11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Baldvinsson:

Stríðið, sem stendur um þetta mál, er aðallega háð milli þeirra annarsvegar, sem að vísu vilja veita þetta sjerleyfi, en vilja búa svo um hnútana, að við verðum ekki dregnir á tálar með sjerleyfi, sem ekkert væri annað en pappírsgagn, svo að allar vonir okkar yrðu að engu — og hinna hinsvegar, sem eru bjartsýnir á allar fyrirætlanir þessa fjelags.

Það er skiljanlegt, að mikið sje um þetta mál rætt. Járnbraut austur í sýslur er áhugamál margra. Það má því kannske afsaka það, að þeir, sem líta á þetta fyrirtæki sem nauðsynlegt, vilji teygja sig sem lengst með það að veita þetta sjerleyfi. En það verða þá að vera einhver skynsamleg rök fyrir því, að það sje ekki alveg fyrirfram augljóst, að við verðum dregnir á tálar. Þingið vantar margar upplýsingar gagnvart þessu fjelagi, frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja kryfja málið til mergjar. Það er ekki hægt að ímynda sjer, að þetta fjelag ætli sjer að fara að vinna eitthvert góðverk okkur til handa, heldur vilji það hafa sjálft gróða af framkvæmdum sínum. En nú er það dregið mjög í efa, að fjelagið hafi nokkur peningaráð. Og málið liggur ekki það ljóst fyrir, að nokkuð sje fyrir hendi, sem afsanni þennan efa.

En eitt atriði hefir skýrst í umr. málsins. Það sýnist ekki vera upplýst, hvernig Titan hugsar sjer að starfa hjer á landi. Það er gert ráð fyrir að virkja Þjórsá. Til þess fara 26–30 milj. kr. Svo á að leiða raforkuna til Reykjavíkur. Það kostar um 11 milj. kr. Þetta er samtals um 40 milj. kr. Svo ná áætlanirnar ekki lengra. En þá er það eftir: Til hvers á að hagnýta orkuna? Og hvað kosta þær verksmiðjur, sem til þess þarf að reisa? Þetta getur maður gert sjer skiljanlegt, ef maður hugsaði sjer, að maður nokkur hefði fyrir 30 árum hugsað sjer að reisa rafstöð við Elliðaárnar og hefði hugsað eitthvað á þessa leið: Jeg ætla að nota rafmagnið til einhvers. — Þannig er það með Titan. Fjelagið ætlar að leggja leiðslu til Skerjafjarðar, þar á „kaballinn“ að liggja út í sjóinn! Það liggja engar skýrslur fyrir um það, að fjelagið ætli sjer að gera neitt meira. En til þess þyrfti auðvitað mikla peninga. Og nú er sagt, að sá maður, sem er kunnugastur þessum málum allra manna, Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, hafi litið svo á, að Titan vantaði tugi miljóna til þess að geta hagnýtt sjer orkuna, vantaði 50 milj. kr. til þess að byggja verksmiðjur til hagnýtingar orkunni. Hún verður auðvitað alt of mikil til þess að nota eingöngu til heimilisþarfa eða einhvers smáiðnaðar. Væri aðeins um það að ræða, væru engin vandræði að samþ. þetta sjerleyfi, því mjög gott væri að geta selt almenningi ódýra orku. Hún er nauðsynjavara, sem altaf gengur út, alveg eins og sykur og brauð.

Það vantar allar lýsingar á því, hvað eigi að gera við alt rafmagnið; engin áætlun er til um það, hve mikið fje þurfi. Og þó fjelagið hefði ekki gert fyrirfram neina fullnaðaráætlun, þá gat það þó gert sjer einhverja hugmynd um það, að eitthvert fje mundi það þurfa að hafa undir höndum. Fjelagið vantar minst 50 milj. kr. til að koma fyrirætlunum sínum í framkvæmd, fyrir utan það, sem ræðir um í skjölum þeim, er fyrir liggja. Það sjer hver maður, sem lesið hefir þær litlu upplýsingar, sem til eru. Og þá er eftir að vita, hvort það eiga að vera norskar eða íslenskar krónur. Við megum ekki láta þetta mál svo frá okkur fara, að við vitum svona lítið um fyrirætlanir fjelagsins. Það væri sök sjer, ef Titan væri svo fjársterkt, að það hefði enga þýðingu fyrir fjelagið, hvort það legði fram 50 milj. kr. meira eða minna. En fjelagið er illa statt, reiknað eftir því verði, sem hlutabrjef þess eru í.

Það eru engar líkur til þess, að fjelagið geti útvegað þetta „kapital“, 50–100 milj. kr., á Norðurlöndum. Erfiðleikar eru þar miklir og bankarnir í fjárhagsvandræðum. Fjelagið verður því að selja sjerleyfið, annaðhvort endurskapa fjelagið Titan eða þá selja sjerleyfið einhverju öðru fjelagi.

En þetta er ekki nema gamla sagan. Einhver er svo duglegur að ná sjer í sjerleyfi, kemur því síðan á pappíra og selur hverjum, sem hafa vill. Jeg man, að jeg undraðist eitt sinn, er sjerleyfi hafði verið veitt af Alþingi og forgöngumennirnir lögðu ákaflega mikinn kostnað í að búa til hlutabrjef, er þeir ætluðu að selja. En þeir sögðu, kannske hálft í hvoru í gamni, að þeir yrðu að gera hlutabrjefin sem fallegust að útliti, svo þau litu út eins og þau væru í raun og veru mjög verðmæt.

Í þessu sambandi er mjög ískyggilegt, hve lítið traust menn bera til fjelagsins, að því takist að útvega fje til fyrirtækisins. Það er því full ástæða til að gruna, að farið verði hina leiðina, að braska með sjerleyfið, er það er fengið. Það er ekki nema reynsla liðna tímans, því miður.

Það er kannske ekki til neins að ræða um frekari tryggingar en fram eru komnar til umræðu. En mjer finst dálítið slæmt fyrir framgang þessa máls, hve dauflega er tekið í að setja tryggingar fyrir framkvæmd sjerleyfisins. í hlutfalli við þá fjárupphæð, sem í sjerleyfið þarf að leggja, eru þær tryggingarupphæðir sáralitlar, sem farið hefir verið fram á. Hvað eru 100–200 þús. kr. í samanburði við 100 miljónir? Þessi tregða á tryggingum gefur illan grun um, að fjelagið verði ekki eins örugt, er til framkvæmda kemur, og af er látið.

Sumir fylgja þessu máli, þótt þeir ekki treysti Titan til fulls, af því að þeir telja þó líkur til, að járnbrautin fáist að minsta kosti. En það er aðeins fánýt von. Jeg get ekki hugsað mjer, ef farið væri á annað borð að endurreisa fjelagið, að það fengi einu sinni nægilegt fje til að byggja járnbrautina, eftir því sem í pottinn er búið.

Tryggingartillögur hv. 1. þm. G.-K. (BK) og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) eru góðar, en heldur hefði jeg kosið, að atvrh. veitti ekki sjerleyfið fyr en fjelagið gæti lagt fram alla peningana í járnbrautina. Hví ekki að taka það fram í frv.? Hæstv. atvrh. sagðist að vísu ekki mundu veita leyfið fyr en svo væri komið, að fjelagið hefði handbært fje til þess, þótt ekki væri meira. En í seinni ræðu sinni dró hann úr og kvað erfitt fyrir fjelagið að liggja með svo mikið fje.

Nú samþykkir þingið heimild til sjerleyfisveitingarinnar. Stjórn fjelagsins Titans veit, að hún á kost á því að fá leyfið með því skilyrði að leggja fje til járnbrautarinnar. Þá fara þeir háu herrar á stúfana að útvega peningana. Takist þeim það, er þessu skilyrði fullnægt. Takist þeim það ekki, eiga þeir ekki skilið að fá sjerleyfið. Mjer finst það mjög rjettmætt og vel forsvaranlegt skilyrði, þetta, að þeir ættu að hafa til reiðu þessar 7 milj. kr., sem þarf til járnbrautarinnar austur að Þjórsá. Með því sýndu þeir, að fjelaginu væri full alvara og einhvers megnugt. Hin leiðin, að veita sjerleyfið tryggingalaust, er að sleppa öllum tökum á fjelaginu. Við getum þá ekki lengur haft hendur í hári þess. Það er nú einu sinni búið að komast yfir sjerleyfið og er síðan laust allra mála, getur gert sjer mat úr því á hvern þann hátt, er því sýnist.

Jeg mundi fúslega vilja samþykkja frv., ef jeg hefði tryggingu fyrir því, að við fengjum virkilega járnbraut. En samkvæmt reynslu undanfarinna ára þori jeg blátt áfram ekki að samþykkja það, ef ekki koma frekari tryggingar um þetta.

Jeg hefi gert eina litla brtt. við frv., á þá leið, að tekið verði fram í sjerleyfinu, að ekki megi flytja inn erlenda verkamenn nema með samþykki Alþýðusambands Íslands. Með því er trygt, að erlent vinnuafl verði ekki flutt inn að óþörfu. Annars gæti vel farið svo, að ákvæði um þetta yrðu svo rúm, að innflutningur verkalýðs yrði þjóðinni til óþurftar og skaða. En með þessu móti álít jeg enga hættu á, að veitt verði leyfi til slíks innflutnings, nema óhjákvæmilegt væri, og jeg álít það sje öruggara að taka það ríkt fram í sjálfu sjerleyfinu.

Til vara hefi jeg komið með þá till., að í sjerleyfinu skuli ákveðið, að sjerleyfishafi megi ekki flytja inn verkamenn erlenda, ef hægt er að fá nægan vinnukraft innanlands. Það er sú minsta trygging, sem komið getur til mála að setja í sjerleyfið fyrir því, að verkafólk í landinu sjálfu þurfi ekki að ganga atvinnulaust á sama tíma og fluttur er inn erlendur vinnukraftur.

Það lítur svo út, sem hv. samgmn. hafi orðið mikið til sammála um þetta frv., að minsta kosti að greiða fyrir því til 3. umr.

Jeg get gengið inn á það með háttv. frsm., að þetta sje stórmál. En hitt get jeg ekki fallist á, að óþarfi sje að gagnrýna það. Það er líka svo gott til að vita, að tregða sú, er það mætir, er ekki af andúð sprottin, heldur af skynsamlegri varfærni, að gleypa ekki athugalaust járnbrautarfluguna, sem höfð er til ginningar á þessum sjerleyfisöngli. Jeg fæ ekki sjeð, að við sjeum nokkra vitund betur settir eða feti nær járnbraut austur yfir fjall, þótt þetta frv. verði samþykt, ef það er gert án trygginga. Það er ekki fyrir mjer af neinni andúð; jeg vildi feginn geta samþykt það, og mundi gera það, ef jeg þættist viss um, að nokkuð yrði úr framkvæmdum. En þegar engum líkum í þá átt er að heilsa og öll svörin greiða ekki úr spurningunum, og þegar upplýsingar af hálfu aðilja ná aðeins til helmings þeirra verkefna, er fjelagið hefir sett sjer fyrir hendur að starfa að, þá er ekki nema eðlilegt, að menn vilji, að farið sje varlega. Sem sagt vænti jeg þess, að hægt verði að fá ítarlegri upplýsingar hjá hæstv. stjórn og forgöngumönnum þessa máls, en ekki alt á huldu, eins og verið hefir hingað til. Mitt atkvæði fer alveg eftir því, hvort ítarlegar og glöggar upplýsingar koma fram um málið og skýr svör við spurningunum: Hvernig stendur á því, að fjelagið upplýsir ekki það atriði, til hvers eigi að hagnýta vatnsorkuna? Hversu miklu fje á að verja til þess? Það hlýtur fjelagið að hafa hugsað. Það getur ekki gengið blindandi að verki sem þessu. Meðan alt þetta er óvíst, er jeg hálfmyrkfælinn við frv.

Vitanlega er samningafulltrúi sjerleyfishafa svo nærgöngull sem framast er unt. Hann er norskur lögmaður og þaulvanur og slyngur samningamaður og segir fyrir hönd fjelagsins: Við göngum ekki að þessu eða hinu. En ef við viljum tryggja okkar hagsmuni, verðum við að segja: Gangið að þessu eða frá. Við eigum að berja í borðið og gera þeim tvo kosti. Þá kunna að renna á þá tvær grímur, ef þeim annars er nokkur alvara með járnbrautina og virkjunina. Raunar er ekkert aðalatriði fyrir Titan að leggja járnbraut austur, — eða svo hefir mjer skilist. Þeir gætu ef til vill virkjað Þjórsá án járnbrautar og flutt efni og vjelar austur þangað eftir vegunum. En mjer hefir skilist, að hæstv. atvrh. hafi komið því atriði inn í samningana og gert að skilyrði. Og það er, að mjer finst, sjálfsagt að vera virkilega strangur með, að því skilyrði sje fullnægt, að járnbrautin komi. Vitanlega er þeim það ekki neitt áhugamál, nema að því leyti, sem virkjunina snertir.

Ef frv. verður samþykt eins og það, er nú, höfum við enga trygging fyrir, að ekki fari sem um þau sjerleyfi önnur, er veitt hafa verið af hálfu ríkisins. En það kynni að verða til tafar járnbrautarmálinu. Það stendur svo á, að járnbrautarlagningin á að byrja ekki síðar en 1. maí 1929. Það er athugandi, að það er sennilega um sama leyti og þing lýkur störfum sínum það ár. Jeg er viss um, að ekki verður gengið hart að fjelaginu, þótt ekki verði verkið hafið þá. Það lofar öllu fögru um efndir á næsta ári. Og þannig getur það dregið okkur á asnaeyrunum um nokkur ár — og hver veit hvað? Það segist altaf eiga von á peningum, og við dokum við, af því að við erum nú einu sinni flæktir í þessu sjerleyfisneti. En slík 2–3 ára töf, þótt ekki sje lengri, getur verið háskaleg járnbrautarmálinu. — Jeg hefi rifjað upp spurningarnar þessu máli viðkomandi og beint þeim til hæstv. stjórnar, í þeirri von, að hún gefi nú skýrari svör en áður. Ef hún gerir það ekki, er trúlegt, að jeg geti ekki fylgt því, svo losaralega sem um alla hnúta er búið. Það er samskonar meðferð og á öðrum sjerleyfum, sem orðið hafa okkur til minkunar; við höfum staðið eftir eins og glópar með tvær hendur tómar. Og ekki er við að búast, að betur fari nú ef við högum okkur ekki eftir reynslunni.