30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta mál er hingað komið eftir miklar umræður í hv. Nd. Jeg verð að segja, að jeg er í efa um, hvað langt jeg á að fara út í málið við þessa 1. umr. hjer. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi flestir fylgst með umr. um það í Nd. og að því sje ekki þörf á að fara nákvæmlega út í það núna. En ef hv. þdm. þykir jeg segja og lítið um málið, er jeg auðvitað reiðubúinn til þess að gefa upplýsingar, bæði einstökum hv. dm. og eins þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar.

Þó að jeg ætli ekki að vera langorður, þykir mjer samt hlýða að gefa yfirlit yfir sögu málsins, ekki síst þar sem jeg gat ekki verið við 1. umr. þess í Nd.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að áður en jeg fór til Kaupmannahafnar í vetur, hafði h f Titan sótt um leyfi til þess að virkja Urriðafoss og sent hingað skjöl þess efnis. Stjórnin sagði þeim mönnum, sem hjer eru búsettir og riðnir eru við Titan, að það mundi ekki geta komið til mála, að stjórnin flytti frv. um þetta, nema jafnframt væri ákveðið, að fjelagið legði járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá. Út af þessu tilkyntu þeir stjórnarnefndarmenn, sem hjer eru búsettir, þeim hluta stjórnarinnar, sem er í Noregi, að ef þeir vildu koma málinu áfram, yrðu þeir að leita samninga við mig í Kaupmannahöfn. Þangað komu svo tveir menn, annar úr stjórninni, en hinn ráðunautur hennar, og niðurstaðan varð sú, sem frv. ber með sjer. Í fám orðum var innihaldið það, að fjelagið tæki að sjer að leggja járnbraut hjeðan til Þjórsár, sem eru hjer um bil 80 km., en jafnframt fengi það leyfi til þess að virkja Urriðafoss í Þjórsá, með þeim skilyrðum þó, að ekki mátti virkja meira en 160 þúsund hestöfl. Um Urriðafoss er það að segja, að ekki eru líkur til þess, að hægt sje að virkja úr honum meira en rúml. 100 þús. hestöfl. En þessi tala er miðuð við útreikninga, sem Sætersmoen verkfræðingur hefir gert um afl fossins. Það er svo, að það borgar sig ekki að gera ráð fyrir, að virkjað verði eins og ítrast er hægt, þegar áin er í mestum vexti, og menn hafa ekki gengið út frá, að það yrði talið svara kostnaði að búast við virkjun, sem því næmi.

Gjaldið, sem greiða á, er svipað því, sem ákveðið var á þinginu í fyrra um Dynjanda. Þó á þetta fjelag 7 árum lengur að fá að sitja við það að borga 3 krónur fyrir hvert hestafl.

Eins og jeg hefi tekið fram, tekur fjelagið að sjer að leggja járnbraut austur, en þó ekki að öllu leyti. Þau skilyrði fylgja, að ríkissjóður leggi fram þriðjung kostnaðarins, sem þó ekki færi fram úr 2 miljónum króna. Þetta þýðir það, að ríkissjóður leggur fram 2 miljónir, af því að járnbrautarlagningin mun kosta 8–9 miljónir. En þá er að því að gæta, hvað ríkissjóður fær í aðra hönd. Fyrst og fremst er það víst, að ríkissjóður losnar að miklu leyti við viðhaldskostnað vegarins austur. Viðhaldskostnaðurinn fer eftir því, hvað vegirnir eru mikið notaðir. Vegamálastjóri segir, að eftir sliti á þessum vegi í samanburði við aðra vegi, muni ekki þurfa nema þriðjung viðhaldskostnaðar framvegis, ef járnbraut kemur. Á síðustu 7 árum hefir verið varið til viðhalds honum að meðaltali 100 þús. kr. á ári, og þó að ekki væri gengið eins langt og vegamálastjóri telur rjettmætt, fengi ríkissjóður vexti af 1 milj. með því að spara þennan kostnað. Auk þess fær hann, ef Urriðafoss verður virkjaður, þó ekki væri nema 100 þús. hestöfl, 300 þús. krónur á ári, en það er meira en þarf til þess að ávaxta og endurborga lán, sem tekið yrði til járnbrautarinnar. Jeg tala ekki um, þegar 10 ár eru liðin. Þá yrðu tekjurnar 1/2 milj. Svo er eftir að líta á allan óbeinan hagnað fyrir landið, og þá einkum Reykjavík og Suðurlandsundirlendið, af þessari miklu samgöngubót.

Það er erfitt að fullyrða um það, en reynslan hefir sýnt, að alstaðar í heiminum hafa járnbrautir verið hinar öflugustu lyftistengur allra framfara, og það liggur í augum uppi, að þetta á ekki hvað síst við hjer, þar sem fjarlægðirnar eru svo miklar og strjálbýli.

Jeg skal játa, að í þessu máli er eitt atriði veikt. Það er sem sje ekki hægt eins og stendur að sanna, að fje verði til til framkvæmda verksins. Í þeim efnum get jeg ekki sagt meira en það, að mjer hafa verið sýnd brjef til fjelagsins Titan frá fjársterkum fjelögum um að þau væru reiðubúin til þess að leggja fram fje, svo framarlega sem sjerleyfi fáist, sem að áliti fagmanna sje þannig útbúið, að óhætt sje að leggja fje í fyrirtækið. Það var með tilliti til þessa, að til aðstoðar við samningana í Kaupmannahöfn var norskur sjerverkfræðingur, sem í mörg ár hefir verið forstjóri vatnamálanna norsku. Jeg spurði hann, hvort hann liti svo á, að óhætt væri að leggja fje í þetta, og hann sagðist með góðri samvisku geta ráðið til þess. Honum þótti að sönnu gjaldið hátt, en áleit það þó engan veginn óforsvaranlegt, með tilliti til þess, að Þjórsá hefir einn fágætan kost, sem sje þann, að tiltölulega lítill munur er á vatnsmagni hennar eftir árstíðum.

Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að segja nánar sögu þessa máls. Jeg ætla ekki að fara lengra út í það að sinni, en mun að sjálfsögðu svara fyrirspurnum frá hv. dm. Legg jeg svo til, að frv. verði vísað til samgmn.