27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson) Jeg get alls ekki viðurkent, að jeg hafi á neinn hátt rangfært orð hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann viðurkendi, að rannsóknum á virkjun Sogsins væri skamt á veg komið, og viðurkendi ennfremur, að þörfin fyrir rafmagn hjer í bæ væri mikil. Hv. þm. er því með því að leggjast á móti þessu máli að vinna á móti hagsmunum síns bæjarfjelags og kjördæmis.

Viðvíkjandi útvegun fjár til virkjunar Sogsins, þá veit jeg ekki til, að unnið hafi verið neitt að því, en það hefir mikið verið unnið að fjársöfnun til að virkja Urriðafoss.