23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir að mestu tekið fram það, sem jeg hafði að svara ræðum þeirra háttv. þdm., er töluðu um málið í gær; en út af því, sem hann sagði um afstöðu sína til frv., ef brtt. nefndarinnar yrði ekki samþykt, þá vil jeg aðeins geta þess, að hann hefir aldrei um það talað á fundum nefndarinnar.

Jeg get ekki skilið þá fullyrðingu hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að meiri sýkingarhætta stafi af innflutningi erlendra vinnuhjúa, þótt till. okkar væri samþykt, en ef bændur ættu að sækja um undanþágu til innflutnings þessara erlendu hjúa í hvert sinn. Jeg tók það þegar fram viðvíkjandi þessari brtt í framsöguræðu minni, að jeg teldi sjálfsagt, að settar yrðu annaðhvort í reglugerð eða lög fastákveðnar reglur, sem gilda um það fólk, sem flyst sem vinnuhjú hingað, og að í þeim reglum eða lögum væri fyrir það girt, að viðkomandi hjú gætu flutt þessa gin- og klaufaveiki, sem fullkomin ástæða er til að gjalda allan varhuga við. Jeg gat þess einnig þá, að þetta er hægt eftir lögum frá 1920, um eftirlit með útlendingum, og vil benda á 2. gr., sem er mjög svo hægt að byggja á reglugerð, er hafi að geyma ákvæði um þetta. Nú kom þar að auki fram frv. í þessari hv. deild í dag, sem alveg er einhlítt til þess, að varúðar verði gætt viðvíkjandi þessari hættu, ef að lögum verður. (TrÞ: Ætlar hv. frsm. að styðja það frv.?). Jeg sagði bara, ef að lögum verður.

Jeg vil benda hv. 2. þm. Eyf. (BSt) á það, að það er ekki nokkur ástæða til að ætla, að það sje betra að fá undanþágu fyrir hvern einstakan heldur en ef ákveðin lög eru sett gagnvart öllum einstaklingum, sem flytja hingað. Annars fanst mjer á hv. þm., að hann teldi 4. gr. nógu rúma til þess að bændur gætu fengið þessa innflutningsheimild. En þá var einmitt á honum að skilja, að hann væri því hlyntur.

Sjerstaka áherslu vil jeg leggja á það gagnvart því, sem þessi hv. þm. sagði, að við höfum ekki betur girt fyrir það, að hætta geti stafað af þessum mönnum með því að fá heimild í hvert skifti, heldur en ef reglur gilda í lögum eða reglugerð um hvern einstakling, sem vera skal.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) svaraði hv. þm. Str. (TrÞ), svo að jeg þarf lítið að segja við hann. Annars þótti mjer það einkennilegt mjög af hv. þm. að lýsa beint yfir því hjer í hv. deild, að hann væri mjög efablandinn um, hvort hann fylgdi málinu, af því að það væri komið úr þessari átt, þótt hann teldi málefnið gott. Reyndar kom mjer þetta ekki alveg á óvart; það hefir áður hent þennan hv. þm. að fara nokkuð eftir því, hverjir bera málefnin fram. Þannig var það 1925, þegar hann var á móti skipun milliþinganefndar fyrir sveitarstjórnarmál. Hann lýsti því yfir, að hann ætlaði að greiða atkvæði með málinu, en ef það ætti að skoðast sem traust til stjórnarinnar að vísa málinu til hennar, þá fjelli hann frá að fylgja málinu eftir sannfæringu sinni. (TrÞ: Það var dagskráin, sem byrjaði: „í trausti þess“). Það mátti þegar heyra á orðum, sem fjellu frá hv. 1. þm. N.-M., að hv. þm. Str. skifti þarna um skoðun.

Það er sannast að segja hart, að sjávarútvegsmenn eigi ekki og megi naumast hugsa jafnt um landbúnaðinn eins og sjávarútveginn, þegar svo ber undir. Jeg veit, að háttv. þm. er síst meiri sveitamaður en sumir, sem sitja í sjútvn., sem vitanlega eru uppaldir í sveit frá barnæsku.

Í dag kom fram þskj. frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV); jeg býst við, að hv. þm. hiki ekki við að skipa sjer undir merki þess máls og kannske verður hann merkisberi. Það er vantraust á núverandi stjórn. par er málið sjálfsagt komið úr rjettri átt.