25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, enda hefi jeg ekki ástæðu til þess, því að hv. frsm. (KIJ) hefir gert hreint fyrir dyrum nefndarinnar, og á þann hátt, sem mjer þótti við eiga. Annars hefðu ummæli hv. 1. þm. Reykv. (JakM) getað gefið ástæðu til svara, ef ekki hefði hv. frsm. svarað þeim svo ítarlega. En jeg er hv. frsm. ekki alveg sammála um brtt. hæstv. atvrh. á þskj. 243. Mjer þykir sú tillaga vera vægari gagnvart leyfishafa heldur en þörf er á, og jeg get ekki sjeð, að sú trygging, sem ætlast er til að náist með henni, sje nokkru fyllri en trygging sú, sem gert er ráð fyrir í 10. gr. frv. Samkvæmt till. hæstv. atvrh. er enginn sjerstakur tími til tekinn, er leyfið geti fallið niður vegna dráttar á lagningu járnbrautar eða stöðvunar verksins, en í 10. gr. frv. er svo ákveðið, að sjerleyfið falli niður, ef ekki er hálfnað verk við járnbrautina fyrir árslok 1931. Það sjest heldur eigi á till. hæstv. atvrh., hve lengi verkið má stöðvast af viðráðanlegum orsökum án þess, að sjerleyfið falli niður, og þess vegna hlýtur ógilding sjerleyfis að dragast til 1934, þegar brautarlagningu á að vera lokið. En verkið getur hæglega stöðvast vegna óveðurs eða óviðráðanlegra orsaka, segjum í viku, hálfan mánuð eða mánuð, og væri þá ranglátt að láta sjerleyfið falla úr gildi af þeim orsökum, enda mundi aldrei verða farið eftir því. Mjer finst því brtt. hæstv. atvrh. afsleppari og teygjanlegri heldur en 10. gr. frv. og ekki til neinna bóta.

Brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 244 tel jeg til mikilla bóta og felst á þær, en um aðrar till., sem fyrir liggja, er jeg samþykkur afstöðu hv. frsm.