13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3252 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er alt annað, að seðlabankinn kaupi skuldabrjef, eða hitt, að hann veiti löng lán. Skuldabrjef, sem hjer er átt við, eru handhafaskuldabrjef, sem stærri bæjarfjelög gefa út. Þau eru auðseld og veðhæf. Þau eru því seðlabankanum óbundið fje, ef hann hefir þau í vörslum sínum, því að fyrir þau getur hann altaf útvegað reiðufje, ef á þarf að halda. En slíku er ekki til að dreifa um þau lán, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vill heimila seðlabankanum að veita.

Starf endurskoðendanna verður ekki aðallega þess eðlis, að þeir þurfi að standa ríkisstjórn eða Alþingi reikningsskap. Það verður aðallega bankaráðið, er tekur við skýrslum þeirra. En því hefir hv. fjhn. þótt varhugavert, að bankaráðið hefði vald um, hverjir mennirnir væru, að endurskoðendurnir geti þurft að fara yfir gerðir bankaráðsins, þótt ekki muni verða mikið um það.

Það er ekki rjett hjá háttv. 4. þm. Reykv., að málstaður ríkisstjórnarinnar, að vilja ekki ótakmarkaða ábyrgð á bankanum, sje sjerstaklega í því skyni tekinn að gera lífvænlegra fyrir einkabanka, heldur er það miklu frekar til þess að gera lífvænlegt fyrir aðra sparisjóði heldur en sparisjóðsdeild Landsbankans.

Jeg get ekki sjeð, að það sje nein veiking á aðstöðu seðlabankans, þó að hlynt sje að því, að upp komi einkabankar í landinu. Með því er hreint og beint verið að hlynna að honum; með því verður komist nær því, að hann skifti eingöngu við peningastofnanir í landinu. Hjer er því um að ræða eflingu, en ekki veikingu á aðstöðu bankans.

Hv. þm. Str. (TrÞ) er nú á því, að ríkið eigi að bera að lögum ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans, en hann var þó á annari skoðun fyr á þinginu. Hv. þm. færði þau rök fyrir þessari síðari skoðun sinni, að ríkið fengi hagnaðinn af rekstri bankans. Þetta er nú, að því er snertir sparisjóðinn, algerlega rangt. Þar á allur hagnaðurinn að leggjast í varasjóð.

Um seðlabankann er það að segja, að ríkið leggur honum til 5 miljónir króna, stofnfje, sem það á á hættu, að það fái enga vexti af. En það getur komið að því, að þegar varasjóður bankans er orðinn yfir 4 miljónir, þá fái ríkissjóður og varasjóður helmingaskifti.

Jeg verð nú að segja það, að þessi von ríkissjóðs um eitthvað af arðinum er ekki meira en uppbót fyrir það vaxtatap, sem hann verður fyrir af innskotsfje sínu til bankans.

Það er þannig líka algerlega ranglega túlkað, að ríkið eigi að fá arðinn af seðlabankanum.

Í 38. gr., staflið i, er það falið bankaráðinu að ákveða, hve mikið af starfsfje bankans skuli vera bundið í hverri atvinnugrein á hverjum tíma. Jeg held nú líka, að þetta ákvörðunarvald sje best komið hjá bankaráðinu og að það sje ekki heppilegt að gera neina ákvörðun um þessa skiftingu, sem ekki er að vænta, að geti staðist í framtíðinni. Hvað heppilegt er í því efni, hlýtur altaf að fara eftir ástandinu á hverjum tíma.

Um það, að þm. mættu blygðast sín fyrir að afgreiða ekki þetta mál, sagði jeg ekki neitt, en hitt sagði jeg, að það færi ekki vel á því, að kjörtímabilið liði svo, að það yrði ekki afgreitt.

Þá var hv. þm. Str. með pólitískar bollaleggingar, og ætla jeg ekki að fara mikið út í þær. Hann vísar ábyrgðinni á hendur stjórnarinnar á því, hvernig málin ganga gegnum þingið. En hv. þm. veit það vel, að eftir þingsköpum eru það forsetar og vinnunefndir þingsins, sem þar ráða mestu um.

Þær breytingar, sem hv. Ed. gerði á frv., og þær brtt., sem hjer liggja fyrir, eru engar stórvægilegar og raska í engu þeim grundvelli, sem frv. var upphaflega bygt á. Sjerstaklega eru þær brtt., sem hjer liggja fyrir, hvorki stórvægilegar eða flóknar. Mjer finst ekki, að þær feli í sjer neina afsökun fyrir því, að ekki sje hægt að afgreiða málið nú.