23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Björn Líndal:

Satt að segja er jeg dálítið undrandi yfir umræðunum um þessar brtt. Jeg undrast mjög yfir því, hve menn virðast hafa afarlítinn skilning á högum sveitabænda í landinu. Jeg get ekki skilið, að nokkur maður haldi í alvöru, að um ótakmarkaðan innflutning á verkafólki sje að ræða, þótt leyft sje útlendingum að ráðast hingað sem vjnnuhjú í sveit, Að minsta kosti ætti fólk, sem þekkir dálítið til, að vita, að það er ekki mikið eftirsótt að ráðast í vinnumensku í sveit. Það er því ekki ástæða til að halda, að útlendingar sækist ákaflega eftir því. En þegar svo er komið, að ómögulegt er að fá innlend vinnuhjú, þá get jeg ekki sjeð, hvað er á móti því að leyfa útlendingum að koma, ef kostur er. Það má heita orðið ómögulegt að fá fólk til algengustu nauðsynjaverka, svo sem fjósaverka og eldhúsverka. Ef kostur er að fá gott útlent vinnufólk annað en Dani, sem vitanlega hafa leyfi til þess að leita hingað atvinnu, þá þykir mjer það vægast talað óþarfa umstang að þurfa í hvert skifti að snúa sjer um það til hins háa atvinnumálaráðuneytis. Þegar verið er að tala um, að atvinnan sje tekin frá öðrum, þá er það mesta fjarstæða, þegar innlendir menn fást ekki til vinnunnar. Jeg vil beina þeirri spurningu til hv. 4. þm. Reykv. (HjV): Hvað er tekið frá innlendum verkalýð, þótt tekinn sje útlendur maður til þess að slá það gras, sem enginn innlendur maður vill vinna að með þeim skilmálum, sem hægt er að bjóða? Grasið rotnar niður í sveitum landsins í stórum stíl, af því að bændum er ómögulegt að borga það kaup, sem heimtað er. Þetta þekki jeg af eigin reynslu. Og jeg held það sje óhætt að segja, að hver einasti íslenskur bóndi, sem þarf aðkeypt verkafólk í sína þjónustu, muni hafa sömu sögu að segja. Íslenskum verkalýð getur áreiðanlega ekki verið neinn hagur í því, að íslenskir bændur annaðhvort flosni upp af jörðum sínum eða verði að einyrkjum sakir skorts á verkafólki, heldur þvert á móti, öll rjett rök mæla með því að samþykkja það, sem meiri hluti landbúnaðarnefndar leggur til, en engin á móti.