17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg þarf nokkru að svara þeim hv. þingmönnum, sem töluðu í gær, hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Að vísu get jeg verið miklu stuttorðari en ella hefði orðið, með því að hæstv. atvrh. (MG) er nú búinn að allmiklu leyti að taka af mjer ómakið.

Jeg vil þá frá mínu sjónarmiði fara nokkrum orðum um þær athugasemdir, sem þeir báru fram. Hv. þm. V.-Húnv. er að vísu ekki í sæti sínu sem stendur, en jeg geri ráð fyrir, að í holti sje heyrandi nær. Hann byrjaði á að telja mjög vafasamt, hvort heppilegt væri að leggja járnbrautir yfir höfuð eða ekki. Þetta mál hefir verið talsvert rætt hjer á Alþingi, og það hafa komið fram ýmsar efasemdir um það, bæði frá mjer og öðrum, 159* hvort ekki væri eins heppilegt að snúa sjer að bílvegum eins og járnbraut. En jeg fyrir mitt leyti er nú alveg horfinn frá efasemdum í þessu efni og tel járnbrautina heppilegri. En þetta er, sem sagt, atriði, sem altaf má um deila og menn verða aldrei sammála um. Er ekki ástæða til að deila frekar um það að þessu sinni en endranær.

Höfuðatriðið hjá hv. þm. V.-Húnv. er það, að fjelagið eigi að leggja járnbrautina að öllu leyti. Hann kvaðst ekki skilja í því, að fjelag, sem ætlar sjer að verja 40 milj. króna til slíks fyrirtækis, gæti ekki eins lagt fram 2 milj. meira en nú er ætlast til. Jeg verð fyrst að svara þar til, að það getur auðvitað ekki komið til nokkurra mála, að það verði lagt út í að verja 40 milj. kr. í fyrirtækið svona í byrjun. Það er ekki meiningin að fara í einu að virkja allan þann kraft, sen. hægt er að fá úr Urriðafossi; heldur hitt, að byrja smátt og smáfika sig áfram. Hve há sú upphæð verður, sem byrjað verður með, get jeg ekki sagt með vissu; en jeg ímynda mjer, að það verði ekki mikið meira en 1/3 þessarar upphæðar. Og þegar búið er að leggja fram 7 milj. kr. til járnbrautarinnar, þá munar mikið um 2 milj. Það má náttúrlega altaf segja, að það muni ekki mikið um 2 miljónir; en það er þó ekki svo lítil upphæð, og einhversstaðar eru þó takmörkin fyrir því, hvað sjerleyfishafi getur lagt fram og hvað hægt er að heimt?. af honum.

Hv. þm. fór svo alment að tala um það, að það gæti verið vafasamt, hvort veita beri sjerleyfi yfir höfuð, og um öryggisráðstafanir fyrir innflutningi, bæði erlendis frá og líka úr sveitunum. Hví kom hv. þm. ekki fram með þessar almennu aths. í fyrra? Þær hefðu enda átt betur við við 1. umr. málsins, og þá ekki síður í fyrra, er talað var um sjerleyfi til virkjunar Dynjandisár. En þá fann hann ekki ástæðu til að fræða okkur um þessi atriði. Var þó um samskonar sjerleyfi að ræða, nema færri hestöfl, 40–50 þús. Hv. þm. fann ástæðu til að taka upp setninguna um óeðlilegan straum fólks í hlutaðeigandi hjeruð. Því hefir hv. 2. þm. Árn. svarað í gær. Um hættu af innflutningi útlendinga þarf alls ekki að vera að ræða, eins og margtekið hefir verið fram, svo framarlega sem settar eru nægilegar varúðarráðstafanir, sem ráðherra er heimilt að gera. Og fjelagið hefir lýst því yfir, að það muni hlíta hverjum þeim ráðstöfunum, sem stjórnin kann að setja í sjerleyfið um þetta atriði og önnur.

Mig furðaði á því, að hv. þm., jafnskýr maður, skyldi halda því fram, að fjelagið mundi ekki leggja fram einn eyri í fyrirtækið, heldur heimta lán hjá ríkissjóði, fara síðan fram á eftirgjöf á rentum fyrst í stað og loks uppgjöf á höfuðstól. Fjelaginu dettur auðvitað ekki í hug að taka lán til fyrirtækisins úr ríkissjóði. Auðvitað verður það stofnsett og rekið aðallega með hlutafje, sem lagt verður kapp á að útvega á ný, að svo miklu leyti sem gömul loforð fást ekki greidd, þar til hægt er að hefjast handa.

Að fjelagið komi í fjárbænum til ríkissjóðs, kemur ekki til nokkurra mála. Hvernig ætti hann líka að lána, ef, eins og spáð var hjer nýlega, ekki er líklegt, að hagur hans standi með þeim blóma á næstunni, að hann geti einu sinni lagt fram sinn hluta til verksins, hvað þá heldur meira?

Hv. 1. þm. Reykv. kom með allar þær sömu mótbárur og við 1. umr. málsins. Er hálfleiðinlegt að fást við hv. þm., því að hann heldur sjer ekki við þingsköp. Hann hjelt tvær ræður við 1. umr. og hefði getað látið það nægja, en fann enn ástæðu til að endurtaka alt það sama nú. Hann taldi enga tryggingu fyrir því, að fjelagið legði fram fje eða yfirleitt hefði nokkur peningaráð. Jeg tók fram í svari mínu þá, eins og kunnugt er, að jeg tel enga hættu í þessu efni. Jeg þekki fjelagið vel frá því síðan 1918, hefi sjeð hluthafaskrá þess þá, og voru þar skráð nöfn sumra ríkustu manna í Noregi. Þótt ekki eigi við nú að nefna nöfn, gæti jeg undir fjögur augu fært hv. þm. heim sanninn um þetta. Ef sjerleyfið fæst með aðgengilegum kjörum, munu þeir standa við sín fyrri loforð. 1918 hafði það svo miklu fje yfir að ráða, að það hefði getað lagt járnbraut þá. Og nýlega hefi jeg fengið brjef frá advokat Aall, sem styrkir þessa sannfæringu mína.

En má jeg spyrja: Hvaða þekkingu hefir háttv. þm. (JakM) á fjelaginu? Alls enga. Allar fullyrðingar hans eru fimbulfamb blátt út í loftið, skapaðar af fyrirfram ákveðinni andúð, án þess að hann geti fært minstu líkur, hvað þá heldur sannanir, fyrir sínu máli. Hann er að berjast við skýjaborgir, er hann hefir skapað sjer sjálfur. Annað veifið hrópar hann hátt, að ekkert verði úr þessu, Titan fái ekki fje. Hitt veifið útmálar hann með ógnarlegri skelfingu þá voðalegu óhamingju, er yfir landið muni dynja, eyðing sveitanna og eyðilegging þjóðernisins, ef fjelagið taki til starfa. Það er upplýst við 1. umr., hvað þurfi að flytja inn af vinnukrafti utanlands frá. Aðalverkið mundi verða unnið af verkamönnum úr Reykjavík og Hafnarfirði, og þeir þannig njóta góðs af fyrirtækinu, svo ólíklegt er, að margt fólk fari úr sveitunum vegna þessa fyrirtækis.

Jeg hjó eftir því hjá hv. þm., að hann sagði um Dynjandisjerleyfið, að þar væri á ferðinni „svindilbrask“. Hann notaði einmitt það orð; jeg skrifaði það hjá mjer. — Hafi honum í fyrra verið kunnugt um þetta, bar honum skylda til að vara okkur hina við. En það gerði hann ekki. Hann átti sæti í fjhn., þar sem jeg átti einnig sæti, en jeg minnist ekki að hafa heyrt neitt í þá átt eða hann tæki sjerstöðu til málsins.

Hv. þm. hjelt því fram við 1. umr., að fjelagið vissi ekki, hvað það ætlaði sjer að láta vinna. Það er ofur líklegt um fjelagið, sem hefir varið svo miklu fje til jarðakaupa, mælinga m. m. Eftir þessa fullyrðing hans afhenti jeg honum, meðan hann var enn að tala, beiðni Titans, sem hann hafði ekki sjeð, og benti honum á 12. gr. Hv. þm. rendi augunum yfir greinina, og hann var ekki lengi að átta sig á henni og sagði þetta hafa sannfært sig um, að hann hefði á rjettu að standa, einkum orðin í enda greinarinnar: „— — og sjerhvað annað, sem hægt er að vinna“. Í greininni stæðu 10–15 „eða“. Þau eru að vísu mörg, en þó ekki nema 5. Þar er fyrst talið upp. hvað á að gera, nákvæmlega tekið fram, og er hv. þm. kunnugt, hvað það er, því að hv. þm. las það upp. Og síðan er samkvæmt venju tekið fram í lok greinarinnar „og sjerhvað annað“ etc. Þetta, hve hv. þm. er fljótur að skilja og álykta, minnir mig átakanlega á lítinn atburð, er kom fyrir, þegar jeg var bæjarfógeti á Akureyri. Form. fasteignamatsnefndar, sem var einhver hinn reikningsglöggasti maður á landi hjer, kom á fund og lagði fram reikninga. Annar bæjarfulltrúi opnaði, leit yfir örskamma stund og sagði: „Þetta er vitlaust“. Auðvitað var vitleysan fólgin í höfði fulltrúans. Enginn er svo glöggur, og þá ekki heldur háttv. þm., að hann geti á svipstundu, aðeins með því að renna augunum, sagt, hvað þetta eða hitt hafi inni að halda.

Yfirleitt tek jeg undir með hæstv. atvrh., sem sagði í gær, að þær aths., sem háttv. 1. þm. Reykv. kæmi með, hefðu átt heima í fyrra, en síður nú. Jeg skil ekki, hvernig á því stendur, að hann skyldi sitja hjá í umr. í fyrra, en ráðast nú á sjerleyfi samskonar með svo miklu forsi. Hann slær fram órökstuddum fullyrðingum um, að þetta sje brask og þar fram eftir götunum og særandi fyrir metnað landsins að styðja slíkt. Já, ef svo væri, mundi jeg sannarlega ekki ljá mitt fylgi. En af sannfæringu og þekkingu, sem er meiri en hv. þm., hika jeg ekki við að halda því fram, sem jeg hefi gert.

Vænti jeg þess, að frv. nái samþykki með ekki meiri breytingu en svo, að sjerleyfishafi sjái sjer fært að semja á þeim grundvelli, og þá er það trúa mín, bygð á miklum líkum, að byrjað verði á verkinu jafnvel strax í sumar.