11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Einar Jónsson:

Mín skoðun er sú, að auknar og bættar samgöngur sjeu öflugasta lyftistöngin undir öllum framförum bæði í landbúnaði og öðrum atvinnuvegum okkar. Jeg er ekki í nokkrum vafa um, að það mál sem nú er hjer til umr., hefir afarmikla þýðingu fyrir okkar land. Það er að vísu ekki hægt að sanna, hvernig reynslan muni verða, en jeg trúi því fastlega, að með þessum hætti verði samgöngum okkar í best horf komið, enda eru nú fyrir hendi þau líklegustu kjör, sem ríkissjóður getur komist að. Jeg skal ekki fara út í þá sálma frekar en orðið er, en aðeins vil jeg geta þess, að jeg get fyllilega undirstrikað það, sem hv. frsm. (MK) er búinn að segja um það efni. Þó að ekki væri samkomulag í nefndinni, var ágreiningur ekki meiri en svo, að tveir nefndarmenn skrifuðu undir nál. með fyrirvara. Mjer finst þeirra brtt. á þskj. 330 samrýmast svo vel brtt. hv. 1. landsk. á þskj. 354, að þær sjeu eiginlega eitt og hið sama. Beggja tillögur ganga í þá átt að leggja meiri áherslu á, að fjelagið Titan fari eftir ýmskum reglum, sem setta verði, og þeggi meira á sig en áður hefir verið gert ráð fyrir. Jeg, sem er eindreginn stuðningsmaður fjelagsins, hefi ekkert á móti því. Það er trygging fyrir landið, en hinsvegar tapar fjelagið engu, að mínu áliti.

Sjálfur flyt jeg brtt. á þskj. 277. Eins og allir sjá, kemur hún ekki málinu við í heild sinni, en til þess að hún komi ekki í bága við neitt og verði á engan hátt til að tefja fyrir málinu, læt jeg hæstv. forseta vita, að jeg tek hana hjer með aftur til 3 umr.