12.04.1927
Efri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jónas Jónsson:

Jeg þarf að segja nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. (JÞ) fann till. mínum til foráttu. Hann hjelt því fram gegn fyrstu till. minni, að hjer væri um engin útlát að ræða frá landsins hálfu, og því þyrfti ekki að heimta neina tryggingu. En það er þó hlutafjelagið Titan, sem sækir á, og allir vita, að það gerir það ekki okkar vegna, heldur vill það nota vatnsrjettindi sín. Þessi till. um járnbrautarlagningu er frá hæstv. atvrh., en ekki frá fjelaginu. Því verður ekki neitað, að fjelagið fær hjer margvísleg hlunnindi og ívilnanir. Jeg býst við, að mörg hlutafjelög vildu þiggja þau skattakjör, sem Titan eru ætluð, en slík hlunnindi hafa ekki verið látin í tje neinu gróðafjelagi, nema ef nefna mætti Íslandsbanka. Landið lætur hjer af hendi mikla möguleika, sem óneitanlega eru mikils virði, hvort sem fjelagið getur komið nokkru í framkvæmd eða ekki. En ef ekkert verður úr virkjun og fjelagið er braskfjelag, þá vita allir, hvað reynt verður að hafa upp úr leiknum. Það verður reynt að hækka hlutabrjefin í verði og því óspart haldið á lofti, að íslenska ríkið sje í þessum fjelagsskap. Þetta er einmitt það hættulega við að láta sjerleyfi í hendur óþektra manna og getur hæglega orðið landinu til minkunar og skaða. Það er alveg talað út í hött, að ríkið sje að reyna að fjefletta fjelagið, þótt það heimti tryggingu. Ef hjer á í hlut braskfjelag, sem fær mikil hlunnindi og kemur með þessa siðferðilegu ábyrgð landsins á pappírum frá atvrh., þá mætti miklu fremur segja, að hætta væri á, að það fjefletti landið. Það er alveg óskiljanlegt, að fjelag, sem ætlar að ráðast í fyrirtæki, sem kostar tugi miljóna, geti ekki lagt fram neitt veð. Ef fjelaginu er alvara, þá býr hver að sínu. En ef hjer er verið að leika með landið, sje jeg ekki eftir fjelaginu að setja einhverja tryggingu. Jeg skal þá með fáum orðum rifja upp, hvað felst í till. mínum. Fyrsti liður fer aðeins fram á það, að fjelagið sýni, hvort því er full alvara í þessu máli. Ef það vill enga tryggingu setja, er því engin alvara.

Annar liður fer fram á þá sjálfsögðu ráðstöfun, að samþykki Alþingis verði að koma til framsals á sjerleyfi. Það verður að vera ákveðinn aðili, sem samið er við. Svo var það, þegar Íslandsbanki var stofnaður, og sömuleiðis þegar samið var um símalagninguna. Þriðji liður stendur í fullu gildi, þar sem hv. 1. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Eyf. hafa tekið sínar brtt. aftur. Síðari liður þeirrar tillögu er nauðsynlegur, því ef sjerleyfið lenti í höndum braskara, væri síður hægt að misbrúka afstöðu landsins, ef greinilega væri tekið fram, að það væri ekki þátttakandi í öðru en þessu eina atriði, járnbrautinni. Tillögur mínar fara allar í þá átt að reyna að leiða í ljós, hvort fjelaginu er í raun og veru alvara og hvort til nokkurs er að semja við það. Þó að því sje haldið fram, að reyna verði þessa leið vegna járnbrautarmálsins, er sú tilraun vitanlega tilgangslaus, ef fyrirfram er víst, að fjelagið geri ekki neitt. Tryggingartill. mínar eru miðaðar við það, að fjelagið eigi ekki annað en vatnsrjettindin. Mjer hefði verið skapi nær að heimta peningatryggingu. En þegar jeg heyri, að fjelagið á enga peninga, vil jeg bjóða því að setja tryggingu, sem það getur staðið við.

Jeg óska, að þessar till. mínar komi til atkvæða nú. Þær eru áminning til stjórnarinnar um það, að reynt sje að ganga úr skugga um, hvort hjer sje verið að semja við áreiðanlegan aðilja. Mótstaðan gegn till. mínum stafar af ugg um fjárhag fjelagsins og lítilli von um framkvæmdir af þess hálfu.