13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

20. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. (Magnús Jónsson):

Mál þetta hefir fengið svo rækilegan undirbúning, að ekki þyrfti nema góðan vilja til þess að það fengi að sigla beggja skauta byr í gegnum þingið. Það kemur fyrst fram frv. um málið á þingi 1924, þá samið af stjórn Landsbankans og flutt af fjhn. Ed., eftir ósk stjórnarinnar. Því næst var málið undirbúið af stjórninni, er leitaði álits sjerfræðings í Danmörku og álits Jóns Krabbe um það, og var það þá lagt fyrir Ed. og fjekk þar rækilega meðferð. Þá var milliþinganefnd skipuð í málið, og leitaði hún um það álits allra þjóðbankastjóra Norðurlanda og fjekk umsögn þeirra. Gaf nefndin síðan út mikið nál., og lagði svo stjórnin málið fyrir Nd. í fyrra. Nú hefir hæstv. landsstjórn undirbúið málið enn og lagt það fyrir hv. Ed., og hafa þar um það verið skrifuð ekki minna en 3 nál., og hefir málið verið athugað og rætt þar meiri hl. þingtímans og gerðar margar brtt. við frv. Auk þess má geta þess, að málið hefir ekki fengið einhliða meðferð, heldur verið rætt og rannsakað frá ýmsum hliðum, og má sjá það á því, að 1924 er stungið upp á annari leið um seðlaútgáfuna en nú er lagt til af hendi stjórnarinnar, og milliþinganefndin klofnaði um málið, og enn hefir málið fengið meðferð frá annari hlið. Er því hætt við, að Alþingi bæti sig ekki mikið á málinu úr því sem komið er. Er það auðvitað, að hversu lengi sem þingið hefir mál sem þetta til meðferðar, þá verður það aldrei afgreitt svo öllum líki.

Í nál. fjhn. er gerð grein fyrir helstu brtt., sem samþ. voru í hv. Ed., og geri jeg ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynt sjer nál., svo óþarfi sje að rifja það upp. Fjhn. hefir komið fram með allmargar brtt. við frv., en það má segja um þær allar, að þær sjeu smáar, sumar aðeins orðabreytingar og aðrar smáar efnisbreytingar, svo að ólíklegt er, að þeir, sem gátu felt sig við frv. eins og það kom til þessarar hv. deildar, geti ekki eins greitt frv. atkvæði sitt, enda þótt brtt. yrðu samþyktar.

Jeg vil þá aðeins fara nokkrum orðum um brtt. og skal jeg ekki gefa tilefni til langrar umræðu. Það er þá fyrst að geta þess, að það hafa slæðst tvær prentvillur inn í brtt., sem hvorug mun valda misskilningi; er það í 10. brtt. a, þó gefur í stað getur, og í sömu brtt. b, — þar hafa gæsalappir fallið niður. Geta hv. þm. lesið það í málið.

Fyrstu 3 brtt. og b-liður 5. brtt. eiga allar við hið sama, sem sje, að í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir því, að útibú sjeu bæði frá seðlabankanum og sparisjóðsdeildinni. En meiri hluti nefndarinnar taldi þetta óþarfa, þar sem hann álítur, að seðlabankinn þurfi ekki á útibúum að halda. Vildi hann því taka útibúin út úr kaflanum um seðlabankann og láta þau fylgja ákvæðunum um sparisjóðsdeildina. Er vitanlega mikið til í þessu. En einn hv. nefndarmaður taldi rjett að láta ákvæðin halda sjer, taldi þau saklaus. En þá þurfa að koma bráðabirgðaákvæði um það, hverjir ráða skuli, hvaða útibú fylgi hvorri deild bankans um sig.

2. brtt. a-liður er aðeins orðabreyting.

2. brtt. b-liður er efnisbreyting í þá átt að færa hlutfallið fyrir gulltryggingunni úr 40% í Milliþinganefndin lagði til. að hlutfallið yrði ákveðið 1/3 og erlendu bankastjórarnir töldu það hæfilegt. Það má auðvitað segja, að gott sje, að seðlarnir sjeu sem best trygðir, en það eru þó tvær hliðar á því máli. Það kostar altaf mikið, ef tryggingin er óþarflega há. Ef hægt er að hafa trygginguna sjerstaklega háa án kostnaðar, þá er það ekki nema sjálfsagt, en því fylgir jafnan kostnaður — óþarfakostnaður — að setja trygginguna hlutfallslega hærri en þörf er á. Hlutfallið er vitanlega altaf álitamál, en yfirleitt eru menn að hverfa frá gömlu oftrúnni á að hafa trygginguna sem hæsta. Það er alt annað, sem tryggir seðlana, en sem mestur gullforði. Það er stefna bankastjórnarinnar, sem veldur því, hvort seðlarnir álítast tryggir eða ekki. Það er forvaxtastefnan og útlánsstarfsemi bankans, sem er trygging seðlanna engu síður en gullforðinn. Það má segja eins og sagt er í nál. hv. Ed., að það er gott að hafa gull, þegar ekki annað er gjaldgengt en gull utan landssteinanna. En ef allar lindir ættu að stöðvast nema gulllind bankans, þá er hætt við, að hana þrjóti fljótt. Enda er ómögulegt að hugsa sjer þá atburði, að ekkert gildi utan landsteinanna nema gull. Það eru afurðir landsins og framleiðsla, sem landsmenn verða að treysta á. Ef það þrýtur, þá duga skamt 2–3 miljónir gulls til innkaupa, enda stæðu þá seðlarnir ótrygðir eftir, eða yrðu að dragast inn í skyndi, sem óhugsandi er. Hvort sem tryggingin er 3/8 eða 40%, þá er það svo lítil upphæð, að hún mundi ekki nægja fyrir landið nema í 2–3 vikur fyrir vistir. Um tryggingarhlutfall Frakklandsbanka eru engin ákvæði í lögum, en stjórn bankans hefir sjeð um, að seðlarnir eru vel trygðir. Það er algerlega í þágu bankans, að seðlarnir sjeu vel trygðir, og er því engin hætta á, að bankastjórnin sjái ekki um það, að gulltryggingin sje næg. Nefndin hefir nú ekki viljað halda til streitu hlutfallinu 1/3, en stingur upp á til samkomulags 3/8 Það er það tryggingarhlutfall, sem Íslandsbanka var ákveðið, og svo var það í bankafrv. 1924 og 1925. Ed. hefir felt niður síðari hluta greinarinnar, um að gulltrygginguna skyldi hækka eftir því, sem seðlaútgáfan færi vaxandi. Var það sett í frv. sem verulegur hemill á of mikilli seðlaútgáfu. En nú hefir hv. Ed. felt það í burtu með þeim forsendum, að hvergi í lögum um seðlabanka, nema á Spáni, sje um slíkt ákvæði að ræða. Mjer er samt kunnugt um það, að þetta mun þó gilda um flesta seðlabanka, að minsta kosti í nágrannalöndum vorum, enda þó reglan sje ekki beint orðuð í lögum. Þeir hafa sem sje leyfi til þess að gefa út ákveðna upphæð seðla fram yfir gullforða, en þá hækkar tryggingarhlutfallið að sama skapi sem seðlaveltan eykst. Er það sama hugsun, sem liggur til grundvallar ákvæði stjfrv. Jeg get játað, að mjer virðist lakara, að þetta var felt í burtu í hv. Ed. En mjer skilst, að hjer sem annarsstaðar verði seðlabankastjórnin að hafa höfuðið á rjettum stað í stjórn sinni á bankanum, því erfitt er að girða fyrir þetta með lagafyrirmæli. En úr því að ákvæðið er felt niður, þá er fyllilega sanngjarnt að hækka tryggingarhlutfallið upp í 3/8.

Brtt. 4,a er aðeins smávægileg. Er þar aðeins um að ræða verðbreytingu á kauphöllum, hvort heldur eru íslenskar eða erlendar. Út frá því má skilja sambandið milli a- og b-liðs 10. gr. þannig, að í a. sje átt við íslensk og í b. við erlend verðbrjef, en það má líka líta þannig á, að í a. sje átt við opinber verðbrjef, en í b. við önnur, er skráð skyldu í kauphöllum, erlendum eða íslenskum.

C-liður er aðeins orðabreyting, en orðalag e-liðs er óviðkunnanlegt, og brtt. miðar að því að girða fyrir það, að snúið verði út úr orðalaginu.

5. brtt. a. er tekin upp aftur. Var hún feld niður í hv. Ed. Er hún um það, að seðlabankinn megi taka við fje á „dálkinn“, sem svo er kallað. Hefir þessi aðferð til þess að geyma fje ekki verið notuð hjer fyr, en hún er náskyld hlaupareikningsaðferðinni. Munurinn er sá, að greiddir eru lægri vextir en við hlaupareikning. Mætti bjarga þessu við með tvenskonar hlaupareikningi, en hinsvegar var óþarfi að fella þetta burtu úr frv.

Á 5. brtt. b. mintist jeg í sambandi við 1. brtt.

í 6. brtt. er lagt til, að sú málsgrein 14. gr. falli burt, þar sem ákveðið er, að seðlabankinn geti gefið út ávísanir, er lúti sömu reglum og víxlar. Er þessi breyting gerð eftir að talað hafði verið um þetta við mikilsmetna lögfræðinga, sem töldu þetta ákvæði óheppilegt og varla geta staðist nema með því móti að kveða nánar á um form ávísananna, og kváðu þeir varla hægt að gefa þeim allan víxilrjett. Og þar sem bankinn getur á margan hátt trygt sig í þessu efni, þá virðist ekki rjett að setja þetta ákvæði, sem getur valdið glundroða. Það er þegar fyrir löngu búið að ákveða form víxla og gefa þeim ákveðinn rjett, og virðist þá óþarfi að vera að rugla þá skilgreiningu aftur með því að gefa fleiri ávísunum sama rjett.

7. brtt. fer fram á það að fella niður ákvæði 21. gr. frv. um, að endurskoðendur sjeu skipaðir eftir tillögum bankaráðs. Eftir stjfrv. var skipunin verk Landsbankanefndarinnar, en hún var með öllu afnumin í hv. Ed. og störfum hennar skift upp, og þá ákveðið, að endurskoðendur skyldu skipaðir eftir tillögum bankaráðs. En þar sem bankaráðið er yfirstjórn bankans, þá virðist ekki rjett að láta það ráða, hverjir eru endurskoðendur bankans, því með því eru þeir gerðir háðir bankaráðinu. Þykir nefndinni því rjettara, að landsstjórnin ein skipi þessa menn. Þá hefir nefndin ennfremur lagt það til, að endurskoðendurnir sjeu skipaðir til þriggja ára, í stað þess að í stjfrv. er það óákveðið. Ef þeir eru skipaðir til óákveðins tíma, þá verður, ef stjórnin vill losna við einhvern endurskoðanda og hann fer frá, litið svo á, sem hann hafi verið settur af, en menn vita, hve mikið er lagt í það hjer og hve miklum erfiðleikum það er bundið að framkvæma slíkt. Er því betra að skipa endurskoðendurna til ákveðins tíma, til þess að komast hjá óþægindum.

Í 8. brtt., við 24. gr. frv., er farið fram á það, að varasjóður fái 1/2 arðs seðlabankans eftir að hann er orðinn 4 miljónir króna, í stað 14 í stjfrv. Er þetta heppileg ráðstöfun, þegar litið er á ákvæði 1. gr. frv. um, að ríkið beri ekki ábyrgð á bankanum. Er því best að búa sem tryggilegast um bankann, og er það gert ríflega með þessari brtt.

9. brtt., við 34. gr., fer fram á það, að bankaráðsmennirnir 4 skuli kosnir í sameinuðu þingi, í stað þess, að samkvæmt frv. eins og það kom frá hv. Ed. er ætlast til þess, að 2 þeirra sjeu kosnir af hvorri deild. Sá nefndin ekki ástæðu til þess að hafa deildaskifti í þessu efni. Er eðlilegast, að þeir sjeu kosnir af sameinuðu þingi. Virðist ákvæði frv. stafa af endurminningunni um það, er deildirnar kusu hvor sinn gæslustjóra. En nú er fyrirkomulag bankans svo breytt, að ekki virðist ástæða til að halda fast við hið gamla í þessu efni.

Þá hefir nefndin felt niður það ákvæði, að bankaráðið skuli skipað utanþingsmönnum. Er ekki þægilegt að benda á ástæðuna fyrir þessu ákvæði, þar sem þingið á að kjósa fulltrúana í æðstu stjórn bankans. Ef sú hugsun liggur á bak við, að það eigi með ákvæðinu að útiloka bitlinga, þá er það augljóst, að það er eins hægt að útdeila bitlingum til utanþingsmanna sem þingmanna.

B-liðurinn gengur út á það, að eigi bankaráðsmaður heima utan Reykjavíkur, þá beri honum að sækja bankaráðsfundi endurgjaldslaust.

C-liðurinn fer í þá átt að færa niður þóknunina til bankaráðsmannanna, þannig að hún verði 4 þús. og 2 þús. kr., í stað 5 og 2 þús. kr. í frv. Sýnist augljóst, að þóknunin verður að fara eftir því, hve mikil störf bankaráðsmönnunum er ætlað að rækja. Eins og bankaráðinu nú er fyrir komið, þá verður að gera þá kröfu til þess, að það vinni dagleg störf í bankanum, þar eð það á að fylgjast með daglegum rekstri hans. Þóknunin getur auðvitað altaf verið álitamál, enda var nefndin ekki sammála um upphæð hennar. 4 nefndarmenn bera fram till. um lækkunina, en 3 nefndarmenn eru henni andvígir og vilja láta upphæðina í frv. halda sjer. Hærri upphæðin, sem við höfum, er vegna þess, að við ætlumst til, að nauðsynlegt sje, að bankaráðsmennirnir þurfi ekki að hafa annað starf á hendi en þetta, auk aðalstarfs síns, og að það sje meira virði en hvort það kostar meira eða minna. Þessi borgun er í stjfrv. ákveðin þannig, að álíta má sæmilega þóknun.

10. brtt. a. er orðabreyting, en b- liður er fyrirkomulagsbreyting. Þótti rjettara að hafa dýrtíðaruppbótina í bráðabirgðakaflanum, vegna þess, að öll dýrtíðaruppbót er bráðabirgðafyrirkomulag.

Þá kem jeg að 11. brtt. Þetta ákvæði frv. er óþarft, ef samþykt verður brtt. nefndarinnar um breyting á bankaráðinu; þá má gera ráð fyrir því, að verði bankaráðsmaður fjarverandi um lengri tíma, þá verði tekinn varamaður í hans stað, og því ekki ástæða til, að hann firri sig ábyrgð, ef hann bókar ekki ágreining.

12. brtt. a. er orðabreyting, en b. er nýmæli, eftir ósk bankastjórnarinnar. Í frv. er ákvæði um það, að gefa megi einstaka starfsmönnum bankans heimild til þess að skuldbinda bankann með einum bankastjóranna, en þessi brtt. fer fram á það að gefa tilteknum starfsmönnum heimild til þess eins að skuldbinda bankann um tiltekin atriði, t. d. ef löggilda á sparisjóðsbækur og fleira.

Fara oft heilir dagar í nafnaskriftir bankastjóranna án þess að nokkur vandi fylgi því, eins og t. d. við það, sem jeg nefndi áður, og er því sjálfsagt að gefa tilteknum starfsmönnum umboð til þess að annast þetta upp á eindæmi sitt.

C-liðurinn er orðabreyting.

13. brtt. a-liður fer í þá átt að taka af allan efa um það, hver gegna eigi störfum aðalbankastjóra í fjarveru hans, ef hinir bankastjórarnir hafa verið skipaðir samtímis. Er það engan veginn trygt, að sá, sem eldri er að árum, sje hæfari til þess, og ekki heldur, að sá sje það, sem eldri er í stöðunni. En til þess að eitthvað sje ákveðið um þetta, þá hefir nefndin borið fram þessa breytingu.

B-liður er lítilsháttar breyting á málsgr. um framkvæmdarstjórn bankans og fer í sömu átt og gengið var út frá í breytingu hv. Ed., að eigi stjórn bankans að fara vel, þá verði bankastjórarnir að vera vel samhentir. Þótt einn bankastjóranna sje einhverju ekki fullkomlega samþykkur, þá á hann ekki að geta gert alt að ágreiningsatriði. Breytingin hjer er þess efnis, að að jafnaði beri ekki að framkvæma meiri háttar ráðstafanir, ef einn bankastjóranna er á móti því, og að enga ráðstöfun megi framkvæma án vilja aðalbankastjóra, t. d. um að taka að sjer nýtt fyrirtæki o. s. frv. Er ekki hægt að heimta meira af aðalbankastjóranum en hinum, ef hann ekki getur einn hindrað slíkt. Er með brtt. numin burt heimildin til þess fyrir bankastjórnina að skjóta ágreiningi sínum til bankaráðsins. Það gæti liðið heill mannsaldur án þess að heimildin yrði notuð, og er hún að því leyti óþörf, en hún gæti orðið til þess að kveikja óánægju og sundurþykkju innan stjórnar bankans. Er ekki rjett að gefa undir fótinn með það.

C-liðurinn er afleiðing af 12. brtt. b-lið.

Þá hefir mikið verið talað um 1. málsgr. 42. gr. frv., bæði í hv. Ed., hjer og utan þings, um það, að bankastjórar megi ekki vera alþingismenn, og eins og það nú er orðað, að alþingismenn megi ekki vera bankastjórar. Hefir því verið haldið fram, að þetta ákvæði ríði í bág við ákvæði stjórnarskrárinnar um kjörgengi til Alþingis. Nefndin var ekki fyllilega sammála um þetta, en þó varð það að samkomulagi að bera fram till. um að fella þetta ákvæði niður. Var það álit nefndarmanna, að þar eð merkir lögfræðingar hjeldu því fram, að þetta riði í bág við stjórnarskrána, þá væri ekki rjett að leggja á tæpasta vaðið í þessu efni.

Þó skal það tekið fram, að nefndarmenn voru ekki allir með að fella þetta niður. Hv. form. nefndarinnar (KIJ) var á móti því, þar eð hann taldi ákvæðið heyra undir úrskurð hæstv. forseta. Jeg skal geta þess, að það var rætt í nefndinni, hvort ákvæðið væri heppilegt, og virtust allir sammála um, að það væri í sjálfu sjer heppilegt, að bankastjórar væru ekki þingmenn.

15. brtt., við 44. gr. frv., er aðeins orðabreyting.

16. brtt. a-liður er aðeins um það, að dýrtíðaruppbótin, sem nefndin leggur til, að feld sje úr 36. gr., sje tekin hjer upp. — B-liður er smávægileg orðabreyting. Þar stendur: „Jafnskjótt sem núverandi bókari, aðalfjehirðir og fjehirðir láta af stöðum sínum, fer um ráðningu manna í staðinn eftir ákvæðum laga þessara.“ Þessi breyting er gerð til þess að taka af allan efa um, að það er hvenær sem einhver þeirra fer frá, sem á að skipa í hans stað, en ekki, að það eigi að bíða eftir því, að allar þessar stöður losni.

Þá er lokið að fara gegnum þessar brtt. frá nefndinni, og skal jeg ekki fjölyrða frekar um þær. En jeg á hjer eina brtt. á þskj. 562, sem jeg reyndar hefi minst á hjer áður í sambandi við það, sem jeg hefi áður talað um það, að í bráðabirgðaákvæðum í 56. gr. er kveðið á um það, að bankaráðið skuli ákveða, hver af útibúunum skuli fylgja seðlabankanum og hver sparisjóðsdeildinni. Brtt. þessi á að koma til atkvæða, ef brtt. nefndarinnar verður feld, því að öðrum kosti kemur hún ekki til mála. En jeg hefði talið það heppilegra að láta þetta vera kyrt í frv., því að bankaráðið getur ákveðið, að þau fylgi öll sparisjóðsdeildinni, ef þurfa þykir. Jeg sje ekki annað en að bankaráðið geti sjeð þetta eins vel og hv. þm., og tel því algerlega skaðlaust að láta þetta standa í frv.

Eins og sjá má, hefir einn hv. þm. skrifað undir nál. með fyrirvara, en hefir þó unnið að frv. með nefndinni, en mun halda fast þeirri skoðun sinni að óska, að seðlaútgáfunni sje öðruvísi fyrir komið, og mun því greiða atkvæði á móti frv. Tveir aðrir nefndarmenn hafa líka skrifað undir með fyrirvara. Fyrirvari þeirra er kominn vegna brtt., sem þeir hafa borið fram á þskj. 568, og þó að jeg kannist vel við þær ástæður, sem þeir hv. þm. munu færa fram, þá ætla jeg ekki að taka fram fyrir hendur þeirra með því að fara að ræða brtt.