12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hafði, satt best að segja, ekki ætlað mjer að tala í þessu máli. En umr. í gærkveldi ýttu mjer á stað, því jeg gerði ráð fyrir, þó jeg kveddi mjer hljóðs og færi að tala um málið, að það yrði varla óskiljanlegra en hitt og annað, sem sagt var hjer í gærkveldi.

Mjer finst, að öll afgreiðsla málsins hjer í þessari hv. deild hafi ekki verið eftir mínum smekk. Nál. hv. samgmn. lítilfjörlegt, um svo stórt mál, sem hún telur hjer vera um að ræða — nál. er rúmlega hálf blaðsíða. Og mjer finst, að lesa megi út úr því á milli línanna, að það sje svona í þægðarskyni við hæstv. stjórn að lofa frv. að fara til 3. umr., en eins líklegt, að nefndin verði þá á móti því.

Enda virðist eftir öllum sólarmerkjum að dæma, að mál þetta sje svo aumlega undirbúið, að furðu sætir, að komið skuli vera með það til þingsins. Það er upplýst, að fjelagið, sem ætlar að gera öll þessi undur austanfjalls, hefir engan eyri handa á milli.

Hæstv. atvrh. sagði nú líka, að það gerði ekkert til, þó að fjelagið ætti engan eyri í handraðanum — það væri sama, hvort samið væri við fjelag, sem ekkert ætti, eða annað, sem teljast mætti efnað — og rök hæstv. ráðh. voru þau, að fjelagið ætlaði að fá fjeð annarsstaðar frá. Þetta kann vel að vera, en jeg hefði nú samt talið það betra og tryggilegra að semja við efnað fjelag, sem nyti trausts og viðurkenningar erlendra fjármálamanna.

Mjer finst, að þessi sjerleyfi sjeu orðin faraldur hjer á hinu háa Alþingi. Flest af þeim, sem veitt hafa verið, hafa aldrei borið neinn árangur, og má kannske með sanni segja, að þau sjeu best vegna þess, að þau hafa aldrei komið til framkvæmda.

En það er nú í fyrsta sinn, að hæstv. stjórn ber fram frv. um að veita sjerleyfi. Heldur hún því fram, að það sje mikið framfaramál að fá hjer járnbraut, en þar er jeg á öðru máli og margir aðrir góðir menn.

Ríkisstjórnin hefir ekki lagt eins mikla rækt við nein hjeruð eins og sýslurnar hjer fyrir austan fjall, en öll þau fyrirtæki, sem þar hafa verið gerð, hafa síður en svo gert hag sýslnanna betri en áður, og sama mun verða um járnbrautina, ef hún kemur.

Þá taldi hæstv. atvrh., að járnbrautir væru bestu samgönguleiðir og mikið ódýrari en bílvegir. Ja, jeg skil nú ekki, að við þurfum ekki að hafa bílveg austur í sýslur þrátt fyrir það, þótt járnbraut komi, svo þetta er fölsk ástæða hjá hæstv. atvrh.

Hæstv. atvrh. sagði, að ekki mætti miða við það, þótt járnbrautir bæru sig illa erlendis, því að þar væru svo lágir flutningstaxtar. Þetta er nú ekki annað en sönnun þess, að járnbrautir borgi sig illa, og ver en bifreiðir, því að auðvitað eru farmgjöld með járnbrautum alstaðar sett svo há sem fært þykir og sanngjarnt.

Þá skal jeg snúa mjer að hv. samgmn. Þar hafa 2 hv. nefndarmenn komið fram með 2 brtt. á þskj. 330, er þeir telja til bóta, en háttv. frsm. nefndarinnar segist þó vera á móti þeim. Upp úr þessu tók hæstv. atvrh. í sama strenginn og háttv. frsm., að hann taldi till. til bóta, en vildi þó ekki hafa þessi ákvæði í lögum, heldur í sjerleyfinu. Þetta hefir nú ekki verið reglan hjá Alþingi um lagasetning, en með sama rjetti gæti hæstv. atvrh. haldið því fram, að í lagasetning Alþingis þyrfti ekki að vera annað eða meira en fyrirsagnir laganna og ef til vill lítilfjörlegur rammi um, hvað í þeim ætti að standa, svo gæti stjórnin sjeð um alt annað með reglugerðum!

Jeg held, að það væri rjettast fyrir þá, sem fylgja þessari skoðun, að snúa frv. við og heimila stjórninni að veita öll þau sjerleyfi, sem beðið er um! En það væri fremur eftir mínu skapi að bíða með að veita fleiri sjerleyfi þangað til menn sjá, hvort nokkuð kemst í framkvæmd af þeim fyrirtækjum, sem sjerleyfi hafa verið veitt um. Og þótt það verði máske ekki talin hneisa að veita nú enn sjerleyfi svona út í bláinn, þá verður það áreiðanlega ekki til þess að auka virðingu þingsins.

Þá var það eitt í ræðu hæstv. forsrh., sem jeg get ekki sætt mig við, að það sje óviðeigandi, að fjelaginu sje gert að greiða eitthvað, ef það byrjar ekki á framkvæmdum innan ákveðins tíma. Jeg hygg, að það sje venjulega svo, að ef veitt eru hlunnindi, þá setji viðkomandi einhverja tryggingu í staðinn. Og jeg tel það mikið vafamál, hvort fjelagið er betur sett með því að byrja á framkvæmdum, leggi einhvern hluta af járnbrautinni, og svo verði alt tekið af því, ef það verður að hætta vegna fjárskorts.