30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ávalt verið þeirrar skoðunar, að mjög væri æskilegt, einkum fyrir Suðurlandsundirlendið, ef járnbraut væri lögð hjeðan austur yfir fjall, og að hún mundi verða hin öflugasta lyftistöng undir aukinni ræktun landsins og allskonar búnaðarframförum. Jeg hefi ennfremur litið svo á, að ríkið ætti að ráðast í þetta fyrirtæki, meðfram af því, að búast má við, að tekjur verði ekki svo miklar fyrst í stað, að von sje á, að peningamenn, sem vilja ávaxta fje sitt á sem fljótastan hátt, vilji nokkuð í það leggja. Samt sem áður er jeg sannfærður um, að tap mundi ekki verða á fyrirtækinu til langframa, en óbeinn hagnaður ómetanlegur.

Mjer voru það því mikil vonbrigði, þegar ekki var hægt að afgreiða járnbrautarfrv. það, sem flutt var að tilhlutun hæstv. stjórnar á síðasta þingi, ekki síst, þar sem svo óvenjulega stóð á fyrir ríkissjóði, að það mátti teljast vel forsvaranlegt, að hann legði þegar fram mikinn hluta fjárins, þannig, að ekki hefði þurft að taka stórt og dýrt útlent lán. Málið sofnaði í nefnd í hv. Nd. Því miður var ekki nægilegur eftirrekstur á eftir því af hálfu hæstv. stjórnar. Það er vitanlegt, að slíkt mál eins og þetta, sem getur orkað tvímælis og sætt harðri mótspyrnu, verður aldrei rekið áfram nema því aðeins, að sterkur þingflokkur beiti sjer fyrir því og að stjórnin leggi blátt áfram stöðu sína í veð til þess að koma því fram, alveg eins og gert var í ritsímamálinu forðum, þegar ráðherra knúði flokk sinn til að fylgja sjer í því, þótt andstaða gegn því væri hörð víða um landið, og vafalítið hefði ritsímamálið fallið, ef um það hefði verið kosið þá. Hjeruðin, sem ekki áttu von á að fá þetta menningartæki strax, voru mörg á móti, og margt fleira varð til þess að vekja andstöðu gegn málinu. Út frá reynslunni um ritsímamálið álít jeg, að það hafi verið ákaflega óheppilegt fyrir járnbrautarmálið, að stjórnin, sem hafði mjög sterkan flokk að baki sjer og báða ráðherrana mjög fylgjandi þessu máli, skyldi láta undir höfuð leggjast í fyrra að beita sjer fyrir málið, þegar tíminn var heppilegur og talsvert fje fyrir hendi í ríkissjóði. Málið kemur svo aftur ári síðar fyrir þingið, en þá nokkuð á annan veg en menn hafa ætlað, að þetta mál yrði framkvæmt; nú er það ekki ríkissjóður sjálfur, sem eingöngu beitir sjer fyrir þessu máli, heldur þarf til þess, að járnbrautin komi, að veita sjerleyfi; járnbrautarlagningin austur í sýslur þarf nú eftir frv. að vera í samráði og samvinnu við fjelag, sem ætlar að hefja stórvægilegar framkvæmdir í landinu, ef það verður þess megnugt, og járnbrautin er alls ekki þungamiðja þeirra framkvæmda.

Jeg vil nú ekkert segja um það, hvernig jeg muni snúast við þessu máli, en jeg álít varhugavert að veita sjerleyfi og álít, að þingið eigi að fara mjög gætilega í það að veita leyfi til að nýta ein og önnur náttúrugæði landsins eða til þess að vinna eitthvert sjerstakt verk í landinu, og það er vegna þess, að sjerleyfin eru svo oft misnotuð; þau eru oft notuð til þess að koma opinberum stimpli á viss skjöl, sem svo er reynt, að selja, en eru raunar venjulega aðeins verðlausir pappírar, og svo látið þar við sitja, en alt er í kaldakoli um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Meðan svo er verið að pranga út þessum verðlausu brjefum, bíður sjerleyfisveitandi (þ. e. a. s. ríkið) eftir framkvæmdum, sem átti að gera, og eftir gagni því, sem átti að hafa af þeim, en rjettinn til að gera verkin hefir ríkið fest í höndum manna, sem það bjóst við, að myndu framkvæma þau, en svo hefir sýnt sig á eftir að hafa ekki haft neinn vilja til þess, aðeins viljað ná í ríkisstimpil og fín meðmæli til þess að geta selt verðlaus brjef.

Hjer hafa verið veitt ýms sjerleyfi, sem hafa verið „útmáluð“ mjög glæsilega af formælendum þeirra, og verið álitið, að þau myndu verða einskonar lyftistöng fyrir hjeruðin, þar sem þau yrðu framkvæmd, og ríkið mundi fá miklar tekjur af þeim. Jeg man nú sjálfsagt ekki eftir öllum þeim sjerleyfum, sem íslenska ríkið hefir veitt, en skal þó telja upp nokkur þeirra. Hjer var fyrir nokkrum árum veitt sjerleyfi til að vinna járnsand og annað til að vinna salt úr sjó; svo ætluðum við að fara úr þessum atvinnufyrirtækjum yfir í peningamálin; var þá samþykt að veita sjerleyfi til þess að koma hjer upp norskum banka, sem svo var nefndur, og svo voru samþykt heimildarlög, sem veittu stjórninni leyfi til þess að koma hjer upp sjerbanka, en allar þessar framkvæmdir hafa strandað enn sem komið er, og ríkið hefir ekki haft annað upp úr því en þann vafasama heiður að hafa lagt til nafn sitt fyrir einstaka menn eða ýms fjelög til þess, að þau geti selt hlutabrjef sín, en þessi fjelög hafa eingöngu verið mynduð utan um sjerleyfi, sem íslenska ríkið hefir veitt, og það er kannske ekkert, bókstaflega ekkert, sem er eins hættulegt fyrir álit okkar út á við eins og það, þegar það frjettist, að ekki hafi tekist að koma í framkvæmd bankastofnun, sem ríkisleyfi var veitt til og ekki ætti að hafa stærri höfuðstól en 2 milj. kr. stofnfje, því að þegar það frjettist, að stofnun slíks fyrirtækis hafi mistekist, þá er það í margra peningamanna augum sönnun þess, að ekki sjeu miklir möguleikar til framkvæmda á Íslandi og að það sje mjög varhugavert að hætta fje sínu þangað, hvort sem um peningastofnanir eða atvinnufyrirtæki sje að ræða.

Frá síðasta Alþingi er ennþá eitt sjerleyfi, um vatnavirkjun á Vesturlandi ásamt ýmsu fleira, sem þar er tekið fram; þar er ákveðnu fjelagi leyft að virkja alt að 40 þús. hestöfl. Þótt nú sje liðið eitt ár síðan þetta sjerleyfi var veitt, og þó að það væri ákaflega föst trú á þessu fyrirtæki hjá þeim mönnum, sem fyrir þessu töluðu á Alþingi í fyrra, þá hefir samt ekki, að því er frjest hefir, orðið neitt úr framkvæmdum þessa fjelags, og enginn þorir að fullyrða neitt um, að úr þessum framkvæmdum verði nokkuð, og þeir eru nú miklu fleiri, sem trúa því, að þetta sje ekki annað en „svindilbrask“, eins og þesskonar er kallað á Reykjavíkurmáli; það hafi aðeins verið gert til þess að ná þarna í sjerleyfi hjá íslenska ríkinu til þess að geta selt út á það verðlaus brjef. Þetta gerir menn alt varkárari í að fylgja málum, sem ganga í þá átt að veita sjerleyfi. Nú veit jeg, að því mun verða til svarað, að fossafjelagið Titan hafi þegar lagt ákaflega mikið fje í rannsóknir og vatnsrjettindi hjer á landi og að ólíklegt sje, að það muni ekki halda áfram, ef það fær viðunandi sjerleyfi, en það er líka athugandi, að það danska fjelag, sem fjekk sjerleyfið í fyrra, hefir líka lagt stórfje í það sama, en samt er þeim altaf að fjölga dag frá degi, sem halda, að ekkert verði úr því fyrirtæki.

Þegar um það er að ræða, hvort veita eigi sjerleyfi eða ekki, þá vaknar fyrst sú spurning í huga manns, hvaða trygging sje fyrir því, að ennþá sje ekki verið að narra út úr okkur eitt sjerleyfið í viðbót til þess að fá eitthvert pappírsgagn, sem ýmsir braskarar ætla svo að nota til þess að skreyta með hlutabrjef sín. Og þá vaknar spurningin um það, hvaða tryggingu sje hægt að fá fyrir því, að það geti verið nokkurn veginn sæmandi Alþingi að láta slíkt frá sjer fara, og verð jeg þá að segja, að mjer hafa mjög brugðist vonir, hvernig stjórnin og fylgismenn málsins í Nd. tóku í tillögur þær, er ætluðu að tryggja það, að úr framkvæmdum yrði. Og sumar þessar tillögur voru þess eðlis, að ákaflega erfitt hefir verið að hafa á móti þeim með nokkrum rökum, en þær tillögur hafa verið taldar óhafandi af hæstv. stjórn og forgöngumönnum fjelagsins Titans vegna þess, að þær gætu gert það ómögulegt að taka við sjerleyfinu með þessum skilyrðum. En nú skilst það hverjum manni, að ef alt er hreint frá fjelagsins hendi, þá þarf stjórn þess ekki að vera hrædd við að setja svolitla tryggingu fyrir því, að eitthvað verði úr framkvæmdum, því að þegar þeir ráðast í framkvæmdirnar, þá kemur ekki frekar til þessarar tryggingar, og þeir skaðast þá ekkert við að gefa hana. Hinsvegar, ef það er ekkert annað en brask, gert til þess að geta komið af sjer verðlitlum hlutabrjefum, þá skilur maður náttúrlega, að 100 þús. krónur hafi sína þýðingu, því að slík trygging gæti þá gert það að verkum, að hagnaðurinn yrði enginn fyrir braskarana. Nú mætti segja, að það væri kannske ekki ástæða til að vera strangur í þessari kröfu viðvíkjandi tryggingu fyrir framkvæmdum, ef ábyrgð hæstv. stjórnar fengist, þ. e. a. s. yfirlýsing hennar og orð fyrir því, að hún hefði fulla vitneskju um það, að fje væri fyrir hendi og að það væri hægt að reiða sig á framkvæmdirnar, en hæstv. atvrh., sem með kappi beitir sjer fyrir þessu máli og samið hefir um sjerleyfið við hina erlendu stjórnendur fossafjelagsins Titans, finnur ástæðu til að vekja athygli hv. deildar á því í dag, að það sje eitt veikt í þessu máli, og það sje það, að ekki sje hægt að sanna, að fjelagið hafi fje og að úr framkvæmdum verði, en kannske þetta sje aðeins of mikil varfærni hjá hæstv. ráðh. að segja þetta, en það er þá, finst mjer, dálítið vafasöm aðferð hjá hæstv. ráðh., að byrja meðmæli sín með þessu máli á þann hátt að segja, að það sje vafasamt, að fjelagið geti fengið nægilega peninga. Hinsvegar sagði hæstv. ráðh., að hann hefði fengið að sjá brjef frá fjesterkum mönnum, sem hefðu tjáð sig reiðubúna til þess að leggja fje í fyrirtækið, svo framarlega sem sjerfræðingar teldu það óhætt. Þetta er nú ekki skilmálalaust, því að það getur altaf orðið álitamál, hvað talið verður óhætt að gera í þeim efnum. Hinsvegar skal jeg segja hæstv. ráðh. það, að eftir þeim fregnum, sem jeg hefi frá mönnum, sem kunnugir eru fjármálalífinu á Norðurlöndum, t. d. í Danmörku, þá hefir það verið sagt, að það væri enginn maður í Danmörku svo áhrifamikill í fjármálalífinu, að hann gæti treyst sjer til þess að fá það fje, sem fossafjelagið Titan þyrfti. Það getur vel verið, að norskir fjármálamenn sjeu það áhrifameiri eða hafi það betri sambönd en Danir, að þeir geti treyst sjer til þess, en jeg vil þó vekja athygli á þessu, til þess að við ekki í þessu máli, sem að því er járnbrautina snertir er merkilegt framfaramál, gerum okkur of glæsilegar vonir, svo að það verði til að hindra það, að hægt sje að ráðast í framkvæmdir í járnbrautarmálinu, sem okkur er nauðsynjamál, svo að við veitum ekki sjerleyfi í því máli, sem kannske yrði okkur ekkert annað en blekking.

Hvað það fjelag snertir, sem á að fá sjerleyfið, þá er ekki hægt að segja um það, að það hafi til peningana, sem þó gæfi dálítið meiri vonir fyrir okkur, ef við vissum, að fjelagið sjálft hefði fjeð fyrirliggjandi, því að ef það væri svo sterkt fjelag, að það gæti lagt fram peningana, sem til framkvæmdanna þyrfti, þá væri talsvert öðru máli að gegna. En það er nú upplýst, að þessir menn hafa enga peninga, en þeir gera ráð fyrir, að þeir geti fengið peninga hjá stórþjóðunum, og geri jeg helst ráð fyrir, að það muni vera þýskt fje, sem þar muni til koma, ef óhætt þykir að leggja fjeð fram; en þetta er engin vissa, og verður líklega ekkert gert í því fyr en sjerleyfið er fengið, en því miður erum við orðnir svo hvektir í þessum málum, að við höfum ástæðu til að vera svo bogavarir að láta sjerleyfið ekki af hendi nema með tryggingu. En það er máske of mikið sagt, að trygging sje engin; en hún er of lítil til þess að vera nokkur trygging fyrir því, að í framkvæmdir verði ráðist, eða að borinn sje upp sá skaði, sem af því hlytist, ef sjerleyfi yrði veitt og svo ekkert gert í málinu frekar. Jeg vil vekja athygli hæstv. ráðh. á þessu, til þess að hann geti sýnt okkur fram á það, að líkurnar sjeu meiri fyrir því, að til framkvæmda komi, heldur en hann hefir ennþá haldið fram, og um mitt atkvæði í þessu máli fer talsvert eftir því, hversu miklar líkur hæstv. ráðh. getur fært fyrir því, að fje fáist til framkvæmdanna.