27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg nenni ekki að karpa við hv. 1. þm. Reykv., hvort hægt sje að taka veð endurgjaldslaust; hann veit vel, að það er ekki hægt. Þá segir hann, að jeg hafi gefið þá merku yfirlýsingu, að ekki væri rannsakað ennþá, hvað gera ætti við kraftinn. Jeg veit ekki, hvort mönnum finst það mótsögn, er jeg sagði, að tilætlunin væri að selja eins mikinn kraft til einstakra manna og hægt væri, en óákveðið væri, hve mikið af orkunni ætti að nota til iðnrekstrar. Ef hv. þm. þyrði aldrei að setja á stofn fyrirtæki, t. d. verslun, án þess að ganga fyrst til tilvonandi kaupenda og spyrjast fyrir um, hve mikið þeir vildu kaupa, þá hefi jeg litla trú á, að mikið yrði úr framkvæmdum. Hjer er ekki um annað að ræða en að virkja ekki meira en fjelagið heldur, að það hafi not fyrir. Það getur vel verið, að framleidd verði áburðarefni, þótt ekki fáist meira en 13 kr. fyrir hestorkuna; það er líka alveg nóg gjald, þar sem þeir hafa þá orku umfram, sjer að kostnaðarlausu.

Hv. þm. talar um kröfur, er gætu komið frá öðrum löndum á hendur okkur, og að við munum verða að beygja okkur fyrir valdi þeirra þjóða, þótt kröfurnar sjeu alls ekki rjettmætar. Það verð jeg að segja, að ef lagalegur rjettur getur ekki hjálpað okkur í þessu efni, en farið væri á móti okkur með valdi, þá getum við ekki staðið á móti neinni þjóð. Og þá hefði verið heimska af okkur að fá fullveldi, ef við treystumst ekki til að verja okkur með okkar góða málstað. (JakM: Það fer eftir því, hvaða fangstað þeir fá). Eftir því, hvaða fangstað þeir fá, segir hv. þm., eftir að hann hefir viðurkent, að slíkar kröfur væru algerlega ranglátar.