26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Guðnason:

Umræðurnar um þetta mál eru nú orðnar alllangar, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem um svo stórt mál og mikilsvert er að ræða. Jeg hefi ekki fram að þessu tekið þátt í umr. um þetta mál, en vildi nú áður en gengið er til atkv. gera með nokkrum orðum grein fyrir atkv. mínu. — Jeg hefi nú nokkuð aðra aðstöðu en flestir aðrir hv. þm. að því er snertir möguleikana til að hafa sett mig inn í þetta mál. Jeg hefi ekki átt sæti á þingi fyr en nú, og því ekki eins og flestir aðrir hv. þdm. átt kost á því að kynna mjer nógu rækilega þau mál af þessu tægi, sem legið hafa fyrir þinginu áður. Jeg lít svo á, að um leið og við tökum afstöðu til þessa frv., sem hjer liggur fyrir, þá verðum við að gera okkur það ljóst, hve langt við eigum að ganga inn á þessa nýju braut. Jeg álít, að við verðum að fara gætilega í það að hleypa erlendu fjármagni inn í landið og útlendum lýð. — Með þessu vildi jeg láta mína afstöðu vera markaða í þessum málum. En jeg verð að segja það fyrir mig, að jeg sje ekki, að þetta frv. sje svo hættulegt eða að hjer sje gengið svo langt inn á nýja braut, að það geti verið neitt varhugavert fyrir okkar þjóð að veita þetta sjerleyfi.

Þetta mál hefir tvær hliðar. Annarsvegar er það járnbrautin og hinsvegar virkjun vatnsaflsins.

Í augum okkar, sem búum í afskektum hjeruðum, er járnbrautin mjög athugavert mál, enda mjög á dagskrá meðal þjóðarinnar. Jeg hygg, að mönnum sje það ljóst, að mjög mikið fje þurfi til þess að bæta úr hinum miklu samgönguvandræðum, sem einkum eru tilfinnanleg í hinum stærri hjeruðum, og að þess sje ekki að vænta, að ríkið verði þess megnugt í náinni framtíð að leggja fram alt það fje. Jeg hygg, að mönnum úti um land þyki ekki hægt að vænta betri lausnar á þessu máli en þeirrar, sem menn nú eiga kost á, fyrir þau hjeruð, sem hlut eiga að máli, nje minna framlags úr ríkissjóði.

Þá er hin hliðin á þessu máli, stóriðjan. Þó að jeg álíti, að við eigum að gæta hinnar mestu varúðar í þeim efnum, þá hygg jeg, að þjóðinni eða þjóðerni voru geti ekki stafað nein hætta af einu til tveim fyrirtækjum eins og þessu. Við verðum að vona, að hægt verði að hrinda svo áfram ræktun landsins í sveitunum, að þar verði nóg verkefni í framtíðinni fyrir hinn vaxandi fólksfjölda. En annarsstaðar eru atvinnuvegirnir ver trygðir, nefnilega í hinum stærri bæjum, og þá einkum í Reykjavík. Þó að við gerðum ekki ráð fyrir svo sem neinum innflutningi til Reykjavíkur úr sveitunum á næstu árum, þá er það fyrirsjáanlegt, að fólkinu muni stórfjölga frá því, sem nú er í bænum. Þá er spurningin, — hvaða atvinna verður hjer í framtíðinni fyrir þann mannfjölda? Þetta sjá allir, að er hið mesta vandamál, því að reynslan hefir sýnt og alt útlit er á því, að útgerðin verði ekki svo trygg eða geti tekið þeim vexti, að hún geti veitt næga atvinnu þeim mannfjölda, sem hjer er að vaxa upp. Með þessum forsendum mun jeg greiða atkv. mitt með þessu frv. hjer út úr þessari hv. deild, og það því fremur, sem til þess er ætlast, að hin væntanlega framleiðsla þessa fyrirtækis, áburðarframleiðslan, komi landbúnaði vorum að miklum notum.

Hvort það sje trygt, að úr framkvæmdum verði, þó að þetta sjerleyfi verði veitt, skal jeg ekki fullyrða neitt um. Um það ganga ýmsar sögur, og höfum við einstakir þm. ekki kost á að dæma um, hvað rjett sje í þeim; en þó er eitt atriði, sem mjer finst benda í þá átt, að líklegt sje, að fje fáist til þessa, en það eru ummæli hæstv. atvrh., sem sjálfur hefir samið við væntanlega sjerleyfishafa. Þó að jeg beri ekki sjerstakt traust til hans að því er snertir stjórnmálastefnu hans, verð jeg þó að marka meira hans orð, sem hann talaði hjer úr ráðherrastóli, en lauslegar sagnir, sem um þetta ganga.