12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jón Baldvinsson:

Síðasta ræða hæstv. forsrh. er í raun og veru langalvarlegasta ræðan, sem um þetta mál hefir verið flutt núna. Gegnum alla læðuna kom ljóslega fram sterk vantrú á því, að þetta fyrirtæki kæmist nokkurntíma til framkvæmda. En hann taldi þetta nauðsynlegan hlykk á leiðinni til þess að fá járnbraut. Hið sama kom fram í ræðu hv. 1. landsk. (JJ); hann taldi þetta nauðsynlegan hlykk á leiðinni til þess að fá járnbraut. Jeg get nú verið hæstv. forsrh. sammála um það, að nauðsynlegt sje fyrir okkur að fá járnbraut austur. Jeg hygg, að ekki verði vel bætt úr samgönguvandræðunum við Suðurlandsundirlendið á annan hátt. En þetta mál tel jeg slæman hlykk á járnbrautarmálinu, og jeg vil ekki fylgja hæstv. forsrh. út í þá ófæru. Hæstv. forsrh. mintist oft á það, að það væri ekkert víst, að nokkuð yrði úr framkvæmdum. Jeg skil það nú, að hann muni hafa talað svo af ásettu ráði, svo það sæist eftir nokkur ár, þegar það er komið í ljós, að ekkert hefir orðið úr framkvæmdum, að það hefði ekki verið hann, sem hafði nokkra trú á því. Þetta er gert til þess að slá varnagla fyrir framtíðina. Það er áreiðanlegt, að engin ræða, sem haldin hefir verið í þessu máli, hefir gert eins mikið til þess að kippa burtu vonarneistanum um, að nokkuð yrði úr framkvæmdum hjá fjelaginu, eins og þessi ræða hæstv. forsrh. Þetta er líka vel skiljanlegt, því að hæstv. forsrh. er sjerfræðingur á þessu sviði og veit, hve gífurlegir erfiðleikar eru á því fyrir fjelagið að fá fje til að framkvæma þetta. Hæstv. forsrh. gekk alveg framhjá öðrum framkvæmdum í þessu máli en járnbrautinni. Hann talaði eingöngu um það sem samgöngumál. En hann veit þó vel, að þetta er ekki aðalatriðið í frv. Aðalatriðið í frv. er virkjun Þjórsár og hagnýting þeirrar orku, sem virkjuð er. Hann veit það vel, að til þessara framkvæmda þarf marga tugi miljóna króna, en járnbrautin er aukaatriði, sem troðið var upp á fjelagið hálft í hvoru nauðugt, eftir því sem hæstv. atvrh. segir. Jeg mun nú síðar víkja að því, hversu nauðugt fjelaginu muni hafa verið það að hafa járnbrautina með. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. að vísa í sjerleyfislögin, þegar ræða er um þetta sjerleyfi. Þetta frv. er hjer um bil alt undanþágur frá sjerleyfislögunum. Það er stærð virkjunarinnar, sem gerði það að verkum, að þetta kom til kasta Alþingis. Það er ekki hægt að neita því, að þessi ræða hæstv. forsrh. var hörð ádeila á málið í heild sinni, og jeg hygg, að hún hafi sannfært marga um það, að lítið mundi verða úr framkvæmdum af fjelagsins hálfu. En hversu margir vilja fylgja þeim samherjunum, hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk., í þessari krókaleið þeirra, það á eftir að sýna sig.

Hæstv. atvrh. mælti á móti þeirri till. minni, að Alþýðusamband Íslands skyldi verða að veita leyfi til þess að flytja inn verkafólk. Kvað hann það mundu verða nokkuð hlutdrægan aðilja. En mjer virðist, að sá aðili hljóti að vera bærastur að dæma um það, hvort þörf sje á því að flytja inn verkafólk. Það veit best, hvað atvinnunni og atvinnuleysinu líður og hvort auðvelt er að útvega fólk eða ekki. Þá vildi hann ekki heldur fallast á varatill., vegna þess, að hann taldi, að það gæti stundum verið hægt að útvega verkafólk, en það gæti orðið dýrt. En mjer finst, að við eigum fyrst að sjá fyrir okkar eigin verkafólki, áður en við förum að flytja inn erlent verkafólk.

Þá játaði hæstv. atvrh., að hann hefði fengið Titan til þess að taka járnbrautina upp í frv., og var á honum að skilja, að fjelagið hefði verið mjög ófúst á það. Það kann að vera, að fjelagið hafi látið svo. En það sjer hver einasti maður, að fjelaginu hefir ekki verið gerður annar greiði meiri en að járnbrautarmálið hefir verið sett í samband við fossavirkjunina. Með því móti hefir það fengið Alþingi, ríkisstjórnina og íslenska ríkið í samfjelag við sig. Þessum tveimur málum verður áreiðanlega blandað saman, þegar umboðsmenn fjelagsins fara að ferðast út um lönd til þess að útvega fje. Þá munu þeir flagga með því, að íslenska ríkið og Titan sjeu í fjelagi um þetta fyrirtæki. Það sjá allir, að þeir munu geta fært sjer þetta þannig í nyt. Að fjelagið hefir þóst vera tregt til þess að ganga inn á þetta, hafa bara verið látalæti og brellur; það hefir auðvitað orðið himinlifandi yfir því að fá þessa beitu, sem kemur því að gagni bæði inn á við og út á við. Hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk. eru báðir með þessu máli vegna járnbrautarinnar, og erlendir fjesýslumenn munu verða fúsari á það að leggja fje í þetta fyrirtæki, þegar þeir heyra, að ríkið leggi tvær miljónir á borðið. Það hefði verið rjett af hæstv. atvrh. að greina þessi tvö mál vel í sundur, koma fram með tvö frv. Þá hefði verið öðru máli að gegna; þá hefði ekki verið hægt að blanda þessu svona saman, eins og nú er. Ef þetta frv. verður að lögum, þá kemur það til með að heita: Lög um heimild handa atvinnumálaráðherra til að veita sjerleyfi til járnbrautarlagningar milli Reykjavíkur og Þjórsár og til að virkja Urriðafoss. Þannig er þessum tveim málum meira að segja blandað saman í fyrirsögn laganna. Þegar farið er að safna fjenu til fyrirtækisins, þá nægir að benda á fyrirsögn laganna til þess að sýna, að fjelagið og ríkið eru í fjelagi um framkvæmdirnar. Því hefir fjelaginu áreiðanlega verið það kært, að hæstv. atvrh. setti járnbrautina inn í frv. Betri beitu gat það ekki fengið, og jeg held, að hæstv. ráðh. ætti ekki að vera að hæla sjer af því, að hann hafi fengið Titan nauðugt viljugt til þess að taka járnbrautina upp í frv.

Þá vildi hæstv. atvrh. ekki viðurkenna, að fjelagið vissi ekki, hvað það ætlaði að gera við kraft þann, sem það virkjaði. En það hefir þó ekki verið bent á neitt, sem fjelagið ætli að gera. Það hefir verið sagt, að það ætli að virkja smátt og smátt. En þess er að gæta, að ef fjelagið ætlar ekki að virkja stórt, þá verður rafmagnið svo dýrt, að ókleift verður að nota það. Hugsum okkur, að ekki verði virkjaður nema lítill hluti Urriðafoss. Þá segja raffræðingar, að þessi fyrsta virkjun hljóti að verða ákaflega dýr, nema virkjaðar verði um 100 þúsundir hestafla, vegna þess að það verði við þessa fyrstu virkjun að byggja ýmsar undirstöðubyggingar undir framhaldsvirkjun síðar.

Nú hefir Titan gert ráð fyrir því að selja hestorkuna á 50 kr. Hún mundi koma til að kosta í lögnum í húsum um 125 kr. Þetta má kallast lágt verð. En hvernig á virkjunarfyrirtæki fjelagsins að geta lifað á rafmagnsnotkun Reykjavíkur? Reykjavík notar í mesta lagi 10–12 þús. hestöfl, þó notað sje bæði til hita og eldunar. En þetta gerir 5–6 hundruð þús. kr. á ári. En það sjá allir, að þetta eru ekki miklir vextir af þeim tugum miljóna, sem fjelagið ætlar að leggja í virkjunina. Þetta er með öllu órannsakað mál. En það dettur engum í hug að fara að virkja Þjórsá fyrir 40–50 miljónir, fyr en hann veit, hvort hann getur selt eða hagnýtt sjer orkuna. En hitt er öllum ljóst, að þó Reykjavík, Hafnarfjörður, kauptúnin suður með sjó og nærsveitirnar taki það, sem þær þurfa til notkunar, þá er slíkt ekki nema dropi í hafinu eða krækiber í helvíti af svona virkjun. Nei — fjelagið hefir ekki undirbúið neitt og enginn getur vitað um, hvað það ætlar að gera. Hæstv. atvrh. hefir ekki getað fært neinar líkur fyrir því, að fjelagið hafi gert nokkrar áætlanir um eða ráðstafanir til þess að hagnýta sjer orkuna. En meðan svo er, er þess ekki að vænta, að menn sjeu trúaðir á þetta fyrirtæki.

Hæstv. ráðherra talaði um tryggingar og spurði um í því sambandi, hvað jeg mundi meta vatnsrjettindin í Þjórsá. Jeg hafði einhverntíma komist svo að orði, að þau væru ekki 5 aura virði. Og það er satt, þau eru ekki 5 aura virði á meðan Þjórsá rennur eins og hún hefir gert frá því að land bygðist. Og svo verður, meðan ekki er hægt að notfæra sjer þann kraft á neinn hátt til þeirra framkvæmda, er borga sig. En hinu neita jeg ekki, að vatnsrjettindin geti orðið mikils virði, þegar virkjun er komin á og hún rekin með skynsamlegu viti; þá fyrst eru vatnsrjettindin orðin verðmæti, sem hægt er að reikna með, en fyr ekki.

Annars tók jeg það sem spaug hjá hæstvirtum ráðherra, þegar hann skaut því fram, að ef fjelagið hefði 4–5 miljónir, þá gæti það lagt járnbraut austur á fjall. Þetta mundi fjelagið aldrei leggja út í, ef það sæi fyrir, að það yrði að leggja árar í bát svo að segja um leið og það byrjaði. Það mundi nota þessar fáu miljónir til einhvers annars, svo að þetta skraf hæstv. ráðherra um járnbrautarspotta austur á heiði getur ekki hafa verið annað en spaug hjá honum.

Menn hafa viljað fá tryggingu fyrir því, að landið yrði ekki narrað í þessum viðskiftum, en það hafa svæsnustu fylgjendur þessa máls ekki mátt heyra nefnt á nafn, og hæstv. stjórn hefir lagst mjög ákveðið móti öllum tillögum, er heimta tryggingar af fjelagsins hálfu til þess að koma í veg fyrir, að hjer yrði um gabb að ræða. Hann spurði eitthvað á þá leið, hvort fyrir mjer vekti, að sett yrðu ströng skilyrði til þess að byrja með, en svo yrði slakað á þeim á eftir, þegar byrjað væri á framkvæmdunum. Um þetta hefi jeg ekkert sagt, en vitanlega mundi þetta geta farið eftir því, hvernig menn líta á framkvæmdirnar. Annars var ekki beinlínis um þetta að ræða, heldur hitt, að við verðum ekki gabbaðir, að við fáum eitthvað fyrir þau fríðindi, sem útlendingar slægjast eftir og mundu ekki sækja eins fast að fá, ef þeir teldu sjer það ekki nokkurs virði. En þó er eitt, sem er allra varhugaverðast í þessu máli, og það er það, að fjelaginu er ekki gert að skyldu að gera neitt. Það fær sjerleyfi, sem hljóðar upp á ýmislegt, sem það ætlar að gera, en því eru engar skuldbindingar settar um, að það verði að gera eitthvað. Það vantar í þetta frv. skilyrði, sem sett eru í öll hliðstæð sjerleyfislög í Noregi. Þar er sjerleyfishöfum gert að skyldu t. d. að leggja í sjóði, og fleiri kvaðir, sem á þeim liggja. (Atvrh. MG: Þetta stendur alt í sjerleyfislöggjöf okkar, og eftir henni er þetta frv. sniðið). Jú, veit jeg það, að við höfum sjerstaka sjerleyfislöggjöf, en jeg sje ekki, að hún hafi verið notuð til fyrirmyndar við þetta frv. Hjer er um að ræða sjerleyfislöggjöf stílaða á sjerstakt fjelag, og þess vegna var full þörf að taka þar fram í upphafi alt, sem getur orðið til þess að tryggja okkur það, að hjer sje ekki um eintómt „svindilbrask“ að ræða. Hæstv. ráðherra verður að gera betri grein fyrir væntanlegri starfsemi fjelagsins og færa sterkari líkur en hann hefir gert fyrir því, að alt þetta, sem fjelagið ætlar sjer að færast í fang þarna austur frá, sje ekki annað en „humbug“ frá upphafi til enda.

Hv. 4. landsk. (MK) er svo eindreginn járnbrautarmaður, að hann þykist ekki fara neinar krókaleiðir í því máli, þó að hann fylgi þessu frv. með allri þeirri festu, sem honum er lagin. Hann þykist fara þá einu færu og beinustu leið, sem sje um að ræða, og svo sannfærður er hann um, að ekki skeiki frá rjettu horfi um framkvæmd þessa máls, að hann er þegar sestur upp í járnbrautina og ekur með ógnarhraða um Gósenlendurnar austanfjalls. Og svo ákafur er hann, að hann vill ekki leyfa lítilsháttar breytingar á frv., sem miða þó aðeins til þess að færa það til betra máls, og ástæðan er sú, að hann vill ekki hrekja frv. milli deilda. Jeg sje ekki, að það sje frambærileg ástæða, að vilja ekki endursenda höfuðdeild þingsins frv. með þeim breytingum, sem þessi deild teldi, að væru því til mikilla bóta, enda sýndi það sig við afgreiðslu málsins í hv. Nd., að fylgi þess stendur ekki það höllum fæti þar, að nokkur hætta sje á, að það nái ekki fram að ganga, þó að því yrði vísað þangað aftur.

En mjer finst ekki, að hjer sje um neinar lítilsverðar brtt. að ræða, eins og t. d. þá, að tryggja innlendum mönnum vinnu við lagningu brautarinnar, að jeg ekki nefni hin tryggingarákvæðin fyrir því, að eitthvað verði úr framkvæmdum fjelagsins. Geti hv. þdm. fallist á rjettmæti einhverrar þessarar brtt., þá hljóta þeir að greiða atkv. með þeim. Hitt er engin ástæða, að vera á móti rjettmætum breytingum aðeins af því, að einn háttv. þm. hefir komist svo ógætilega að orði, að frv. mætti ekki hrekjast á milli deilda.

Þá þótti mjer hálfljelegur „morall“ hjá sama hv. þm., er hann var að hlakka yfir því, að erlend fjelög hefðu jafnan orðið undir í viðskiftum sínum við Íslendinga, og við svo hirt leifarnar, þegar þá rak upp á sker og neyddust til að hætta. Mjer finst slæmt að lokka erlenda menn hingað til þess að leggja fje í innlend fyrirtæki með það fyrir augum, að þeir tapi. Þetta finst mjer undarlegur „morall“ og ekki sæmandi fyrir nokkurn fulltrúa þjóðarinnar að bera slíkt fram á Alþingi, eða samþykkja frv. eins og þetta í þeim eina tilgangi, að fjelagið, eftir að það hefir byrjað á framkvæmdunum, fari á hausinn, en við hirðum það, sem þeir skilja eftir, og sláum eign okkar á það.

Hv. 4. landsk. spurði, hvað við eiginlega vildum, sem legðumst móti frv. Jeg hefi nú þegar tekið fram, hvað fyrir mjer vakir: að jeg vil, að um þetta verði sem tryggilegast búið af okkar hálfu og sjerleyfið ekki veitt nema fjelagið leggi fram álitlega upphæð sem tryggingu fyrir því, að byrjað verði á framkvæmdunum. Með þessu viljum við tryggja það betur en hann, að eitthvað verði úr því, að járnbrautin komi. Hann sagði það ekkert annað en leikaraskap hjá okkur að vera að heimta tryggingu af fjelaginu. Hann má kalla það hvaða nafni sem hann vill. En hitt ætti honum að vera vorkunnarlaust að skilja, að það er ekki viðeigandi og lítt sæmandi hinu háa Alþingi að veita sjerleyfi ár eftir ár til þess eins, að erlendir gróðabrallsmenn geti flaggað með nafn landsins og slegið út á það peninga. Og það er áreiðanlega ekki til þess að koma góðu orði á landið, pappírar þeir sumir, sem nú ganga kaupum og sölum milli erlendra gróðabrallsmanna og hljóða upp á ýmiskonar rjettindi, sem þeir hafa sölsað hjer undir sig.

Hv. 4. landsk. vildi halda því fram, að eftir frv. væri um meiri hagnaðarvon að ræða hjá okkur en hjá fjelaginu. En þar er jeg á gagnstæðri skoðun, því að jeg held, að allur vinningurinn sje hjá fjelaginu, og með því að fá sjerleyfið, eins og það er útbúið, mundi hluthöfunum takast að selja eitthvað af nýjum hlutabrjefum. Þó að jeg hafi enga trú á því, að forgöngumennirnir geti útvegað það mikið fje út á sjerleyfið og nafn Íslands, að þeir geti lagt járnbrautina og byrjað á virkjun, þá þykir mjer þó sennilegt, að þeim mundi takast að skrapa saman þessari einu miljón í fjórum auðugustu löndunum, sem þeir telja sig hafa þegar eytt í undirbúning þessa máls, og láti sjer nægja það. Að þessu leyti getur það verið vinningur fyrir fjelagið að fá sjerleyfið, en skaði og skömm fyrir okkur að veita það.

Hv. 4. landsk. sagði ennfremur um okkur, sem öðruvísi lítum á málið en hann, að við vildum ekki ráðast í neitt, nema vissa væri fyrirfram, að eitthvað yrði úr framkvæmdunum, og sagði, að líkja mætti því við það, ef enginn færi á sjó nema hann hefði fulla vissu fyrir því að koma aftur hlaðinn að landi. (MK: Það var nú ekki svona illa orðað hjá mjer). Það getur verið, að það hafi ekki alveg verið svona orðað, en þetta var meiningin. (GÓ: Hann sagði, að menn vildu ekki róa nema þegar vissa væri um, að þorskurinn kæmi á móti þeim). Nú, jæja, en jeg held þá dæminu áfram, og það, sem jeg vildi þá segja, er það, að það er ekki siður þeirra, sem á sjó sækja til fiskjar, að róa með beran spottann. Allir vilja hafa beitu á önglinum. Fossafjelagið Titan hefir líka róið á sjó, en það hagar sjer dálítið öðruvísi en gömlu sjómennirnir. Að vísu hefir fjelagið beittan öngul, og kannske ekki að undra, þó að menn bíti á þann krók; en Titan hefir líka beran spotta, og það undarlega skeður, að menn bíta í spottann, eins og þorskurinn gleypir beittan öngulinn, og virðast festast þar engu síður en á önglinum. En jeg er hræddur um, að við höfum lítil upp úr öllu saman eftir að hafa ginið við beitunni og bitið í spottann. (Atvrh. MG: Þetta er mjög skáldlegt!). Jeg held við ættum að fresta þessu að sinni og láta bíða að veita þetta sjerleyfi, ef ekki er hægt að fá fjelagið til þess að setja tryggingu fyrir því, að byrjað verði á framkvæmdunum — jeg held það væri ráðlegra að bíða og sjá til, hvort fjelagið vildi ekki — (Atvrh. MG: Setja beitu á spottann!) gefa upp áður en leyfið er veitt, hvað það ætli sjer að gera við alla þá orku, sem það hygst að fá við virkjunina. Þetta hefir hæstv. atvrh. ekkert viljað upplýsa um. Og þó að hann segi, að fjelagið muni virkja smátt og smátt, þá er þó gert ráð fyrir, að virkjuð verði um 160 þús. hestöfl. En hvað gera eigi við alla þessa orku, það er hinn óttalegi leyndardómur, sem hæstv. ráðh. hefir ekki tekist að gefa neinar upplýsingar um.

En járnbrautin er sú beitan, sem betri þykir og sem flestir gína við. Þó duldist engum, að hæstv. forsrh. (JÞ), sem hvorki skortir vit nje þekkingu til þess að setja sig inn í þetta mál, talaði svo, sem hann bygði ekki mikið á fjelaginu og væri vantrúaður á framkvæmdir þess.

Við 3. umr. þessa máls, ef hún þá verður nokkur, býst jeg við að koma með brtt. til þess að tryggja betur, að þetta verði okkur ekki til annarar eins vansæmdar og járnsandurinn, norski bankinn og eins og búist er við, að fari um Dynjandafjelagið. En það kalla jeg vansæmd, hvernig við höfum verið gintir til að gefa út sjerleyfislög um hitt og þetta, sem framkvæma á, en svo verður ekkert af því gert, og hlutabrjefin ganga kaupum og sölum, sem nafn landsins er bundið við. Við verðum að athuga það, að þegar löggjafarþing einhverrar þjóðar samþ. eitthvað í þessa átt, þá búast menn ekki við, að þar geti verið um „svindilbrask“ að ræða. Enginn ærlegur drengur ætlar neinu löggjafarþingi slíkan loddaraskap. Ef t. d. komið væri til Englands, Ameríku og Þýskalands og mönnum boðið upp á að leggja fje í fyrirtæki, sem þeir vissu, að Alþingi hefði gefið samþykki til, að komið yrði á fót, þá mundi mönnum þeim ekki koma annað til hugar en að eitthvað það stæði á bak við samþykt Alþingis, sem óhætt væri að treysta, og því væri ekki um annað að gera en ganga beint að verki. En þegar það kemur á daginn, að altaf er verið að bjóða nýja og nýja pappíra ár frá ári, sem hljóða upp á væntanlegar framkvæmdir hjer á landi, sem Alþingi hefir veitt sjerleyfi til, en ekkert er gert, þá gæti farið svo, að sagt yrði: Nú, það er sjerleyfi frá Íslandi, við erum nú farnir að kannast við þau og vitum, að þau eru ekki mikils virði!

Útlendingar líta alt öðruvísi á þetta en við. Hugsum okkur t. d., hvaða þýðingu það mundi hafa, ef enska parlamentið veitti sjerleyfi til einhverra framkvæmda. Peningarnir mundu streyma inn og á örskammri stund fást meira en um var beðið og þyrfti til framkvæmdanna. Með samþ. parlamentsins myndi þykja kominn sá stimpill á sjerleyfið, að enginn mundi efast um, að um eitthvað merkilegt sje að ræða, og láta sjer ekki koma til hugar, að neinir prettir sjeu á bak við. Og í þennan stimpil eru allar smáþjóðir að reyna að ná, þó að misjafnlega gangi. Þess vegna ættum við að fara varlega og ekki leika okkur svo með nafn landsins og sjálfstæði eins og gert hefir verið og enn á að gera með því að fleygja fríðindum í fánýtt fossafjelag án nokkurrar tryggingar af hálfu fjelagsins.

Hv. 4. landsk. hefir líkt þessu við róðra og fiskiveiðar. Mig langar að lokum að minna hann á sögu í því sambandi, sem á rætur sínar langt aftur í forneskju. Það er sagan um Ása-Þór, þegar hann reri til fiskjar eitt sinn, en hugði að veiða Miðgarðsorm. Þór hafði vað heldur sterkan, og eigi var öngullinn minni eða óramlegri; þar ljet hann koma á uxahöfuð mikið og kastaði fyrir borð, og fór öngullinn til grunns. En Miðgarðsormur gein yfir uxahöfðinu og öngullinn vá í góminn orminum, svo að hann festist.

Fossafjelagið Titan beitir sinn öngul líka uxahöfði. Það er járnbrautin, sem það ætlar okkur að gína yfir, svo að öngullinn festist í góminum.