22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir meðferð hennar á þessu frv. Jeg skal taka það fram, að jeg lít svo á, að það sje rjett hjá hv. minni hl. nefndarinnar, að í 4. gr. frv. felist næg heimild til þess að ráða til landsins erlend vinnuhjú, og að því sje ekki þörf á brtt. meiri hl. En mjer skilst, að sú brtt. sje fram komin vegna þess, að meiri hl. óski eftir því, að menn verði lausir við þá fyrirhöfn, sem það hefir í för með sjer að sækja um leyfi stjórnarinnar um innflutning í hvert einstakt sinn. Þessi ástæða meiri hl. hefir við dálítil rök að styðjast. Verði brtt. meiri hl. samþykt, þá verða þau hjú, sem flytjast inn í landið, vitanlega undirorpin öllu því eftirliti og þeim öryggisráðstöfunum, sem yfirleitt eru gerðar í landinu til þess að forðast útbreiðslu næmra sjúkdóma. Með þessum formála skal jeg lýsa yfir því, að jeg sje enga ástæðu til þess að vera á móti brtt.

Um brtt. á þskj. 169 um það, að lögin öðlist gildi 1. júlí, skal jeg geta þess, að það er rjett hjá hv. flm. (BSt), sem hann sagði, að brtt. í þessa átt kom fram í hv. Ed., en var feld þar. Mig minnir, að það hafi verið sama tillaga að því er gildistökuna snertir. (BSt: Í þeirri till. stóð, að lögin skyldu ganga í gildi þegar í stað). Það er alveg fráleitt að ætla að láta lögin fá gildi þegar í stað. Það væri hin mesta ókurteisi við þær þjóðir, sem hlut eiga að máli. Fresturinn verður að vera svo rúmur, að hægt verði að tilkynna hinum erlendu þjóðum lögin, og að þær fái hæfilegan tíma til þess að búa sig undir þær breytingar, sem af lögunum leiða. Eins og sakir standa, verður ekki með neinni vissu sagt, á hvaða tíma frv. verður afgreitt sem lög frá Alþingi, og því verður ekkert um það sagt, að fresturinn sje nægur til 1. júlí. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt — ekki síst fyrir smáþjóð, sem vjer erum — að haga sjer rjett og kurteislega gagnvart öðrum þjóðum, og því tel jeg nauðsynlegt að hafa frestinn nægilega langan. Jeg legg því til, að stjfrv. verði samþykt óbreytt. Það er ekki að vita, hve lengi getur dregist að afgreiða frv. Nú koma fjárlögin bráðum til umræðu, og þegar þau koma, er venjan sú, að önnur mál verða að víkja fyrir þeim. Verði því frv. breytt aftur, þá verður það að fara aftur til hv. Ed., og því er ekki víst, að það verði að lögum fyr en undir þinglok.

Um brtt. á þskj. 170 skal jeg taka það fram, að samskonar till. kom fram í háttv. Ed. og var feld þar með miklum atkvæðamun. Það er ljóst, að það er illmögulegt að banna mönnum, sem vilja vera hjer og vinna gegn fæði og húsnæði, t. d. aðallega til þess að læra málið, að koma hingað til landsins.

Um seinni brtt. skal jeg geta þess, að það er víst ekki til neitt sjerstakt fjelag atvinnurekenda hjer á landi. Ef farið væri að biðja um undanþágu, þá gæti sú beiðni eins vel komið frá verkafólkinu sjálfu. Ef ráðherrann ætti að fara að spyrja Alþýðusamband Íslands um álit þess á slíkum beiðnum, þá yrði hann einnig að leita álits vinnuveitenda um þær. Best er að láta stjórnina eina gera út um slíkar beiðnir, — enda hygg jeg, að sú yrði raunin á, að Alþýðusambandið myndi alloftast leggjast á móti undanþágunum. Það, sem leggja verður áherslu á í allri atvinnulöggjöf, er það, að skifta rjett á milli atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda. Jeg hygg því rjettast að fela stjórninni að gera út um undanþágurnar. Hún mun á engan hátt misbrúka það vald sitt. Henni er bæði rjett og skylt að líta jafnt á hag beggja aðilja og gera um málin eftir því. Jeg legg því til, að brtt. á þskj. 169 og 170 verði feldar.