13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

20. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg get tekið undir það með hv. frsm., að það sje lítil þörf að ræða meginatriði frv. nú. Það hefir verið gert áður hjer í deildinni, og því ekki þörf að ræða um annað en brtt. þær, sem fyrir liggja.

Fjhn. er sammála um flestar brtt., en þeirra, sem nefndin fylgir ekki öll, þarf jeg að geta að nokkru.

Fyrsta brtt. á þskj. 568 er þess efnis að nema burt úr frv. ákvæðin um það, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans. — Eins og mönnum er kunnugt, var því haldið fram af meiri hl. milliþinganefndarinnar, að rjett væri, að ríkið bæri ábyrgð á bankanum með þeim hætti, að stofnfje hans væri jafnan haldið óskertu. Þetta gat landsstjórnin ekki fallist á og kaus heldur, að ekkert stæði um þetta í frv. Það gátum við meirihlutamenn í nefndinni sætt okkur við, með því að við vorum þess fullvissir, að Alþingi mundi á hverjum tíma gera nauðsynlegar ráðstafanir til öryggis bankanum, ef nokkuð kæmi fyrir hann, án tillits til þess, hvort nokkuð stæði um það í lögum. Svo mun enn verða, þrátt fyrir hið nýja ákvæði, að Alþingi mun á hverjum tíma gera viðeigandi ráðstafanir bankanum til viðrjettingar, ef einhverntíma skyldi að slíku reka. Ákvæði frv. eru því gagnslítil og lítil trygging fyrir þá menn, sem leggja aðaláhersluna á það, að ríkið taki ekki ótakmarkaða ábyrgð á bankanum.

Í 40 ár hefir Landsbankinn nú starfað, og allan þann tíma hafa engin óhöpp viljað til, sem áhrif gætu haft á tilveru bankans. Erlend reynsla um seðlabanka sýnir líka, að þeirra starfsemi fylgir ekki mikil áhætta fyrir ríkið, og það eins frá þeim tímum, þegar ríkisbankarnir ráku almenna bankastarfsemi. Að vísu verður okkar seðlabanki frábrugðinn flestum öðrum seðlabönkum, sem nú eru við lýði, að því leyti, að hann hefir við hlið sjer allstóra sparisjóðsdeild. En alt fram að lokum síðustu aldar, og sumstaðar lengur, var það svo um flesta erlenda seðlabanka, að þeir ráku innlánsstarfsemi samhliða hinu, og þrátt fyrir innlausnarskylduna var lítið um óhöpp hjá þeim. Enda var það svo um þann manninn í milliþinganefndinni, sem ekki fjelst á það, að ríkissjóður bæri ábyrgð á bankanum, að hann lagði ekki aðaláhersluna á áhættuna fyrir ríkissjóð, heldur á hitt, að með því að takmarka ábyrgð ríkissjóðs mætti halda sparifje landsmanna frá seðlabankanum og beina því til annara banka og sparisjóða. En ef áhættan er engin, þá er ekki hægt að halda sparifje frá bankanum með neinni takmörkun á ríkisábyrgð.

Jeg fyrir mitt leyti geri þetta ekki að svo stóru atriði, að jeg telji ástæðu til að vera með eða móti frv. eftir því, hvernig fer um þetta ákvæði, eða eftir því, hvort 1. gr. verður eins og hún er nú eða ekki. Jeg sje ekki ástæðu til að óttast það, þó að 1. gr. verði eins og hún er, að það hái bankanum eða að sparifje verði tekið út.

Jeg legg miklu fremur áherslu á hitt, að hvort sem þetta ákvæði stendur í lögunum eða ekki, þá munu landsmenn hafa það á tilfinningunni, að Landsbankinn sje öruggasta peningastofnunin í landinu, og ef það kæmi fyrir, að einkastofnanir yrðu taldar tortryggilegar, þá líti almenningur svo á, að þessi stofnun, sem er ríkisstofnun, sje altaf trygg.

Að ætla að gera ráðstafanir til, að almenningur álíti seðlabanka ríkisins eins ótrygga stofnun eins og einkastofnanir kunna að vera eða verða, til þess að beina sparifje frá honum til einkabanka, álít jeg óviðeigandi og óeðlilegt. Seðlabankinn á að vera tryggur og sparisjóðsdeildin á að vera trygg. Á annan veg má ekki frá þessu ganga.

Til þess að beina sparifjenu frá bankanum eru alt aðrar leiðir, og í raun og veru aðeins eitt ráð, sem dugir, og það er lækkun innlánsvaxta. Þyki bankastjórninni of mikið innlánsfje streyma til sín, getur hún á hverjum tíma bandað hendinni á móti því, með því að lækka vextina, þangað til menn vilja heldur fara annað með sparifje sitt. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að bankastjórnin geti farið með vextina niður í 0, ef þörf krefur til þess að takmarka innlánsfje hæfilega.

Það er yfirleitt mjög óviðfeldið að hafa þetta ákvæði í lögunum, að ábyrgð ríkisins sje takmörkuð. Aðrar þjóðir leggja einmitt áherslu á það, að ríkið beri ábyrgð á þjóðbankanum. Í Svíþjóð, til dæmis, er það tekið fram í 72. gr. sjálfrar stjórnarskrárinnar, að ríkið beri ábyrgð á þjóðbankanum, svo mikil áhersla er á það lögð, enda er þar enginn ágreiningur um það, að ríkið eigi að bera ábyrgð á seðlabankanum.

Þá kem jeg að brtt. II. á þskj. 568. 1. brtt. er þess efnis, að bankinn sje ekki skyldur til að innleysa seðla sína með myntuðu gulli, heldur sje honum skylt, ef þess er krafist, að selja gull í miltum fyrir seðla þá, sem hann hefir gefið út, þó aldrei minna í einu en eitt gullmilti, 12,4414 kílógr. að þyngd, sem jafngildir 28283,42 krónum í seðlum. Þetta mundi takmarka að miklum mun eða draga til fulls úr notkun gulls sem gjaldeyris í landinu, en gullinnlausnin gerði eigi að síður sama gagn og áður. Það er ástæða fyrir okkur að fara líkar brautir og aðrar þjóðir í þessum efnum. En það er nú pólitík stórveldanna að setja gullið ekki í umferð, heldur halda því inni í bönkunum. Þetta er gert til þess að verðfesta gullið og gera grundvöll gjaldeyrisins stöðugri. Þjóðirnar hafa sjeð nauðsynina á þessu eftir ófriðinn, og um þetta hefir náðst gott samkomulag og smáþjóðimar hafa fengið áskoranir um það að skerast ekki úr leik í þessu efni. Það mun nú ekki hafa mikil áhrif á verðbreytingar gullsins, hvernig við Íslendingar förum að í þessu efni. En það er nauðsynlegt fyrir okkur sem aðra, að stórþjóðirnar hafi þessa gullpólitík, þessa festingarstefnu á sviði gullsins. Því er það ekki viðeigandi, að við skerumst úr leik, og það því síður, sem það verður okkur aðeins til kostnaðar, en einskis gagns. Því fylgir myntunarkostnaður, vaxtatap, tap á sliti gullsins í umferð, en hinsvegar fylgja því engir kostir. Þegar þetta fer saman, að við getum tekið þátt í heimspólitíkinni og sparað fje, þá er það fljótsjeð, að okkur ber að fara þá leiðina, fremur en hliðargötur, er valda okkur óþarfa kostnaði.

Þá er annar liður þessarar brtt., en hann er bein afleiðing af þessum fyrsta lið.

Þá er þriðji liður þessarar brtt. þess efnis að skipa bankaráðsformanninn til 3 ára, í stað 5 ára. Hefi jeg fallist á þá tillögu til samkomulags við þá, sem telja nauðsynlegt, að meiri hluti hvers kjörtímabils geti fengið tækifæri til að hafa áhrif á skipun bankaráðsformanns, ef það þykir nauðsynlegt. Sje jeg ekkert því til fyrirstöðu. Tel, að hver flokkur eigi svo mikið undir framkomu annara flokka síðar um skipun bankaráðsformanns, að það aðhald eigi að nægja til að tryggja, að rjettvísir menn verði skipaðir í þá stöðu, en engir flokksberserkir.

Þá er 4. liður brtt. við 37. gr. Við þrír, sem berum fram þessar brtt., teljum það óþarft, að tveir bankaráðsmenn, auk formannsins, komi daglega í bankann. Við álítum, að ekki sje alt fengið með því, þótt þeir sjeu að ráfa þar daglega, enda er ákvæðið um þetta loðið. Það er sagt, að þessir menn skuli „að jafnaði“ koma þarna daglega. Það er meira undir því komið, að bankaráðsmennirnir sýni elju og samviskusemi í því að kynna sjer hag bankans og stjórn hans og meira vert um „karakter“ þeirra heldur en hitt, að þeir komi daglega í bankann. Úr því yrði fremur ráf en starf.

Þá er brtt. III. á þskj. 568. Hún er alþekt hjer í deildinni og þinginu, þess efnis, að allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir, sem hafa fje á vöxtum, skuli geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema öðruvísi sje ákveðið í stofnskrám og skipulagsskrám. Sama á að gilda um ríkisfje og fje, sem opinberir starfsmenn hafa undir höndum. Rökin með og móti þessari tillögu hafa svo þráfaldlega verið borin hjer fram, að jeg hirði ekki um að rifja þau upp að nýju, og skal ekki fara lengra út í þá sálma. Tel jeg nægilegt, að menn sýni nú með atkvæðagreiðslunni afstöðu sína til tillögunnar.

Þá er síðasta brtt. á þessu þskj. við 55. gr., um það, að ráðherra sjái um, að eftirlitsmaðurinn með bönkum og sparisjóðum framkvæmi úttektabankanum í hendur bankaráðsins. Þessi brtt. er einnig kunn frá hv. Ed., og liggja að henni þau rök, að eftirlitsmaðurinn hlýtur að vera hæfastur allra manna til þess að framkvæma þetta mat. Svo sem kunnugt er, hefir Landsbankinn viðskifti við ýmsar stofnanir, þar á meðal Íslandsbanka, en engum manni er eins vel kunnur hagur Íslandsbanka sem bankaeftirlitsmanninum. Því mun það vera nokkuð örðugt fyrir aðra að framkvæma þetta mat. Úr því að til er sjerstakur embættismaður á þessu sviði, þá liggur beint við að fela honum þetta starf. Vænti jeg því, að hv. þdm. taki þessari brtt. vel og greiði henni atkvæði sitt, sem og hinum, sem jeg nú hefi nefnt.