11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. stjórn hefir ekki sjeð sjer fært, þrátt fyrir rök mín, að fallast á brtt. mínar. En jeg ætla fyrst að víkja að málinu alment eins og umræður hafa fallið um það.

Það, sem altaf hefir vakið ugg hjá þeim, sem vilja hafa raunverulegt gagn af málinu, er, að hjer geti verið um pappírsfjelag að ræða, sem minkun sje fyrir þingið að semja við. Undir umr. hefir því verið skotið að mjer af manni, sem var á stúdentafjelagsfundinum, að einn þm. bæjarins hafi haldið því fram þar, að komið hefði til mála að gera fjárnám hjá þessu fjelagi út af ógreiddum opinberum gjöldum þess. Nú hugsa jeg, að hæstv. atvrh. fari að skilja, af hverju síðari brtt. mín er fram komin. (Atvrh. MG: Hún er alveg óþörf undir venjulegum kringumstæðum). Það er alveg rjett, að undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki að þurfa að slá slíkan varnagla. En hjer er ekki um venjulegar kringumstæður að ræða. Það er ekki venjulegt, að land geri samninga við fjelag, sem er alveg óþekt og ef til vill raunverulega gjaldþrota, og jafnvel þó gengið sje út frá því, að Titan sje vel stætt, þá er þess að gæta, að hæstv. atvrh. ætlar, að sjerleyfið sje framseljanlegt, þannig að nýir og nýir aðiljar geta komið til greina. Frá formsins hlið er ekkert því til fyrirstöðu, að sjerleyfið geti svo að segja gengið mansali. Það getur gengið fjelaga á milli með leyfum stjórnanna.

Þessi ótti við, að Titan sje ekki fjárhagslega sjálfstætt fjelag, hlýtur að styrkjast við mótmæli hæstv. stjórnar, og það, að hæstv. atvrh. vill ekki láta standa í lögunum, að ríkissjóðshlutinn komi síðast til greina, bendir á hræðslu hæstv. stjórnar um, að það sjáist á einhvern hátt á framkomu þingsins, að menn hafi það álit á þessu fjelagi, sem lýsing hæstv. stjórnar á því óbeinlínis gefur tilefni til.

Nú ætla jeg að víkja að síðustu ræðu hæstv. atvrh. Hann segir, að það sje engin sanngirni í því að heimta tryggingu af fjelaginu, og vitnaði í því sambandi í ræðu hv. 1. þm. G.-K. (BK) í fyrra, þar sem ekki væri hægt að gera ráð fyrir, að neinn skaði leiddi af samningunum. En jeg vil benda á, að trygging að þessu tægi er algeng í viðskiftalífinu, og þar sem um jafnstórkostlegt fyrirtæki er að ræða og þetta, er alveg ósæmilegt af þeim, sem að fjelaginu standa, að geta ekki sýnt fulla tryggingu. Fjelagið vill ekki vera bundið, þó að landið sje það. Jeg vil minna hæstv. atvrh. á Dynjandamálið. Í fyrra vildi hann enga tryggingu setja í sambandi við það sjerleyfi, enda lögðu hinir útlendu „fjármálamenn“ ríka áherslu á, að það væri ekki gert. En svo vildi þannig til við 3. umr. málsins í Nd., að tveir íhaldsmenn voru forfallaðir. þannig að það tókst að koma inn í frv. 50 þús. króna tryggingu. (Atvrh. MG: Það voru Framsóknarmenn, sem fluttu frv.). Það kemur ekki málinu við. Jeg vildi aðeins benda á, að vegna þess að tveir af stuðningsmönnum hæstv. stjórnar voru fjarverandi, tókst að koma tryggingunni inn. Þegar til Ed. kom, gekk frv. í gegn hljóðalítið. Það fór til fjhn., þar sem, auk þriggja stuðningsmanna hæstv. stjórnar, jeg og hv. 2. þm. S.-M. (IP) áttum sæti. Við skrifuðum undir nál. með fyrirvara, af því að þá var komið í ljós, að hæstv. stjórn vildi fella niður trygginguna, og meiri hluti nefndarinnar gaf í skyn, að hann mundi flytja brtt. seinna um vist atriði. Svo kemur sá maður, sem aðallega hafði unnið að þessu máli, Karl Sæmundssen, á nefndarfund og lýsir því þar, hversu skaðlegt sje fyrir fjelagið að þurfa að gefa tryggingu. Niðurstaðan varð sú, að þessir þrír stuðningsmenn hæstv. stjórnar báru fram brtt. um að fella hana niður. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp nokkur orð úr gerðabók fjhn. 4. maí 1926. Þar stendur: „Ákvæði 9. gr. var því næst borið upp til atkvæða, og fjenu atkvæði þannig, að 3 nefndarmenn vildu fella það úr, en tveir voru mótfallnir því“ — — og síðar: „Minni hlutinn áskildi sjer rjett til að koma fram með ágreiningsatkvæði, ef brtt. næðu fram að ganga.“ Ef tryggingin var í frv., var heiðarlega frá því gengið af þingsins hálfu og að minsta kosti settur varnagli, sem, eftir því sem alt útlit var fyrir, hefði orðið þess valdandi, að ekki hefði verið boðið fram leyfið erlendis. Mennirnir hefðu ekki haft peninga. En hæstv. stjórn, eða hæstv. atvrh. og stuðningsmenn hans vildu enga tryggingu hafa. Við hv. 2. þm. S.-M. beittum okkur eftir megni fyrir að halda tryggingunni, en vorum ofurliði bornir af stuðningsliði stjórnarinnar, eins og sjest af gerðabók fjárhagsnefndar. Hæstv. stjórn hefir því búið hjer vel í pottinn, því að nú er röksemdaleiðsla hennar á þann veg, að ekki dugi að heimta tryggingu af Titan, af því að hæstv. atvrh. hafi sagt í haust, að Dynjandafjelagið hafi enga tryggingu gefið. En það er auðsjeð, hverjir bera ábyrgð á þessu tryggingarleysi. Hæstv. atvrh. og stuðningsmenn hans eru pottur og panna í því öllu saman, svo að það er hart, að hæstv. ráðh. skuli nota sekt sína og sinna manna sem vopn á aðra.

Ástæðan til þess, að jeg bæði nú og í fyrra hefi viljað heimta tryggingu, er sú, að jeg get ekki horft upp á það, að menn, sem fjárhagsástandsins vegna geta enga tryggingu gefið, sjeu að leika sjer með sjerleyfi frá Alþingi út um öll lönd. Jeg veit, að mörgum þeirra manna austanfjalls, sem hæst hrópa á járnbraut, er mjög illa við að engin trygging sje gefin. Einmitt þeir, sem eru kröfuharðastir um járnbraut, kunna ekki við aðferð stjórnarflokksins.

Hæstv. atvrh. vill þrátt fyrir alt halda því fram, að Titan eigi miklar eignir. Jeg vildi, að svo væri og að það vildi þá láta þær að veði. En menn eru hræddir um, að allar eignirnar sjeu þegar veðsettar, og ef svo er, ætti hæstv. atvrh. að geta skilið ástæðurnar fyrir fyrri brtt. minni. Jeg held, að það hafi verið meiri málafærslumannsbragur en ráðherrabragur á þeim hluta ræðu hæstv. atvrh., þegar hann taldi það sönnun fyrir eignum Titans, að búið væri að leggja svo mikið fje í rannsóknir á Þjórsá. Hvað heldur hæstv. ráðh., að hægt sje að hafa upp úr þeim rannsóknum? Þær hafa ef til vill fræðilegt gildi, sem er almennings eign, en þær hafa ekki neitt sölugildi. Það er alkunna, að slík fjelög, eins og t. d. Dynjandafjelagið, leggja talsvert fje í rannsóknir og skýrslur, til þess að flagga með síðar.

Hæstv. atvrh. spurði, hvað jeg ætti við með því, að aðili væri ekki samningshæfur. í mörgum tilfellum eru aðiljar ekki samningshæfir, t. d. er ekkert barn samningshæft. Og jeg vil álíta, að það sje ekki sæmandi fyrir ríki að semja við alla. Vegna framsalsins geta hjer komið til greina aðiljar, sem ekki er sæmandi að semja við.

Hæstv. ráðh. hefir verið með öllum sjerleyfum, sem talað hefir verið um nú á síðustu árum, nema ef til vill lotteríinu. Þó man jeg það ekki, en ef svo er, hefir hæstv. ráðh. verið með öllum þeim verstu. Það verður varla hægt að finna svo ljelegt fjelag til þess að taka við þessu sjerleyfi, að hæstv. ráðh. vilji ekki reyna það, ef dæma má eftir framkomu hans undanfarin ár, t. d. gagnvart gyðingunum, sem áttu að kaupa bankaleyfið í haust. Jeg verð að telja, að í persónu hæstv. ráðh. sje lítil mórölsk trygging gagnvart slíku framsali. Seint í ræðu sinni fer hæstv. ráðh. að berja sjer á brjóst og tala um, að hann sje ekki mikið með sjerleyfum. Fortíð hæstv. ráðh. er sannarlega á aðra bók lærð.

Hæstv. ráðh. vildi draga í efa, að það væri minkun fyrir landið að gefa út sjerleyfi eins og járnsandinn, saltvinsluna, bankana tvo, lotteríið og fleira. Núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) á hinn mesta heiður skilið fyrir það, hvernig hann tók í lotterímálið. Hann áleit það alveg ósæmilegt. Jeg hefi altaf viðurkent, að röksemdir hans gæti jeg fallist á, þar sem jeg tel það hið mesta neyðarúrræði fyrir land að leggja út í fjelagsskap við braskara, þó að einhver slíkur maður biðji um heimild fyrir sjerleyfi, til þess að leika sjer með það í eigin hagsmuna skyni. Því að öll eru leyfin ætluð til framsals í gróðabrallsskyni, og ekki síst lotteríið. En það vildi svo til, að maður sat í ráðherrasessi, sem fann þannig til fyrir sæmd landsins, að hann vildi ekkert eiga við þá útlendu „svindilbraskara“, sem mjög fegnir hefðu notað sjer slíkt leyfi. Jeg vona, að sú varfærni, sem þá kom fram, verði ekki einungis hjá einum ráðherra í einu máli, heldur verði hún almenn þjóðareign.

Hæstv. atvrh. vildi halda því fram, að síðari brtt. mín væri fjarstæða ein, af því að hjer sje um fjelag að ræða, sem sje takmarkað í eðli sínu. Jeg skal játa, að frá venjulegu lagalegu sjónarmiði er það svo, en jeg vil biðja hæstv. ráðh. að athuga, að veröldin er ekki altaf þannig, að farið sje eingöngu eftir bókstafnum. T. d. get jeg bent á, hvernig Bandaríkin notuðu sjer mjög óverulegar „ökónómiskar“ ástæður smáríkis við Panamaskurðinn til þess að gera sjer það ríki alveg háð. Málið virtist í fyrstu ekki þýðingarmikið, en endaði þó þannig, að Bandaríkin sneru því upp í pólitískt vald yfir þessu smáríki, svo að nú er það gersamlega háð hervaldi þeirra.

Hvernig fór í Noregi? Jeg hefi það eftir góðum heimildum, að fjármálamenn í Englandi og Ameríku, sem höfðu orðið fyrir svikum af „svindilbröskurum“ í Noregi, gerðu þá kröfu í gegnum sendiherra sína, að bæjarfjelag í Noregi bæri ábyrgð á þeirri meðferð, sem þeir höfðu orðið fyrir. Það vill svo til, að Noregur er sterkari en Ísland og harðneitaði þessari kröfu. Við erum venjulega veikir að því leyti, að þeir menn, sem eiga að koma fram fyrir okkar hönd, eru kjarklitlir, þegar þeir semja við útlenda menn. Það er ekki mikið leggjandi upp úr sjálfstæði okkar í þeim efnum. Til dæmis get jeg nefnt Spánarsamninginn og enska lánið 1921. Jeg vil því, að það standi í lögunum skýrt og skorinort, en ekki í neinu pukurssjerleyfi, að íslenska ríkið sje á engan hátt bundið slíkum fjelagsskap. Jeg tek till. mínar því alls ekki aftur, til þess að það standi skýrt, að einn maður að minsta kosti af öllum í deildinni hafi ekki verið ánægður með það, að leyft sje að framselja þetta sjerleyfi.

Jeg ætla svo að nota tækifærið til þess að gera ljóst eitt vandasamt atriði.

Ef till. mínar verða feldar, þá hefði það verið rjett aðstaða að greiða atkv. á móti frumvarpinu, en jeg mun samt ekki gera það, og til þess að skýra fyrir hv. deild, hvernig á því stendur, vil jeg segja eina smásögu.

Í vetur kom til mín einn merkur bóndi af Suðurlandsundirlendinu, maður, sem bæði er hygginn og ráðsettur og óvenjuvel mentur. Hann bar samgöngumál hjeraðsins mjög fyrir brjósti og spurði mig, hvaða ráð jeg sæi til þess að bæta úr þeim vandræðum þeirra, og spurði jafnframt, hvort þetta mál, sem hjer er til umræðu nú, myndi líklegt til að leysa samgönguvandræði þeirra. Jeg sagði honum, að þar gæti verið mögulegleiki, en þó byggist jeg ekki við, að það yrði björgunin. En þá sagði þessi maður, að við mættum ekki taka frá þeim þar eystra þá einu von, sem þeir hefðu, enda þótt hún væri veik. Og þetta er hugsun allrar alþýðu austanfjalls. Jeg segi því, að úr því að þeir menn eystra, sem skyn bera á þessa hluti, vilja bíða enn 2–3 missiri, í von um að þetta komist í framkvæmd, þá er viðurhlutamikið að taka frá þeim þessa veiku von. Ef frv. verður nú felt, þá mundu bændur eystra standa í þeirri trú, að þeir væru sviftir tækifæri í samgöngumálum sínum. Af þessari ástæðu mun jeg og jafnvel fleiri ekki ganga á móti þessu máli nú, þrátt fyrir alla þá galla, sem á því eru frá hálfu stjórnarinnar. En verði Titan sjer til skammar með þetta alt, þá er það stórt hneykslismál fyrir stjórnina, en mikil vonbrigði fyrir Sunnlendinga.

Ef það kemur upp, að stjórnin hafi leikið með þá, sem trúðu henni í þessu máli, þá fer ekki hjá því, að járnbrautarmálið verður tekið upp aftur, og það á rjettum grundvelli, þannig að Suðurlandsláglendið og Reykjavík starfi saman að því, með aðstoð ríkisvaldsins.

Jeg býst nú við, að hæstv. ráðherra hafi fengið það skýrt, hvaða skoðun jeg hefi á þessu sjerleyfisbraski, og jeg tel ekki óverulegt atriði, þó að ekki fáist upp úr þessu peningar, að þá fáist þó lífsreynsla, sem nauðsynleg er, bæði fyrir stjórnina og kjósendur.