25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3342 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Það er eins og að líkindum lætur, að jeg þarf lítið að leggja til þessa máls, þar eð jeg hefi áður látið uppi skoðun mína á því. Jeg vil þó geta þess, að það er leiðinlegt að vera altaf að hringla með þetta stjórnarskrármál. Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er bæði óþarft og illa viðeigandi, en hitt er þó verra, þegar hver óvalinn snáði telur sig færan um að koma fram með breytingar á stjórnarskránni, því að þær verða varla til gagns nema þær sjeu íhugaðar af sjerstakri nefnd hæfra manna. Þegar stjórnarskráin var samþ. síðast, var það álit mitt, að hún myndi standa óbreytt meðan sambandslögin væru í gildi. Jeg áleit, að af því gæti ekkert tjón hlotist og þjóðin gæti tekið öllum þeim þroska, sem annars væri unt, undir núgildandi stjórnarskrá, þótt ekki væri stöðugt verið að gera breytingar á henni. En hinsvegar er það líklegt til þess að ná fylgi kjósenda að vera altaf með þetta sparnaðartal. Og mikill hluti kjósenda hefir gleypt við þessu, álitið, að hjer væri um raunverulegan sparnað að ræða, sem jafnvel gæti bjargað þjóðinni út úr öllum fjárhagslegum örðugleikum. En hann á að vera í sambandi við brtt. um afnám landskjörinna þm. og fækkun þinga. Þetta er nú ekki meiri sparnaður. Hvar liggur þá þessi sparnaður?

Að fækka þingmönnum um hina landskjörnu svarar til 10 aura á hvern mann í landinu, miðað við þingsetukaup þeirra eins og það nú er. Það er hlægilegt að hampa þessu. Fækkun þinga þýðir 1–2 kr. sparnað á mann. Mjer hálfgremst, þegar notaðar eru slíkar yfirborðsástæður í jafnmikilsvarðandi máli. Það er ekki þingkostnaðurinn, sem hvílir svo þungt á þjóðinni, heldur hennar eigin lifnaðarhættir, löngun alls fjöldans til þess að lifa dag hvern í dýrðlegum fagnaði, klæðast pelli og dýrindis líni og dreypa á dýrum vínum. Þetta er það, sem íþyngir þjóðinni mest. — Jeg hefði haft gaman af að fara lengra út í þetta. Jeg álít, að hagstofan ætti að gera útreikninga í þessu sambandi um það, hvað menn leyfa sjer í daglegu háttalagi sínu. Þá er jeg viss um, að fá mætti gleggri mynd af því, hvaða þýðingu þetta sparnaðarhjal hefir.

Jeg ætla að benda á atriði í nál. meiri hl. Þar er dregið fram sem ástæða fyrir þingafækkuninni, að þingið 1921 hafi kostað 384 þús. kr. Það er eins og þetta eigi að vera til að sýna, að þetta sje meðaltalið. En hv. meiri hl. ætti að vera það ljóst, að þetta má ekki taka þannig, því að 1921 var þingið afarlangt vegna skattalaganna, og svo var dýrtíðin þá á hæsta stigi, svo að þetta þing er ekki hentugt að taka til að sýna raunverulegan þingkostnað.

Þess er líka getið í nál., að lægsti þingkostnaður hefir verið 202 þús. kr. En þess ber að gæta, að það er margur annar kostnaður í sambandi við þinghaldið en þingfararkaupið, sem ekki sparast að fullu, þótt þingunum yrði fækkað. Þetta hefði nefndin átt að athuga, áður en hún lagði þetta fram sem mælikvarða á það almenna.

Í raun og veru er ekki mikil sönnun í því, þótt því sje haldið fram, að það sje einlægur vilji þjóðarinnar að afnema landsk. þm., fækka þingum og lengja kjörtímabilið. Jeg álít augljóst, að þessi vilji kjósenda, sem svo mikið er talað um, sje tilbúinn, því að þingmálafundargerðir, þar sem samþykt hefir verið eitthvað í þessa átt, sýna það, að þær eru allar frá sömu verksmiðjunni, og er lítill munur þar á. En þetta sýnir aðeins það, að kjósendur hafi fengið sterka hvöt til þess að hrópa hátt um þennan sparnað. Þetta er þannig lítils virði.

Mjer þykir eiginlega ekki viðeigandi að tala lengi, þar sem jeg hefi ekki fundið ástæðu til þess að koma með brtt. við þetta frv. Jeg áleit það tilgangslaust, þar sem sýnilegt er, hverja afgreiðslu málið muni fá.

En jeg vil samt sýna, hvaða breytingar á stjórnarskránni vaka fyrir mjer, þegar jeg álít tímabært að fara að gera breytingar á henni. Jeg vil ekki fækka þingum verulega, heldur að öll Ed. verði skipuð landsk. þm., þannig að 12 menn eigi sæti í henni; ennfremur að sú kjördæmaskipun, sem nú er, haldist óbreytt að mestu, og fái sveitakjördæmin 18–20 þingmenn og að þau sjeu öll einmenningskjördæmi. Kaupstaðirnir fái hver sinn þingmann og Reykjavík sömu tölu þingmanna og hún hefir nú. Þetta væri sú eðlilegasta og heillavænlegasta skipun, sem hægt væri að gera á þessum málum, því að hlutfallskosning allra þingmanna verður aldrei fullkomlega rjettlátt fyrirkomulag. En hitt er rjett, að Ed. öll sje landskjörin, og eins að öll kjördæmi sjeu einmenningskjördæmi. Það getur þá orðið nauðsynlegt að breyta eitthvað kjördæmatakmörkum, til þess að jafna kjósendatölunni á þingmennina. Aftur á móti væri ekki rjett að hagga sýslutakmörkum verulega, því að hver sýsla er eins og nokkurskonar ríki út af fyrir sig, sem á að hafa rjett til að hafa sinn fulltrúa til að gæta hagsmuna sinna.

Jeg tel það ekki viðeigandi fyrir mig að fara lengra út í þetta mál, þar sem jeg get ekki talið mig sem frsm. í því. En jeg hygg, að svo muni fara áður en langt um líður, að hagað verði stjórnarskrárbreytingu á þann hátt, er jeg hefi nú drepið á.