23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Ólafur Thors:

Vegna þess, hvað miklar umræður þessi brtt. hefir vakið, sem við meiri hl. sjútvn. fylgjum, þá finst mjer rjett að láta í ljós, hvað fyrir mjer vakti, þegar jeg ákvað að gerast meðflm. Það var nákvæmlega það, sem hæstv. atvrh. (MG) gat upp á í ræðu sinni hjer í gær, — nefnilega, að jeg óskaði eftir að spara þeim mönnum fyrirhöfn, sem teldu sjer hlunnindi að fá erlend hjú til sveitavinnu. Jeg get þeim mun fremur um þetta, þar sem jeg veit, að aðrir hv. nefndarmenn, eins og hv. 1. þm. S.M. (SvÓ), leggja meira upp úr þessu atriði en jeg.

Jeg játa fyllilega, að samkvæmt óbreyttum ákvæðum laganna er fyrir hendi heimild fyrir atvrh. til að veita sveitabændum leyfi til að ráða sjer erlend hjú. En jeg fyrir mitt leyti óska rýmkunar, svo að aðgangur að slíkri ráðningu verði fyrirhafnarminni og víðari. Jeg álít, að þeir, sem mest tala um hættu, er af þessu stafi, fari með mestu öfgar. Enda er á hverjum tíma á valdi þingsins að breyta þessum lögum og öðrum, ef einhver ný hætta kæmi á daginn.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja um till., sem þeir sjútvn.-menn flytja, sem ekki geta aðhylst frv. með þeim breytingum, sem meiri hl. gerði.

En jeg vildi gjarnan, úr því að jeg er staðinn upp, nota tækifærið til að láta í ljós þá skoðun mína, að það er með öllu óviðeigandi, þegar hv. deildarmenn rísa upp með flysjungshætti, eins og í gær hv. þm. Str. (TrÞ) — sem jeg, því miður, sje ekki hjer í bili — og halda fram, að það sjeu einhver viðundur, þegar sjútvn. flytur einhverjar lagabreytingar, sem snerta landbúnaðinn. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt að halda slíku fram, og gæti ekki rökstuðst með neinu, nema að þeir menn, sem á hverjum tíma eiga sæti í nefndinni, sjeu alls ófærir að dæma um alt, er snertir landbúnað.

Jeg skal ekki orðlengja um mína þekkingu á landbúnaðarsviðinu; hún er frekar lítil, og vil jeg leggja hana á borð við þekkingu hv. þm. Str. (TrÞ). Það stendur líkt á um okkur, báðir erum við aldir upp á mölinni, feður okkar bjuggu og voru taldir góðir búmenn, en sjálfir höfum við engin afrek unnið á því sviði. Jeg held því, að vel megi leggja okkur að jöfnu. En það er um hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) að segja, að hann stendur okkur miklu framar, og þó vil jeg helst tilnefna háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem mun vera einn elsti bóndi á landinu. Jeg held hv. þm. Str. (TrÞ) þurfi ekki að láta dólgslega af því að við fylgjum hv. 1. þm. S.-M. að málum um brtt., sem varðar landbúnaðinn. Jeg held hv. 1. þm. S.-M. geti talist fullgildur foringi á þessu sviði og okkur muni vera óhætt að marka hans þekkingu á þeim málum, að minsta kosti að hann leiði okkur ekki í neinar ógöngur, — að svo miklu leyti sem menn álíta, að við þurfum þeirrar handleiðslu við.

Mjer þykir leitt, að hv. þm. Str. (TrÞ) hefir ekki getað heyrt þessa ádrepu, sem jeg hefi ætlað honum í góðum skilningi og mun endurtaka þegar hann má heyra mál mitt. Jeg mun segja honum, að ef hann óttast, að gin- og klaufaveikin berist til landsins vegna þessa innflutnings á vinnuhjúum, þá ætti hann að beita sjer með festu gegn því, að frv. um járnbrautarlagningu og stóriðju nái framgangi. Jeg geri ráð fyrir, að af innflutningi verkafólks, sem óhjákvæmilega verður í sambandi við þær framkvæmdir, gæti landbúnaðinum stafað miklu meiri hætta en af gin- og klaufaveikinni. Jeg veit, að þeir tvímenna þar á velviljanum til landbúnaðarins, hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 1. þm. Rang. (KlJ), sem berst fyrir frv. Þessi stóriðja verður náttúrlega frá þeirra sjónarmiði til þess eins að efla landbúnaðinn í landinu. Og af því að jeg veit, að hv. þm. ber hann mjög fyrir brjósti, og jeg hefi sjeð skelfinguna, sem hann fyllist, þegar rætt er um að flytja inn erlend vinnuhjú — því að jeg held hreint hann sjái pilt og stúlku koma gangandi með gin- og klaufaveikina — þá vil jeg minna hann á þessa verkamenn, sem hann mun berjast fyrir, að hingað verði fluttir.