11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Björn Kristjánsson:

Við hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) höfum leyft okkur að koma fram með 2 brtt. við frv. það, sem hjer liggur fyrir, og eru þær á þskj. 330. Með fyrri brtt. viljum við tryggja það, að sjerleyfishafi geti ekki fengið fje úr ríkissjóði til járnbrautarlagningarinnar fyr en hann er búinn að sýna það í verkinu, að hann hafi fje til að leggja brautina og að hún sje forsvaranlega lögð.

Ef t. d. sjerleyfishafi byrjar á því að leggja veg undir járnbrautina, getur það verið gert í því skyni að halda sjerleyfinu, þegar erfitt reyndist að afla fjár til fyrirtækisins og fresturinn til þess að afla þess hefði reynst of stuttur. Þá viljum við ekki, að ríkissjóður leggi fram neitt fje, og þessi brtt. miðar að því að tryggja það. Við leggjum því til, að ríkissjóðshlutinn til brautarinnar verði ekki borgaður út fyr en að nokkru leyti eftir á, að 11/2 milj. kr. verði útborguð, þegar brautin er fullgerð austur að Ölfusá, og afgangurinn, 14 milj. kr., þegar brautin er fullgerð austur að Þjórsá. Fyrir fjelagið sjálft, ef það fær nauðsynlegt fje til umráða, munar það engu, hvort ríkissjóður leggur fram tillag sitt jafnóðum eða eins og till. fer fram á.

Þá er hin brtt. Það er alkunnugt, að þótt fjelag sje stofnað með nægu veltufje, þá getur svo farið, að fyrirtæki það, sem það hefir tekist á hendur að reka, verði að stöðvast og fjelagið svo eftir nokkur ár fari á höfuðið. Við flm. till. sjáum ekki í frv. neina tryggingu fyrir því, að fjelagið geti rekið járnbrautina áfram, ef svo færi, nje haldið henni við. En þá viljum við tryggja það, að brautin stöðvist ekki. Okkur finst, að nauðsynlegt sje að hafa járnbrautina að veði fyrir því, að leyfishafar undir öllum kringumstæðum verði að halda járnbrautarrekstrinum áfram og að halda brautinni við, enda þótt aðalfyrirtækið færi um koll.

Ef landið hefði veðrjett í brautinni, eins og till. fer fram á, þá mundu fjelagsmenn sennilega reyna í lengstu lög að halda járnbrautinni gangandi, eins og tilskilið var í upphafi. Og jeg teldi það mikið lán fyrir ríkissjóðinn að þurfa aldrei að reka hana, jafnvel þótt hún fengist fyrir ekki neitt, því að reynslan mun sýna, að það verður að reka járnbraut að vetrarlagi með reglubundnum áætlunarferðum. En ef landið hefði þessa veðtryggingu, myndu fjelagsmenn vilja halda rekstri brautarinnar áfram, svo að ríkissjóður gæti komist hjá að verða að reka brautina fyrir eiginn reikning.

Hinsvegar teldi jeg það hvalreka fyrir Ísland, ef leyfishafinn, í staðinn fyrir að leggja járnbraut, vildi leggja fram 2–3 milj. kr. í sterkan bifreiðaveg austur að Þjórsá. Mjer þykir leitt, að málið skuli liggja fyrir í þessu formi, en ekki í því formi, að við fengjum veg austur. Það hefði verið við okkar hæfi, enda þótt við hefðum þurft að halda þessum vegi við. En eflaust mundi leyfishafi vilja taka þátt í því viðhaldi í hlutfalli við það, sem hann notar veginn móts við aðra.

Sem dæmi upp á það, hvað kostar að halda úti járnbraut, þá vil jeg geta þess, að þegar jeg átti við þetta mál 1913, þá leitaði jeg upplýsinga um hjá norsku stjórninni, hvað fyrningarkostnaðurinn einn væri mikill. Stjórnin svaraði og sagði, að samkvæmt reynslu í Noregi væri hann 2% af lagningarkostnaði brautanna. Af járnbraut, sem kostar 8–9 milj., mundi hann þá vera ekki minni en 180–200 þús. kr., sem er stór upphæð.

En nú er sá galli á, að enginn getur sagt um, hvaða atvinnumálaráðherra verður í þeim sessi, þegar sjerleyfið verður veitt. Það mundi því tæplega nægja, að minni deild þingsins geti þess í nál., að hún sje því ekki mótfallin, að ráðh. semji svo, sem brtt. fara fram á. Þess vegna þurfa þær helst að verða samþyktar, ef málið á að ganga fram.

Þegar allar gamlar og góðar reglur í stjórnarfari og öðru eru nú brotnar, eins og gerst hefir á síðari tímum, þá þýða loforðin lítið. Það er af sá tími, að menn geti treyst hver öðrum. Jeg er deigur að fela hæstv. atvrh. að framkvæma þetta mál, jafnvel þótt hann lofaði því að framkvæma það eins og þingið hefði lagt fyrir. A. m. k. er jeg hræddur um, að næsta stjórn mundi ekki virða loforð fyrri stjórnar, þó það hafi altaf verið venja. Þess vegna er nauðsynlegt, að brtt. verði samþyktar.

Hvað sjálfu málinu viðvíkur, þá er það svo margþætt og umfangsmikið, að það er engin von til þess, að þingnefnd, sem starfað hefir aðeins 1 viku að því, hafi getað rannsakað það til nokkurrar hlítar. Jeg teldi því ráðlegast, að málið væri rætt á tveim þingum áður en það yrði að lögum. Því væri frestað til næsta þings, en þá borið upp hjer í Ed., svo að hún fengi tíma til að rannsaka það í samráði við sjerfræðinga, t. d. raffræðinga. Það held jeg, að yrði heppilegast fyrir alla aðilja málsins.

Jeg fjölyrði svo ekki frekar um málið, en er sannfærður um, að þetta mál verður okkur ofjarl, hvort sem aðrir leggja brautina eða við sjálfir.