öllu saman fyrir það, sem það kostar. Hjer er því ekki um neina betri aðferð að ræða en þá, að ríkið ráðist sjálft í þessar framkvæmdir. Því að járnbrautin verður því aðeins rekin af fjelaginu, að það hafi hagnað af henni. Ef tap verður á rekstrinum, hættir fjelagið, og þá kemur til kasta ríkisins. Að þessu leyti er áhættan lítil fyrir sjerleyfishafa, þótt þeir leggi járnbrautina, og því er beitan ekki dýr.

Jeg vil taka undir það með háttv. 2. þm. Árn., að æskilegast væri, ef leggja skal járnbraut, að við værv.m færir um að gera það upp á eigin spýtur. Við fáum hvort sem er engar gjafir í þessu efni frá útlendingum. Þeir koma ekki hingað með neinar gjafir, heldur til þess eins að hafa ágóða af fyrirtækjum þeim, sem þeir leggja fje í. En þó að fjelagið, sem standa á fyrir þessum framkvæmdum, reki nú járnbrautina, þá er það víst, að hún verður ekki rekin fyrst og fremst með hag landsins fyrir augum, heldur eingöngu með hag fjelagsins sjálfs. Það er í alla staði óheppilegt að fela nauðsynleg samgöngutæki einkafjelagi, er hugsar aðeins um eigin hagsmuni, og þar á ofan útlendu fjelagi, sem að engu leyti er háð hag og velgengni manna hjer á landi. Það er rjett hjá hv. 2. þm. Árn., að það er ekki glæsileg braut, sem við erum að leggja hjer út á, að fá útlendingum í hendur samgöngutæki þessi. — Við höfum reynt á allan hátt að bæta samgöngurnar á sjó og ná þeim að sem mestu leyti í okkar hendur. Og jeg býst við, að enginn sjái eftir því fje, sem í það hefir farið. Allir æskja þess, að við náum sem fyrst samgöngunum á sjónum algerlega í okkar eigin hendur. En hví á þá að fela útlendingum samgöngurnar á landi?

Þá er annað athugavert við frv., sem sje, að ekki skuli vera neitt ákvæði í því um það, hvernig járnbrautin skuli gerð. Að vísu er sagt í aths. við frv., að þetta verði tekið fram í sjerleyfinu. En það hefði þá eins vel farið á því, að í frv. væri trygt, að minsta kosti, að járnbrautin yrði ekki bygð úr járnarusli, sem ónothæft er í Noregi.

Meðan verið er að tala um frv. og einstakar greinar þess, vildi jeg koma fram með þá spurningu, hvort 3. gr. muni ekki vera alveg óþörf. Mjer skildist á hv. frsm., að það sje gert ráð fyrir því, að fossafjelagið Titan komi þessu máli í framkvæmd. En þá er ekki þörf á því að veita undanþágu hvað snertir framsal á sjerleyfinu. Það er ekki nauðsynlegt, nema gert sje ráð fyrir, að fjelagið ráðist ekki sjálft í þetta fyrirtæki, heldur reyni að gera sjer mat úr sjerleyfinu, til þess að ná aftur því fje, sem það þegar hefir lagt í kostnað, með því að selja það Englendingum, Ameríkumönnum, Þjóðverjum eða hverjum, sem hafa vilja. Jeg álít því, að 3. gr. sje ekki nauðsynleg, eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið.

Hæstv. atvrh. sagði, að enn væri ekki komið svo langt út á þá braut að veita sjerleyfi, að nokkur hætta væri á ferðum. Í fyrra voru þó samþykt tvö „svindil“-braskssjerleyfi. (KIJ: Þm. var þó með öðru þeirra). Nei, jeg hafði sjerstöðu í nefndinni. Jeg kann hæstv. stjórn þakkir fyrir, „að hún hefir þó ekki veitt annað sjerleyfið. Hitt hefir enn ekki komist til framkvæmda, vegna þess, að þeir, sem um það sóttu, hafa ekki reynst þess megnugir að útvega það fje, sem nauðsynlegt var til framkvæmda. Það vantaði þó ekki, að hv. fylgismenn þessa máls fullyrtu, að hægt væri að útvega fje. Þeir höfðu jafnvel skjöl og skilríki frá ýmsum mætum fjármálamönnum í Danmörku, sem ljetu í veðri vaka, að þeir gætu útvegað nægilegt fjármagn. — Jeg var að bíða eftir því, að hæstv. atvrh. gæfi upplýsingar um, hverjar líkur væru fyrir því, að Titan gæti komið þessu fyrirtæki í framkvæmd. Um þetta var rætt við 1. umr., og þá hjelt jeg því fram, að engin trygging væri fyrir því, að fjelagið gæti útvegað fje, en háttv. frsm. hjelt fram hinu gagnstæða. Þá var og vísað til þess, að hæstv. atvrh. mundi gefa þær upplýsingar, sem leiða mundu hina efagjörnu í allan sannleika. Mjer brá því heldur en ekki í brún, þegar upplýsingarnar komu, því að þær voru í því einu fólgnar, að hæstv. atvrh. sagði sjer vera kunnugt um, að þeir menn stæðu að fjelaginu, sem líklegir væru til þess að geta útvegað hið nauðsynlega fje. En hverjir það eru, sem líklegir eru til þessa, er ekki sagt. Hjer endurtekur sig hið sama og í fyrra. Upplýsingar hæstv. atvrh. í þessu efni eru lítils virði. Enda eru fyrirætlanir fjelagsins svo á hverfanda hveli og í lausu lofti, að lítil von er til þess, að hægt verði að útvega fje að svo komnu máli.

Hv. frsm. hjelt því fram við 1. umr., að fjelagið mundi leggja fyrir sig áburðarvinslu aðallega. En samkvæmt sjerleyfisbeiðninni er hún þó ekki talin í fyrstu röð ráðagerða fjelagsins, heldur í annari, eins og til vara. Brtt. nefndarinnar, að í stað orðanna „eða til“ komi „og“, gerir hjer hvorki til nje frá og er alls ekki skuldbindandi fyrir fjelagið um að leggja fyrir sig áburðarvinslu. (KIJ: Það er merkilegt!). Já, það er nú svona merkilegt, því að eftir sem áður felur frv. aðeins í sjer heimild fyrir fjelagið til að gera þetta. — Þessi liður 1. gr„ þannig breyttur, hljóðar svo: „Atvrh. skal vera heimilt að veita hlutafjelaginu Titan sjerleyfi til að reisa iðjuver til saltpjetursvinslu og annarar iðju, til hagnýtingar raforkunni“. Hjer er vitanlega ekki um neina skuldbindingu að ræða, þótt atvrh. veiti sjerleyfið. Hitt vil jeg láta í ljós, að mjer finst fara betur á að hafa þarna „eða“, því að það eru hvort eð er 9–11 „eða“ í þeirri grein sjerleyfisbeiðninnar, sem greinir frá því, hvað fjelagið ætlar gera. Það er þetta eða hitt — eða hitt — eða hitt, o. s. frv. Og jeg get ekki að því gert, að mjer þykir næsta ólíklegt, að erlendir fjármálamenn sjeu óðfúsir á að leggja stórfje í þessi „eða“, þó þau sjeu nógu mörg. Jeg býst við, að þeir vilji hafa það eitthvað ákveðnara.

Jeg held fast við það, sem jeg sagði hjer við 1. umr., að fyrirætlanir fjelagsins eru í lausu lofti. Það er engin trygging fyrir því, að einn eyrir fáist til fyrirtækisins, hvað þá 40–50 miljónir. En það eru fleiri hliðar á þessu máli. Frá mínu sjónarmiði er það æskilegast, að möguleikar fjelagsins til að afla sjer fjár sjeu engir, því að jeg tel síður en svo æskilegt, að fyrirætlanir fjelagsins komist til framkvæmda. Jeg er sannfærður um, að þær hefðu þær afleiðingar, sem ekki væru happadrjúgar fyrir þessa þjóð. Jeg furða mig á þeim háttv. þdm., sem í sambandi við önnur mál láta svo, sem öll velferð þjóðarinnar sje undir því komin að stöðva fólksflutninginn úr sveitunum, ef þeir fylgja þessu máli í þeirri meiningu, að það komist til framkvæmda. Hver verður afleiðingin af því? Frv. gerir ráð fyrir virkjun 160 þús. hestafla í Þjórsá. Ef jeg man rjett, þá var gert ráð fyrir því í fyrra, að til atvinnurekstrarins í sambandi við virkjunina á Vesturlandi mundi þurfa 600 verkamenn, en sú virkjun var helmingi minni en virkjun sú, sem hjer er um að ræða. Hjer mundi því þurfa 1200 verkamenn. En hjer við bætist, að þessi 160 þúsund hestöfl eru ekki nema lítill hluti vatnsaflsins í Þjórsá. Ef fyrirtækið yrði rekið þannig, að það væri arðberandi, þá yrði haldið áfram að sækja um sjerleyfi og haldið áfram að veita sjerleyfi, og fleiri og fleiri menn teknir í þetta fyrirtæki frá öðrum atvinnuvegum landsins. Jeg gæti trúað, að járnbrautin yrði óþörf áður en langt liði, því að engir menn yrðu eystra til þess að hafa gagn af henni. Fólkið til þessarar vinnu hlyti að koma úr sveitunum. Þótt eitthvað af vinnukrafti kæmi úr Reykjavík, þá kæmi fólk úr sveitunum til Reykjavíkur í skörðin. En það eru ekki aðeins þessir 1200 verkámenn, sem fylgja fyrirtækinu. Í kjölfar þeirra flýtur sægur af öðru fólki, sem hefir atvinnu í sambandi við þá. Það er gert ráð fyrir, að aðalbækistöð fjelagsins verði við Skerjafjörð. Ef fyrirtækið verður arðberandi, þá risi þar bráðlega upp bær, sem yxi smám saman og yrði eins stór og Reykjavík. Þangað flyktust iðnaðarmenn, verslunarmenn, kennarar o. s. frv. í sambandi við fyrirtækið og fólkið, sem vinnur þar. Hvaðan kæmi þetta fólk? Auðvitað úr sveitunum. Ef slík stóriðja, sem hjer er um að ræða, kæmist á, þá mundi hún gereyðileggja sveitir landsins. Það mætti segja, að það gæti verið álitamál um þetta, ef hjer væri um að ræða arðberandi atvinnuveg fyrir þjóðina í heild, þannig, að hún lifði betra lífi eftir en áður. En hjer er þess að gæta, að fyrirtæki þetta er sett á stofn fyrir útlendinga. Einu gæðin, sem Íslendingar hafa af því, eru þau, að þeir fá að vinna fyrir sultarlaun, þau minstu, sem vinnuveitandi kemst af með. Allur arður, ef nokkur verður, rennur til útlendinganna, sem eiga fjeð. Það er fleira, sem athuga má í þessu sambandi. Þegar talað er um þetta sjerleyfi, þá er að ræða um fyrirtæki með 40–50 miljóna stofnkostnaði. Hv. þm. athugi, að þetta er miklu meira fje en alt það fje, sem nú er í togaraútgerðinni. Þetta eina útlenda fyrirtæki verður því öflugra en öll togaraútgerðin til samans. Margfalt öflugra. Hjer við bætist það, að með þessu er ekki ákveðið endanlega, hversu stórt fyrirtækið verði. Það er áætlað, að Þjórsá hafi 1 miljón hestafla. Hjer er ekki farið fram á að virkja nema 1/5 part af því. Ef Þjórsá yrði öll virkjuð, þá mundi til þess þurfa 5 X 40 = 200 milj. króna. Hvað halda menn um þau áhrif, sem slíkt stórfyrirtæki gæti haft á hag og stjórn landsins? Menn þurfa ekki að fara í grafgötur um það. Þetta er heldur ekki einsdæmi í veraldarsögunni, að útlendingar komi til annara landa, fái sjerleyfi og hefji þar stóriðju. Fólkinu í landinu er talin trú um, að hjer sje aðeins verið að hugsa um heill þess og velmegun, en svo fer á endanum, að fólkið í landinu verður ánauðugir þrælar þeirra útlendinga, sem stofnsettu fyrirtækið. Það þarf ekki að búast við því, að við verðum stæltari í þessu efni en aðrar þjóðir, sem orðið hafa að lúta.

Það eru tvær hliðar á þessu máli. Mjer þykir nú líklegra, að ekkert verði úr framkvæmdum. En ef við búumst við, að hjer sje aðeins um brask að ræða, þá er Alþingi ekki samboðið að samþykkja þetta frv. En ef við getum búist við, að úr framkvæmdum verði, þá er málið enn ískyggilegra og frv. ófýsilegra til samþyktar. Jeg mun því óhikað greiða atkvæði móti þessu frv.