22.04.1927
Efri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Vegna þess, að jeg er eini maðurinn í þessari hv. deild, er átti sæti í milliþinganefnd þeirri, er skipuð var í bankamálinu, og frv. hæstv. stjórnar byggist í öllum aðalatriðum á frv. nefndarinnar, þá verður framsaga mín aðallega um þær breytingar, sem milliþinganefndin vildi gera á bankalögunum, en sem hv. meiri hl. fjhn. vill nú fella niður.

Verð jeg þó fyrst að víkja að gangi málsins á fyrri þingum, og svo síðan að því, hvernig hinar ýmsu brtt. samrýmast þeirri skoðun, sem þingið hefir slegið fastri í þessu máli. Brtt. háttv. meiri hl. og háttv. 5. landsk. (JBald) er jeg ósamþykkur, en mun síðar víkja að þeim.

Það, sem fyrst gerðist í máli þessu, er það kom til Alþingis, var það, að seint á þinginu 1924 var lagt fram frv. um það, að Landsbankinn tæki við seðlaútgáfunni. Menn höfðu búist við, að þetta mætti ekki neinni mótspyrnu, enda var frv. það, er þá lá fyrir, samið af stjórn Landsbankans að tilhlutun stjórnarinnar. Aðaleinkenni frv. þessa voru þau, að gerð var breyting á skipun æðstu stjórnar bankans; skyldi honum ekki stjórnað beinlínis af bankastjórum, eins og hingað til, heldur skipað bankaráð, og fyrir þess milligöngu átti landsstjórnin á hverjum tíma að hafa vald yfir bankanum. Þetta þótti sumum höfuðgalli og óttuðust, að ef hjer yrðu sterkar pólitískar sveiflur, þá gæti hver meiri hl. í þinginu skift um bankaráð og gert algerða stefnubreytingu á rekstri bankans.

Auk þess var í frv. gert ráð fyrir, að landið mundi ekki hafa efni á því að leggja fram þær miljónir, sem seðlabankinn þurfti til kjölfestu, og þess vegna stakk Landsbankastjórnin upp á því, að leitað yrði til einstakra manna um það, að þeir legðu fram helming þess fjár, er þurfti; bankinn þannig gerður að hlutabanka og ákvæði sett um arðskiftingu eftir fyrirmynd Noregsbanka.

Tvent var það, sem aðallega vakti mótþróa gegn frv. Í fyrsta lagi það, að landið tæki einstaka menn sem meðeigendur í bankanum, því að menn óttuðust, að það gæti leitt til þess, að bankinn kæmist í hendur einstakra gróðamanna og yrði ekki þjóðbanki lengur. Þriðja atriðið hafði ekki mikla þýðingu þá, en hefir fengið mikla þýðingu síðan, og það er endurkaupaskylda Landsbankans á viðskiftavíxlum Íslandsbanka. Landsbankastjórnin benti á tvær leiðir í þessu efni. önnur var sú, að höfð yrði sama aðferð við Íslandsbanka eins og höfð var í Svíþjóð, þegar sænski ríkisbankinn tók við seðlaútgáfunni þar í landi. Hjer hafði Íslandsbanki seðlaútgáfuna og átti ekki að skila henni af sjer fyr en 1933. Bankinn skyldi svo njóta þessara hlunninda hjá Landsbankanum, að fá endurkeypta góða viðskiftavíxla, þann tíma, sem hann átti eftir að hafa seðlaútgáfurjettinn. Upphæðin átti að fara smáminkandi og falla niður, þegar sá tími væri útrunninn, sem Íslandsbanki átti að hafa seðlaútgáfuna. Hin leiðin var sú, að þessi fríðindi, endurkaupaskyldan, skyldi falla niður, en Landsbankinn skyldi í þess stað kaupa gull af Íslandsbanka, sem notað yrði til tryggingar seðlum Landsbankans. Það er því auðsætt, að þetta átti að vera borgun fyrir að fá seðlaútgáfuna fram til 1933, sem Íslandsbanki ekki þurfti að láta af hendi.

Jeg hefi reynt að rekja þetta mál ítarlega hjer, vegna þess, að síðar kom fram sú krafa, að Íslandsbanki ætti að hafa þennan rjett miklu lengur, eftir að hann hefði tapað seðlaútgáfunni. Um þetta komu fram tvær till., önnur á þá leið, að Íslandsbanki skyldi njóta þessara endurkaupahlunninda í 10 ár áður en hann hættir að vera seðlabanki, og var sú till. samþ. í hv. Nd. í fyrra, og hin till. var um 20 ára endurkaupaskyldu, og er það svo í stjfrv. nú. Þetta er algerlega óskylt því, sem kom fram í byrjun. Þá átti þetta að vera borgun fyrir hlunnindi, sem Íslandsbanki ljet af hendi áður en honum bar skylda til, en nú eru þetta aðeins hlunnindi fyrir Íslandsbanka Landsbankanum í óhag, sem eiga að standa óhögguð í 10–20 ár eftir að Íslandsbanki er skilinn að skiftum við landið sem seðlabanki. Á þessu þingi (1924) kom fram till. um það, frá núverandi hv. frsm. meiri hl. (BK), að Landsbankinn fengi ekki seðlaútgáfuna, heldur sjerstakur seðlabanki, sem stofna skyldi, sem ljeti svo bankana fá seðlalán, eins og tíðkast erlendis. Málinu lauk svo á þessu þingi, að núv. hæstv. forsrh. stöðvaði frv. og óskaði eftir að fá umhugsunarfrest. Nú leið ár og hæstv. stjórn hafðist lítt að. Hún ljet enda undir höfuð leggjast að leita til sjerfræðinga, nema eins, og má þó geta þess, að stjórnarfulltrúi vor í Kaupmannahöfn, Jón Krabbe, gerði þá eina merkilega till. í málinu, sem síðan hefir hlotið almenna viðurkenningu. Hæstv. stjórn gerði svo nokkrar breytingar á frv., sem sumar voru til bóta, en aðrar til spillis, frá mínu sjónarmiði, og lagði það síðan fyrir þingið 1924. Meginatriðið var það, að stjórnin gekk inn á þá uppástungu bankastjórnarinnar að gera bankann að hlutafjelagi og bjó svo um, að hlutirnir hlutu að lenda í fárra manna höndum, vegna þess, hve þeir áttu að vera stórir. Hlunnindin við það að eiga hluti áttu að verða svo mikil, að sagt var og reiknað út, að þeir gætu jafnvel borgað sig á 5–6 árum. Um leið mundi bankinn hafa orðið sjerstök persóna að lögum, því að það var tekið fram í frv., að bankinn væri ekki nema að nokkru leyti háður hlutafjelagalögum. Og af því leiddi, vegna þess að bankinn hefði orðið sjerstök persóna að lögum, að hann hefði verið undanþeginn aðhaldi þingsins í hálfa öld; það hefði allan þann tíma ekki getað hlutast hið minsta til um skipulag hans. Þetta hefði verið mjög óhentugt og óeðlilegt, að taka þjóðbanka undan starfandi eftirliti þjóðarinnar. Hagir manna breytast á skemmri tíma en hálfri öld, og hagur bankans hlaut að fara mikið eftir því, en við þetta hefði orðið að sitja eftir frv. stjórnarinnar.

Eitt atriði kom fram, sem orðið hefir að deiluatriði síðan, og það var ákvæðið um það, að landssjóður bæri ekki ábyrgð á bankanum. Hefði þá ekki staðið á bak við bankann annað en eignir hans, og mundi það vafalaust hafa orðið til þess að rýra mjög álit og traust hans út á við, enda kom sú skoðun fram við umr. um málið.

Jeg hygg, að jeg geri ekki hæstv. fjrh. (JÞ) rangt til, þó að jeg segi, að hann muni óska þess, að aðstreymi yrði heldur minna að sparisjóðsdeild Landsbankans en verið hefir. Það er hinsvegar vitanlegt, að á erfiðum árum eins og nú leita landsmenn með sparifje sitt þangað, sem tryggast er, og það er vafalaust, að sú almenna skoðun, að landið beri ábyrgð á Landsbankanum, hefir aflað honum bæði trausts og sparifjár. Jeg býst við því, að það hafi verið sumpart með tilliti til Íslandsbanka, og ef til vill annara nýrra banka, að hæstv. fjrh. lagði ekki litla áherslu á það, að ríkið stæði ekki á bak við Landsbankann.

Nú hefir þetta mál verið tekið til nýrrar athugunar og við meðferð fjhn. þessarar hv. deildar hafa komið fram nýjar skýringar, sem hafa orðið athugunarefni fyrir landsmenn.

Frá mínu sjónarmiði er það siðferðileg skylda ríkisins að styðja Landsbankann, og sje jeg því ekkert á móti því, að ákvæði um þetta sje sett inn í sjálf stofnlög bankans. — Eitt atriði í stjfrv. var þó til bóta, að endurkaupaskyldan var feld niður. Stjórnin hafði snúið sjer til stjórnar Íslandsbanka og spurt hana, hvort hún óskaði þessara hlunninda, og hafði hún fengið það svar, að Íslandsbanki vildi ekki verða af seðlaútgáfurjettinum fyrir þau fríðindi, sem Landsbankinn hjer hafði boðið. Þá var það sett í frv., að Landsbankinn skyldi kaupa gullforða Íslandsbanka, jafnóðum og hann losnaði.

Svo fór, að helmingur deildarinnar sætti sig ekki við meðferð stjórnarinnar á málinu; var það stöðvað í annað sinn og kosin til rannsóknar 5 manna milliþinganefnd í þinglok 1925. Hún starfaði um sumarið og fram á vetur. Nefndin gaf út ítarlegt álit og gerði þær till. í málinu, sem lagðar voru til grundvallar fyrir frv. því, sem hjer er til umr., og get jeg ekki sem einn nefndarmanna komist hjá því að skýra nokkru nánar frá því, hvað fyrir nefndinni vakti með þeim breytingum, sem hún kom fram með. Það, sem nefndin gerði, var meðal annars það, að einstakir nefndarmenn fundu að máli helstu fjármálamenn á Norðurlöndum og fengu hjá þeim skriflegt álit um og till. til breytinga á frv. því, sem Landsbankastjórnin hafði undirbúið, og frv. hv. 1. þm. G.-K. Niðurstaðan varð, að sú leið, sem hv. 1. þm. G.-K. hafði bent á, var ekki talin heppileg hjer, þó að hinsvegar sje sú raun á, að alstaðar í stóru löndunum er þjóðbankinn banki bankanna. Jeg býst við, að þar sem þessir fjár málamenn fengu rækilegar þýðingar af frv. báðum og greinargerðum fyrir þeim, þá verði að telja till. þeirra mikilsvert „innlegg“ í málinu, einkum að því er snertir spurninguna um það, hvort við ættum að stofna nýjan banka eða fela okkar gamla banka, Landsbankanum, seðlaútgáfuna. Nú hefir hv. 1. þm. G.-K. unnið að málinu á þeim grundvelli, og hefir hann ef til vill ekki sannfærst, en þó sætt sig við þessa leið, sem fjármálamenn Norðurlanda hafa talið heppilegasta fyrir okkur og sem meiri hl. milliþinganefndarinnar hallaðist að. Meiri hl. var í öllum aðalatriðunum sammála. Einn nefndarmaður, hv. 2. þm. Reykv. (MJ), hjelt þó fram nokkuð sjerstakri skoðun um ábyrgðina á bankanum. Hann hjelt fram sömu skoðun og formaður Íhaldsflokksins, núverandi hæstv. fjrh., að landið bæri ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans. Þessi eini maður tók sína sjerstöðu fram í nál. Annars varð þetta atriði ekki mikið deiluatriði í nefndinni, vegna þess að meiri hl. kom saman um að taka það fram, að bankinn væri eign þjóðarinnar og því rekinn á ábyrgð landsmanna. — Þessa ábyrgð landsins hugsaði meiri hl. milliþinganefndarinnar sjer að láta koma þannig fram, að ríkissjóður legði bankanum til alt stofnfje hans, og skyldi það skýrt tekið fram, að ef bankinn tapaði svo miklu fje, að til varasjóðs og stofnfjár þyrfti að taka, þá hjeldi landið þessum sjóðum í fullu gildi.

Um þetta er fordæmi til hjá Finnlendingum; þar er þjóðfjelagið skylt til að halda tryggum sjóðum Þjóðbankans. Þess vegna vita allir, sem við bankann skifta, að þeir geta verið öruggir um innstæður sínar, hvað sem fyrir kemur.

Hvað snertir ábyrgðina má segja, að það væri tæplega forsvaranlegt nema með landsábyrgð að leggja fje opinberra sjóða í bankann, og nefndinni fanst því rjettast, að stofnfjeð alt kæmi frá landinu sjálfu. — Skipulag það, sem meiri hl. valdi, var því á þá leið, að fjármálalega væri bankinn algerlega í ábyrgð ríkissjóðs.

Næsta meginbreyting nefndarinnar var sú, að ganga nokkur skref til móts við þá menn, sem óskuðu sjerstakrar seðlastofnunar, með því að hafa bankann í 3 aðgreindum deildum, seðladeild, sparisjóðsdeild og veðdeild. — En þó að bankinn eigi eftir áliti nefndarinnar að vera í aðgreindum deildum, eiga þær allar að vísu að vera undir sameiginlegri yfirstjórn, en hugmyndin er að reyna að gera eðlilega verkaskiftingu milli deildanna. Þetta fyrirkomulag er þrautreynt hjá Englandsbanka. Honum er skift í tvær deildir. önnur hefir eingöngu seðla til meðferðar, en hin skiftir við bankana og fær seðla hjá seðladeildinni. Að vísu er ekki hægt að líkja fullkomlega eftir þeim hjá okkur, en þó er hjer sú fyrirmynd, sem vel hefir gefist í Englandi.

Meiri hluti milliþinganefndarinnar hefir gert eina tillögu viðvíkjandi gullforðanum, sem stjórnin hefir ekki getað fallist á. Þetta hefir nokkra þýðingu, þó að það skifti ekki miklu máli. Þeirri reglu var fylgt alla 19. öldina og fram að stríði, að þjóðbankar ríkjanna voru skyldaðir til að innleysa seðla sína í sleginni gullmynt, en eftir stríðið, eftir að aðstaða bankanna var orðin svo breytt, að gullmynt var ekki lengur í umferð, þótti þægilegra að nota gullið aðeins sem verðmæli gagnvart erlendu fje. Þó er að vísu til nokkuð af sleginni gullmynt fyrir þá, sem óska þess, en annars er innlausnarskylda ekki framkvæmd öðruvísi en svo, að þeir, sem þurfa að fá mikla upphæð, fá gullstengur fyrir seðla. Þessi aðferð var ekki notuð í innanlandsviðskiftum, heldur eingöngu á milli ríkja. Þetta hefir það til síns ágætis, að ef um slíka skyldu væri að ræða hjer, mundi yfirleitt ekki vera gull í umferð, en ef af einhverjum ástæðum grunur fjelli á, að seðlar bankans væru að falla í verði, mundu kaupsýslumenn koma með seðla, fá sjer gullstykki og senda til útlanda. Þannig kemur í ljós, hvort lággengi er að koma á seðlana, svo að að því leyti er þetta trygging. Aftur á móti sparast myntsláttukostnaður á þennan hátt og sjeð er við því, að slitin eða gölluð mynt sje í umferð. Englendingar og Finnar hafa, eftir að þeir komu á hjá sjer innlausnarskyldu, hallast að gullstöngum, en ekki sleginni gullmynt. En stjórnin vill hafa gamla lagið, og það er ráðgert í þessu frv. Þetta er að vísu ekkert sjerstaklega mikilsvert atriði, en jeg vildi aðeins láta þess getið, hvað fyrir milliþinganefndinni vakti í samræmi við hinn nýja aldaranda, því að það eru allar líkur til þess, að sá tími komi ekki aftur, að gull verði í umferð eins og það var í Englandi fram að stríði.

Þá lagði meiri hluti milliþinganefndarinnar til, að ný ákvæði verði gerð um yfirstjórn bankans. Þar sem meiri hluti fjhn. hefir mjög veist að þeirri till., og sömuleiðis hv. 5. landsk., get jeg ekki komist hjá að skýra, hvað fyrir nefndinni vakti um þessi atriði. Þeir tveir nefndarmenn, sem mest höfðu kynt sjer fyrirkomulag Finnlandsbanka, Svíþjóðar og Noregs, Ásgeir Ásgeirsson alþm. og Sveinn Björnsson sendiherra, hneigðust helst að formi Svía, sem sje því, að bankinn standi beinlínis undir sterku aðhaldi þingsins. Þessu er ítarlega lýst í nál. milliþinganefndarinnar, en jeg ætla að leyfa mjer að fara um það fáeinum orðum.

Sænski ríkisbankinn er talinn elsti þjóðbankinn í Evrópu. Hann hefir frá byrjun verið beinlínis þjóðareign. Af hans löngu sögu er ekki hægt að sjá annað en að mjög vel geti farið á þessu og því, að bankanum sje stjórnað að nokkru leyti af stjórninni og að nokkru leyti af þinginu. Eftir því sem vald þingsins hefir vaxið í Svíþjóð, hefir og vald þess yfir bankanum vaxið. Bankanum er beinlínis stjórnað af þingnefnd. Fyrirkomulagið er þannig, að tvær deildir þingsins tilnefna eina stóra nefnd, — 24 menn úr hvorri deild —, og þetta er bankanefnd þingsins eða sá partur þess, sem fyrst og fremst stjórnar þjóðbankanum og hefir yfirumsjón með bankamálum landsins. Þessi nefnd er í aðalatriðunum sambærileg við aðalfund í fjelagi. Eins og aðalfundur í hverju fjelagi kýs stjórnina, þannig kýs þessi stóra, sænska bankanefnd bankaráðið, þannig að sumir nefndarmenn eru framkvæmdarstjórn bankans, en sumir bankaráðsmenn, sem hafa eftirlit með honum, það er að segja eftirlitsmenn. Það er því ekki hægt að segja annað en að ríkisbanka Svíþjóðar sje stjórnað af sænska þinginu, og það hefir gefist ágætlega. Meira að segja er komin á sú venja, að stjórn og þing skifta ekki svo mjög um menn þá, sem eru í framkvæmdarstjórninni, heldur helst það við, að það, sem ein stjórn hefir gert, lætur önnur stjórn standa óhaggað. Þetta kemur meðfram af því, að þingið hefir tekið hlutlaust á þessu máli og engir einstakir flokkar hafa lagt bankann sjerstaklega undir sig. Þegar þeir menn, sem vilja tortryggja þetta skipulag hjer, vitna í það, að eigi sje hægt að búast við, að svo muni einnig fara hjá okkur, skal jeg játa það, að ýmsir þeir atburðir hafa gerst í okkar bankasögu fyr og síðar, sem gera það að verkum, að ágreiningur gæti orðið, ef eftirlit með bankanum ætti að vera undir okkar þingi og stjórn. En mikið er undir þeim venjum komið; sem myndast, þegar bankinn tekur til starfa, um það, hvort það tekst að skapa slíkt fyrirkomulag, að sneitt verði fram hjá ýmsum annmörkum, sem við höfum átt við að búa.

Milliþinganefndin hefir lagt til ýmislegt, sem hæstv. stjórn hefir ekki virt að maklegleikum. Hún hefir lagt reynslu Svía til grundvallar og lagt til, að kosnar verði tvær bankanefndir, 15 manna nefnd og svo bankaráð, sem valið sje af þeirri nefnd. Hjer hafði jeg nokkra sjerstöðu. Jeg vildi ganga feti lengra en samnefndarmenn mínir og búa svo um, að siglt væri fram hjá því skeri, að skiftandi meiri hluti stjórnar og þings gæti eftir nýjar kosningar notið sín eins og flóð eða fjara í sjónum. Og sú leið, sem jeg benti þar á, stendur opin, ef ekki þykir gefast vel, að hver þingmeirihluti ráði bankanum.

Meiri hluti milliþinganefndarinnar hefir lagt til, að kosnir verði 15 menn til 6 ára, 5 í einu, þannig að skiftin verða smátt og smátt. Þessir menn þurfa ekki að vera búsettir í Reykjavík og eiga að koma saman einu sinni á ári og hafa á hendi nokkur þau störf, sem aðalfundur hefir, vera sem sje æðsta stjórn þjóðbankans. Hinsvegar á starf þeirra að vera á þann veg, að það sje framar öllu öðru heiðurs- og trúnaðarstarf, og því skal það vera ólaunað að öllu leyti nema ferðakostnaði. Jeg get ekki neitað, að mjer finst margt mæla með því, að þessir menn væru búsettir annaðhvort í Reykjavík eða þá svo nærri, að þeir gætu komið á fundi kostnaðarlaust, því að æskilegt væri, að þeir gætu komið saman oftar en einu sinni á ári. og auk þess mundi snarast ferðakostnaður. En þó að nefndin sje endurnýiuð þrisvar sinnum á hverjum 6 árum, er hún þó endurskin af meiri hluta þingsins. Þetta vildi jeg forðast. til þess að ná því, sem jeg held, að sje ekki hægt að ná á annan hátt.

Jeg lagði því til í nefndinni, að fyrst og fremst væru kosnir 12 menn af þinginu. Síðan væru kosnir 6 menn af hinum ýmsu atvinnufjelögum landsins, Búnaðarfjelaginu, Fiskifjelaginu, Kaupmannaráðinu, Sambandinu, Verkamannasambandinu og Fjelagi útgerðarmanna. Á þennan hátt hefðu atvinnuvegirnir á sínu valdi þriðjung af starfsafli nefndarinnar, og þess vegna mundi ekki geta myndast pólitískur meiri hluti, heldur yrði að vera samkomulag nefndarmanna þingflokkanna annars vegar og atvinnuveganna hins vegar um það, hvernig bankaráðið skuli skipað, því að jeg geri ráð fyrir, að stjórnin tilnefndi engan mann í bankaráðið, heldur nefndin alla. Jeg treysti því, að á þennan hátt væri unt að fá það logn í kringum bankann, og þó þann kunnugleika, sem æskilegt væri. Þrír nefndarmanna hölluðust nú að því að fylgja alveg sænska fordæminu og vilja láta þingið tilnefna alla nefndina, en hún velji svo 4 af 5 bankaráðsmönnum, en stjórnin 1. Því verður ekki neitað, að þannig verður altaf pólitískur meiri hluti í stjórn bankans. Það er ósennilegt annað en að stjórnarflokkurinn fengi tvo af hinum þingkosnu mönnum, en hinir flokkarnir tvo. Stjórnarflokkurinn mundi ráða formanninum, svo að líka yrði pólitískur meiri hluti í stjórn bankans. Þegar nú minni hluti yrði meiri hluti, er ekki ósennilegt, ef ekki er hlutlaust byrjað, að sá flokkur skifti um formann í bankaráðinu. Þessu hefir meiri hluti fjhn. ekki breytt, en jeg verð að segja, að jeg er enn sömu skoðunar og jeg var um það, að sú leið, sem fyrir mjer vakti, hefði verið nær því að tryggja hlutleysi í stjórn bankans en sú leið, sem nú á að fara.

Eina breytingu gerði milliþinganefndin enn, sem mætti mótstöðu hjá meiri hluta fjhn. og hv. 5. landsk., sem sje það, að hafa aðalbankastjóra með meira valdi en hinir bankastjórarnir hafa. Þetta er líka lánað frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi, en í Danmörku eru allir bankastjórarnir jafnir að völdum. Það vildi svo til, þegar við vorum að fjalla um þetta í nefndinni, að 2 þjóðbankastjórar í Danmörku höfðu lent í ritdeilum um fjárhagsmál. Þetta var álitið illa viðeigandi, og leiddi auðvitað af því, að enginn húsbóndi var á heimilinu. Jeg hafði sjerstöðu um þetta atriði. Jeg fjelst á, að það væri til bóta að hafa aðalbankastjóra, eins og formann í ráðuneyti, þar sem einn maður er fundarstjóri og vel það, en mjer fanst óhugsandi, að þessi breyting kæmi til framkvæmda þannig, að gert yrði upp á milli þeirra, sem nú starfa í Landsbankanum. Mín tillaga er sú, að ákvæði um aðalbankastjóra komi ekki til greina fyr en tveir af Landsbankastjórunum hafa látið af stjórn, og yrði þá sá þriðji aðalbankastjóri í þeirri stjórn, sem við tæki. Þannig gæti myndast „tradition“ um, hvernig ætti að skifta þessum störfum.

Ennfremur hugsar milliþinganefndin sjer, að bankaráðið skuli hafa önnur vinnubrögð en gerast í því eina bankaráði, sem hjer er, bankaráði Íslandsbanka. Þetta er enn fordæmi Svía. Nefndin gerir ráð fyrir, að formaður bankaráðsins hafi meiri völd en hinir bankaráðsmennirnir, komi daglega í bankann, fylgist með öllu þar og geti jafnvel skorið úr, þegar bankastjórarnir sjálfir kæmu sjer ekki saman. Þannig væru tveir yfirmenn í þjóðbankanum, yfirbankastjóri og yfirbankaráðsmaður. Þeir hefðu meiri laun, meiri vinnu og meiri ábyrgð en hinir. Mjer virðist sumt mæla með þessu og sumt móti. En hvað sem því líður, hefir þetta skipulag stuðning í ágætri reynslu Svía, Finna og Norðmanna.

Í Noregi er nú yfirbankastjóri, sem heitir N. Rygg, er nýtur ákaflega mikils trausts hjá mörgum mönnum í Noregi, því að hann er djarfur maður og úrskurðarmikill í málum og ber ægishjálm yfir alla bankastjóra þar í landi. Það var tilætlunin að reyna að skapa nokkuð svipaða aðstöðu hjer, en hv. 5. landsk. lagðist á móti því, en jeg ætla að geyma mjer til síðara tækifæris að svara ástæðum hans.

Ennfremur gerði milliþinganefndin ráð fyrir því, að þetta nýja bankaráð væri ekkert tildursbankaráð, eins og verið hefir við Íslandsbanka og er enn þann dag í dag. Þetta hefir nokkuð verið dregið í efa, sjerstaklega af hv. 1. þm. G.-K., sem er að vísu samþykkur þeirri hugsun milliþinganefndarinnar, að bankaráðið eigi að starfa töluvert, en vill aðeins láta það hafa meira starf. Jeg verð að játa, að jeg hefi töluverða samúð með þessum tillögum hv. frsm. meiri hl., þó að okkur greini nokkuð á um formið; jeg játa sem sje, að það sje full ástæða til, að lögð sje áhersla á í framtíðinni, að bankaráðið, sem hjer starfar, veiti honum nokkurt aðhald og fylgist vel með í málunum. Jeg vil, til þess að sanna það, að fyrir okkur hafi vakað nokkuð í þessa átt, benda á það, að í Íslandsbanka var fyrst ætlast til þess, að 3 af 7 bankaráðsmönnum væru búsettir utanlands. Af Íslendingunum voru stundum allir nema einn búsettir úti á landi og komu hingað aldrei nema um þingtímann, þegar þeir undirskrifuðu bankareikninginn. Þessi tegund bankaráðs hefir hjer á landi komið miklu óorði á bankaráðsnafnið, vegna þess að þessi bankaráð hafa aðeins verið bitlingar handa einstökum mönnum.

Við gerðum ráð fyrir, að formaður bankaráðsins mætti daglega á fundum í bankanum og að bankaráðið hjeldi fundi á hálfsmánaðar fresti, og svo kæmi það auk þess saman eftir þörfum. Það er þess vegna bitamunur, en ekki fjár, á tillögum milliþinganefndar og hv. 1. þm. G.-K. En jeg verð að játa, að jeg gæti hugsað mjer, að með einum eða öðrum hætti væri hert meira á vinnuskyldu bankaráðsins heldur en með frv. því, sem hjer liggur fyrir. En áður en jeg skil við þetta mál nú, get jeg ekki komist hjá því að leggja eina röksemd inn fyrir landsbankanefndinni stóru, 15 mönnum, eða hvað þeir ættu að vera, vegna þess að meiri hl. fjhn. hefir lagt mikla áherslu á að fella hana niður, og leiða þá nokkur rök að því, hvern kost jeg sje við það, að hún sje til.

Fyrsta röksemdin er það, að þegar kosning bankaráðs er lögð á vald hennar, þá muni það draga úr bitlingastríði þingsins. Undir mjög mörgun. kringumstæðum myndu þarna verða margir utanþingsmenn, og þá valdir til þess menn, sem á einn eða annan hátt hefðu áhuga fyrir fjármálum og hefðu sýnt það í verki. Jeg tel það líka mikinn kost fyrir Landsbankann að hafa þennan stuðning, og jeg segi það líka, og það er einnig tekið fram í frv., að það er alveg sama, hvort það eru þingmenn eða ekki, en við hugsuðum samt í milliþinganefndinni, að það yrðu máske engu síður utanþingsmenn, og álitum það engin spjöll. Hinsvegar álít jeg það spjöll á trausti þingsins, ef það er beinlínis tekið fram, eins og hv. meiri hl. gerir, að það skyldu aðeins vera utanþingsmenn, enda verður þingið þó altaf aðalhúsbóndi bankans, en í viðbót við það tel jeg, að þá muni skapast meira logn utan um bankaráðið, og þar við bætist það, sem jeg legg mikla áherslu á, að jeg tel bankanum þetta til styrktar, og vil jeg því nefna þetta, þar sem jeg veit, að sjerstaklega muni háttv. frsm. meiri hl., með sinni löngu þingreynslu, kunna að meta það og muna, að það hefir þrásinnis komið fyrir, að Landsbankann hafi vantað stuðning, bæði hjá þingi og þjóð. Hann hefir verið eins og „þöll, sús stendur þorpi á“, sem kaldur og fjandsamlegur vindur næðir um.

Vil jeg þá fyrst nefna það, þegar meiri hluti þings var um aldamótin haldinn af þeirri fáránlegu villu að vilja leggja banka þjóðarinnar niður og selja peningamál landsins í hendur útlendu gróðafjelagi. Þessu var að vísu afstýrt, en það er sennilegt, að það verði aldrei fullþakkað þeim manni, sem þá hafði ráðið mestu á Íslandi um 20 ára skeið, Magnúsi Stephensen landshöfðingja, sem á þessu úrslitaaugnabliki greip inn í og bjargaði Landsbankanum og hindraði framkvæmdir þeirra skammsýnu manna, sem vildu vinna svo mikið fyrir þau hlunnindi að fá nokkuð af nýju fjármagni inn í landið, að drepa banka þjóðarinnar og leggja fjármálin í hendur ábyrgðarlausra útlendinga.

Jeg vil halda því fram, að ef 15 merkir menn úr Reykjavík og nágrenni hennar hefðu staðið í skjaldborg utan um bankann, þá hefði enginn maður vogað sjer þá fásinnu, sem helmingur þingsins um aldamótin ráðgerði, og það kom aðeins til af því, að bankinn stóð, skipulagslega sjeð, höllum fæti, átti fáa formælendur og það hafði ekki skapast utan um hann það skjól af stuðningsmönnum, sem hjer er ætlast til, að myndist, og mjer finst, að það sje nokkuð öðruvísi en ætti að vera, að hv. frsm. meiri hl., sem er gamall bankastjóri Landsbankans, og sem sjálfur, á meðan hann var þar bankastjóri, varð að kenna á þessu skjólleysi, skuli leggja á móti því, að Landsbankinn fái þessa aðstöðu gagnvart þingi og stjórn, sem jeg tel, að hann hafi altaf vantað. Jeg tel, að þetta dæmi frá aldamótunum eigi að vega nokkuð þungt á metunum, og jeg vil líka minna hv. þm. á það, að jeg held, að alla hans bankastjóratíð hafi hann átt í þrálátri baráttu bæði sem bankastjóri og þingmaður fyrir hag bankans, og jeg hygg, að hv. þm. (BK) muni ekki neita því, að Landsbankinn hafi altaf verið olnbogabarnið, og gagnið, sem Íslandsbanki hafði af sínu ljelega bankaráði sem bakhjarli, var það, að í því voru altaf nokkrir þingmenn, sem töldu það skyldu sína að standa með bankanum; og þó að bankaráðið gerði honum ekki það gagn, sem gott bankaráð hefði átt að gera, þá gerði það honum samt mikið gagn í kappleiknum við Landsbankann.

Nú geri jeg ráð fyrir því, að fyrst og fremst verði hjer Landsbanki Íslands, svo Íslandsbanki og síðan komi hjer nýir bankar, eins og hjer er viðbúnaður með, en þá verða menn að hafa það hugfast, að það á aldrei að geta orðið nein barátta á milli þjóðbankans og hinna bankanna. Hann á að vera hafinn upp yfir það, því að það á að geta orðið svo um hann, eins og svo fagurlega hefir verið sagt um Eimskipafjelag Íslands, að hann á að verða fjöregg þjóðarinnar, og það er von mín, að hann vinni svo traust hennar, að það geti aldrei framar borið á neinu líku því, sem nærri lá, að gerðist hjer í byrjun 20. aldarinnar, þegar átti að drepa Landsbankann með samþykki þingsins.

Það hefir verið sagt af manni, sem vel er kunnugur hjer í bænum, að það sje aldrei svo aumur þjónn hjá Íslandsbanka, að hver og einn þessara starfsmanna hafi ekki staðið örugglega á verði fyrir hag bankans, þar sem hann gat komið því við. Ef þetta er rjett skoðun, eins og jeg held, þá sýnir hún ekki annað en það, hve fljótt menn fara að elska þá stofnun, sem þeir vinna fyrir, og þá held jeg, að það verði líka skiljanlegt, hvers vegna við, sem vildum gera Landsbankann að fjöreggi þjóðarinnar, vildum með stórri landsbankanefnd skapa um hann öflugan skjólgarð, ekki með fjemútum, heldur með kunnugleika og þekkingu á starfsemi hans. Hinsvegar á sjálft bankaráðið að vera þjóðinni trygging fyrir því, að vel sje farið með valdið yfir bankanum, og á þann hátt tryggjum við, að sje sæmilega sjeð bæði fyrir starfsmöguleikum bankans og eins fyrir því, að nauðsynlegt aðhald sje að honum, sem þjóðin á heimtingu á, að haft sje að þessari mikilsverðu fjármálastofnun.

Ef þurfa þætti frekari sönnun en jeg hefi hjer komið fram með fyrir því, að það geti verið full þörf á slíkum skjólgarði utan um bankann, þá þarf ekki að nefna annað en það, að eftir að þetta álit okkar í fjhn. er komið út, þá hefir maður nokkur hjer í bænum, sem eitthvað hefir verið riðinn við að reyna að nota þá heimild, sem síðasta Alþingi veitti til þess að stofna hjer nýjan banka, skrifað allítarlega grein til þess að hnekkja þeirri skoðun Ólafs prófessors Lárussonar, sem nefndin studdist við, að Landsbankinn hlyti í framkvæmdinni að skoðast sem rekinn á alþjóðarábyrgð, og það er enginn vafi á því, að þetta innlegg til þess að sanna það, að Landsbankinn eigi ekki að lögum og rjetti að skoðast sem rekinn á almenningsábyrgð, stendur í sambandi við tilraun, sem hefir verið gerð hjer í bænum til þess að stofna nýjan banka. Jeg álít sjálfsagt, að það sje rjett, en það sýnir einmitt, hve mikil nauðsyn er samt til þess, þegar hjer fara að skapast nýir bankar með sjerhagsmunum, að þá sje svo um búið af þjóðbankans hálfu, að áhugamál og hagir þessara minni banka geti ekki gripið inn í starfsemi hans.

Nú hefir þessi þekti vísindamaður, Ólafur prófessor Lárusson, komið með nokkuð þunga röksemd fyrir því, að bankinn, ef litið er á skyldu þjóðfjelagsins við sjálft sig, hlýtur að skoðast sem rekinn á þjóðarábyrgð. Af þessu leiðir það, að bankinn hlýtur að njóta meira trausts hjá almenningi, og þá býst jeg við, að tilvonandi nýr banki hafi erfiðari aðstöðu til að koma fram hagsmunum sínum.

Nú má ekki skilja orð mín svo, að jeg álíti, að aðrir bankar eigi ekki að hafa fullkomin lífsskilyrði og vaxtarmöguleika í landinu, en jeg álít, að það eigi í eitt skifti fyrir öll að vera ákveðið, að sjerhagsmunir annara banka eigi ekki að ráða, og þjóðin eigi að hlúa svo að sínum banka eins og sæmd hennar býður henni, en að öðrum bönkum sje leyft að starfa á sæmilegum grundvelli, eins og þeir hafa afl og magn til, en að þeim megi aldrei líðast það að fara að nálgast þjóðbankann, þannig að sjerhagsmunir annara banka skyggi á hann.

Jeg get verið mjög stuttorður um þær brtt., sem jeg hefi sjálfur flutt hjer, því að jeg mun víkja að þeim í sambandi við það, þegar jeg svara öðrum hv. deildarmönnum. En jeg vil samt minnast á 2. brtt. Þar er prentvilla; brtt. er ekki við 30. gr., heldur við 29. gr. Hún lýtur að því, að helmingur verðbrjefaeignar bankans skuli vera í jarðræktarbrjefum. Það er sem sje álitið, að það eigi að vera ákaflega trygt fyrir bankann og líka nokkur stuðningur fyrir jarðræktina í landinu, en þar sem skeð getur, að jeg taki hana aftur til 3. umr., þá sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um hana að þessu sinni.

Fyrstu brtt. mína, við 15. gr., er víst öll nefndin sammála um, að fella síðari málsgreinina niður, svo að jeg skal ekki víkja frekar að þeirri brtt. að sinni.

Við 35. gr. hefi jeg gert þá brtt., að formaður bankaráðsins sje ekki skipaður til 5 ára í senn, heldur aðeins til tveggja. Jeg lít nefnilega svo á, að á meðan verið er að fá reynslu í þessu efni sje gott fyrir hvaða stjórn sem er, að hún viti, að það standi ekki lengur það umboð, sem þessi maður hefir; jeg álít sem sje, að ef það sje haft til langs tíma, þá geti auðveldlega farið svo, ef harðsnúin flokksstjórn sæti að völdum, að hún hugsaði sjer að komast yfir eitt kjörtímabil með stjórn bankans, og jeg vildi þess vegna helst, að engin landsstjórn tilnefndi oddamanninn, heldur atvinnuvegirnir, og þá er það líka skiljanlegt, hvers vegna jeg legg áherslu á það, að á meðan verið er að safna reynslu, að það geti verið logn um bankann og að þessi maður verði ekki skipaður til langs tíma.

Fjórða brtt. mín lýtur að því að upphefja vald landsstjórnarinnar til að víkja bankastjórum frá, en það lýtur líka að því, að jeg vildi ekki, að landsstjórnin, heldur bankaráðið, færi með valdið yfir bankanum.

Um 5. brtt. mína get jeg verið stuttorður. Hún lýtur að því, að allir opinberir sjóðir, nema þeir, sem hafa öðruvísi ákveðið í stofnskrám eða skipulagsskrám, skuli geyma handbært fje sitt hjá þjóðbankanum. Þetta tel jeg vera alveg sjálfsagt, enda var þetta samþykt á Alþingi fyrir nokkrum árum, og Landsbankinn nýtur nú þeirra hlunninda, og þrátt fyrir það þótt hæstv. stjórn tæki þetta ákvæði ekki upp í frv. í fyrra, þá setti hv. Nd. það inn, svo að jeg tel hæstv. stjórn ásökunarverða fyrir að hafa verið að reyna til að fella það úr frv.

Sjötta brtt. mín lýtur að því, að jeg álít það eðlilegt, að Landsbankinn, með þeim stóra sparisjóði, sem hann hefir, fari sem fyrst að safna að sjer þeim verðbrjefum, sem hann á að hafa til tryggingar, og jeg sje ekki ástæðu til annars en að það gerist mjög fljótt.

Sjöunda brtt. lýtur að því, sem jeg hefi áður sagt, að mjer geðjast ekki að því, að verið sje að gera upp á milli bankastjóranna, með því að taka einn þeirra fram yfir hina. Jeg álít, að það geti haft óþægileg áhrif á sambúðina í bankanum, og vil þess vegna ekki, að aðalbankastjóra skuli ráða, fyr en tvö sæti hafa losnað í bankastjórninni.

Að síðustu legg jeg það til, að fyrri hluti 68. greinar, um endurkaupaskyldu bankans af Íslandsbanka, falli alveg niður. Jeg er búinn að skýra frá því, hvernig þetta ákvæði komst inn, bæði í frv. 1924 og svo hvernig það fjell úr fyrsta frv. núverandi landsstjórnar. Þegar við sátum í milliþinganefndinni, munu hafa komið tilmæli til núverandi landsstjórnar frá bankastjórn Íslandsbanka, um að bankinn legði mikla áherslu á að fá þessi sjerrjettindi, og það varð til þess, að meiri hluti meiri hlutans í nefndinni lagði til, að Íslandsbanki skyldi fá þessi hlunnindi sjer til viðreisnar. Jeg var eindregið á móti þessu í nefndinni, af því að mjer finst það ekki rjett að fara að gefa Íslandsbanka seðlaútgáfurjettinn í nýrri mynd, eftir að hann er búinn að tapa honum. En jeg skal játa, að það er fyrst eftir rannsókn okkar í fjhn. um það, hvernig þetta ákvæði komst inn í frv., að jeg er orðinn algerlega mótfallinn þessu ákvæði. Mjer finst nefnilega, hvort sem tekin er sú till., sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) kom með í fyrra í Nd., um að þessi skylda ætti að vara í 20 ár, eða hvort það á að vera 10 ár, eins og stjórnin vill, þá er þetta mjög óheppilegt, því að það er brot á móti því, sem ætlast er til í lögunum, að Landsbankinn geti orðið húsbóndinn á fjármálaheimili Íslendinga. Endurkaupaskyldan mundi leiða til þess, þó að ekki eigi að kaupa nema góða víxla af Íslandsbanka, þá yrði samt reglan sú, að þjóðbankinn mundi kaupa víxla fyrir alla þessa upphæð. Á þennan hátt mundi Íslandsbanki hafa einskonar seðlaútgáfu í 10–20 ár eftir að sjerrjettindi hans eru fallin. Þetta verð jeg að telja órjett, en hallast að því, eins og auðvitað leiðir af eðli málsins, að Landsbankinn kaupi af Íslandsbanka og öðrum viðskiftavíxla, ef þeir eru góðir og gildir. En það á ekki að skylda hann til þess að kaupa alla víxla og halda þannig við sjúkri seðlaútgáfu, sem verið hefir böl landsins um langt skeið. Stjórnin hefir lagt þetta til, af því að hún hefir álitið nauðsynlegt, að Íslandsbanki fengi notið einhverra hlunninda. En það skiftir þó mestu máli hjer, að seðlaútgáfunni sje skipað eins og best hentar fyrir landið. Jeg er frekar hlyntur því, að landið hjálpaði beinlínis Íslandsbanka fremur en að veita honum seðlaútgáfu í næstu 25 ár.

Jeg hefi nú, eftir því sem jeg hefi getað, gert grein fyrir því, hver rök liggja til þeirra nýjunga, sem milliþinganefndin hefir lagt til viðvíkjandi Landsbankanum. Jeg held líka, að jeg hafi fært gild rök fyrir því, að litlar líkur sjeu til þess, að Alþingi bæti sig á því að breyta þeim skipulagsgrundvelli.