22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er hjer með 2 brtt. sjerstakar, auk þess sem jeg. er flm.brtt. með hv. 2. þm. Eyf. (BSt). önnur brtt. mín er við

1. gr. frv., þar sem ákveðið er, að mönnum sje óheimilt að taka erlenda menn í þjónustu sína hjer á landi, gegn kaupgreiðslu, annari en fæði og húsnæði. Brtt. mín fer fram á það, að orðin „annari en fæði og húsnæði“ falli burtu. Því hefir jafnvel verið haldið á lofti af mönnum í sjútvn., sem fylgjandi eru frv., að þó að þetta ákvæði, eins og það er í frv., yrði samþykt, þá yrði það aldrei annað en pappírssamþykt, því að erlendir menn mundu ráðnir upp á fæði og húsnæði, enda þótt um venjulegt kaupafólk væri að ræða. Brtt. mín mundi girða fyrir þetta. Ef svo kynni sjerstaklega að standa á, að nauðsynlegt væri að fá erlent vinnufólk, þá væri auðvelt að fá heimild til innflutnings þess hjá atvrh., samkvæmt 4. gr. frv. En með heimildinni eins og hún er veitt í 2. gr. frv. er sett það gat á lögin, sem getur orðið mjög varhugavert.

Hin brtt. mín er við 4. gr. frv., er veitir atvrh. heimild til þess að veita undanþágu frá ákvæðum 2. gr. Jeg legg það til, að atvrh. veiti þessa undanþágu í samráði við Alþýðusamband Íslands. Er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að ráðherrann ráðgist við þann aðilja, sem innflutningur erlends verkafólks mestu skiftir, sem sje samband hins íslenska verkalýðs, Alþýðusamband Íslands, hvernig það líti hverju skifti á þann innflutning, sem farið er fram á, að veitt sje undanþága til. Atvrh. er vitanlega ekki bundinn við álit Alþýðusambandsins í því efni, frekar en hann er bundinn við álit atvinnurekanda þess, er fram á undanþáguna fer. En það er nauðsynlegt, að hægt sje að sjá, hvað atvinnurekendur hafi fyrir sjer um nauðsyn innflutningsins og hvernig stjórn sambands verkalýðsfjelaganna lítur á málið. Alþýðusamband Íslands myndi aldrei leggja á móti slíkum innflutningi, nema hann kæmi í bága við hagsmuni hins íslenska verkalýðs. En til þess eru þessi lög sett, að gæta hagsmuna hans.

Jeg ætla mjer ekki að tala sjerstaklega um brtt. á þskj. 169. Háttv. aðalflm. (BSt) hefir lýst rökunum fyrir þeirri till. En viðvíkjandi brtt. meiri hl. nefndarinnar um það, að heimila bændum að ráða erlend hjú, þá skal jeg geta þess, að mjer þykir sú till. alleinkennileg, því að í stað þess, sem jafnan hefir verið viðkvæðið hjer, að Ísland sje fyrir íslendinga, þá er með till. sagt, að sjávarsíðan sje fyrir íslendinga, en sveitirnar fyrir útlendinga. Með því að hafa ótakmarkaða heimildina fyrir því að ráða erlend vinnuhjú til sveitanna, þá verður ekki auðvelt að stemma stigu fyrir því, að innflutningurinn verði mikill, og fólk það, sem þannig flyst inn í sveitirnar, getur hæglega leitað síðar til sjávarins.