16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) rjeðist af miklum móði móti þessu frv. og fann því margt til foráttu. M. a. fann hann að orðalaginu á 9. gr. frv., að ráðherra „skal“ samþykkja flutningsgjöld járnbrautarinnar. Vildi hann skilja þetta svo, sem ráðherra væri skyldur að samþykkja þau gjöld, er fjelagið legði til. — En þetta er aðeins nauðgun á venjulegu máli. Ákvæðið þýðir vitanlega ekki annað en það, að taxti fjelagsins sje því aðeins gildur, að ráðherra samþykki hann. Og jeg býst við, að treysta megi hverjum ráðh. til að samþykkja ekki bersýnilega ósanngjarnan taxta. Af minni hálfu var einmitt sjerstaklega rætt um þetta atriði við væntanlegan sjerleyfishafa, sem ekkert hafði út á mína skýringu að setja.

Háttv. þm. sagði, að fjelagið gæti hætt að reka brautina, ef því sýndist svo. Það er nú einmitt það, sem það getur ekki eftir frv. Því að í 9. gr. þess stendur: „Sjerleyfishafi framkvæmir járnbrautarlagninguna og rekur fyrirtækið á sinn kostnað, . . . . “ En geti fjelagið ekki gert þetta, — hvað þá? Þá getur ríkisstjórnin tekið brautina eignarnámi, ef hún vill. Vilji hún það ekki, þá er ekki annað eða hættulegra á ferðum en það, að brautin stendur ónotuð. Jeg á bágt með að skilja, hvað óvinir hennar sjá athugavert við það. — Jeg býst við, að við mundum að sjálfsögðu taka brautina og reka hana, því að óhugsandi er annað en að sjálfur rekstur hennar borgi sig, ef ekki þarf að svara vöxtum af stofnkostnaðinum.

Þá kvartaði hv. þm. um, að hvergi væri sagt, hvernig járnbrautin skyldi bygð, og óttaðist jafnvel, að hún yrði bygð úr járnarusli. En fyrirmæli un: þetta eru einmitt í 7. gr. frv., þar sem segir: „Járnbrautina milli Reykjavíkur og Þjórsár skal gera eftir fyrirmælum ráðherra, og ber að greina í sjerleyfi nánari ákvæði þar að lútandi. “ Þetta ákvæði hefi jeg skýrt svo við væntanlegan sjerleyfishafa, að stjórnin mundi heimta, að farið yrði eftir þeim tillögum, er Sverre Möller verkfræðingur hefir sett fram. Hjer komast því engin undirmál að, og sjerleyfishafi veit vel, hvaða kröfur við gerum.

Þá kem jeg að 5. lið 1. gr. Háttv. 1. þm. Reykv. þótti hann illa orðaður. En jeg vil benda hv. þm. á, að í fyrra var hann sjálfur flm. að frv., þar sem notað var nákvæmlega sama orðatiltæki. Nú telur hann það óalandi og óferjandi, sem hann sjálfur flutti í fyrra.

Háttv. þm. talaði um, að járnbrautin væri beita, til að gera virkjunarfyrirtækið aðgengilegra. Þetta er að vissu leyti rjett. Jeg sagði þeim, er jeg samdi við, þegar í stað, að landsstjórnin fengist alls ekki til að flytja frv., nema járnbraut yrði lögð. Ef strandað hefði á þessu, hefði Titan sjálfsagt farið til hv. 1. þm. Reykv. og beðið hann að flytja fyrir sig sjerleyfisfrv. Og ef marka má af reynslunni, hefði hann verið fús að renna önglinum, — beitulausum. Hv. þm. sagði raunar, að hann hefði verið á móti Dynjandafrv. í fyrra. Jeg hefi nú blaðað bæði í þingskjölum og umræðum frá í fyrra og hvergi sjeð þess getið, að hv. þm. væri á móti frv. Hjer er heftið með umræðunum um þetta mál. Hv. þm. getur nú bent á þann stað, þar sem sjá megi hans sjerstöðu. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki lesið allar ræður yfir, svo að vera má, að hann hafi látið einhvern bera þessi skilaboð fyrir sig, þótt heldur megi það teljast ósennilegt. Jeg verð því að gera ráð fyrir, að hv. þm. hafi snúist í málinu frá því í fyrra. Jeg get ekki trúað, að hann sje svo fjandsamlegur járnbraut, að hann sje að mála þennan fjanda á vegginn út af henni einni.

Þá sagði hv. þm„ að útlendingar kæmu hingað áreiðanlega ekki til að gefa okkur gjafir. Það er að vísu rjett, en þar fyrir getum við átt kaup við þá, sem bæði við og þeir hagnast á. Við megum sjálfsagt bíða nokkuð lengi, ef við ætlum að sjá útlendinga koma hingað til þess eins að sóa fje í landið og landsmenn. — En þarna getur vel farið saman þörf landsmanna og hagnaður útlendinga. Þeir ætla að vinna fyrir okkur nauðsynjaverk, sem við höfum ekki bolmagn til að hrinda sjálfir í framkvæmd.

Hv. 1. þm. Reykv. fór alt í einu að tala um alla vatnsorkuna í Þjórsá. En jeg fæ ekki sjeð, hvað hún kemur þessu máli við; hjer er aðeins verið að tala um virkjun Urriðafoss. Og það má reiða sig á, að aldrei verður veitt nema þetta eina leyfi, ef það þykir ekki verða til blessunar. Ef árangurinn af þessu verður ekki góður, neitar Alþingi að veita fleiri leyfi. Öðru er ekki hægt að halda fram, nema menn vilji gera lítið úr Alþingi og öllum þeim, er þangað kjósa fulltrúa.

Þá sagðist hv. þm. halda, að aldrei mundi fást neitt fje til þessara framkvæmda. Jeg mun ekki fara langt út í þessa mótbáru. En eftir ræðu hv. þm. ætti það að vera aðalkostur málsins, því þá yrði ekki neitt úr neinu. Jeg vil í þessu sambandi aðeins endurtaka það, að bak við þetta fjelag standa svo traustir menn, að kunnugir fullyrða, að þeim standi nóg fje til boða, a. m. k. fyrir járnbrautinni. Annars finst mjer undarlegt af hv. þm. að finna að þessu og berjast móti frv. fyrir það, sem hann hlýtur að telja aðalkost þess. — Hv. þm. gat aldrei um það í fyrra, að fjeð þyrfti að vera til reiðu, þegar sjerleyfislögin væru samþykt. Það sýnist vera fyrst nú, sem hann hefir komist að því.

Um hættuna af þessu sjerleyfi get jeg að öðru leyti vísað til ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT). Jeg hugsa, að hv. 1. þm. Reykv. taki helst tillit til þessa flokksbróður síns.

Annars er það svo, að þetta frv. er eins og tíðkast um sjerleyfislög, aðeins umgjörð, sem fylla á út með sjerleyfinu sjálfu. Hlýtur því sumstaðar að vera nokkuð stuttaralega til orða tekið. Ef farið væri að tína alt upp í lögin, sem standa á í sjerleyfi, yrðu þau alt of löng og flókin í meðförum.