25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3357 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Það lítur út fyrir, að umr. þessa máls ætli að ganga heldur treglega. Svo virðist, sem ætlast sje til, að nú þegar sjeu allir ákveðnir í því, hvernig þeir eigi að greiða atkv. um hinar einstöku till. Jeg gæti trúað, að það væri líka búið að ákveða, hvernig fara á um frv. í heild sinni. Mjer virðist, að hæstv. landsstjórn hafi forlög þess algerlega í hendi sjer; að minsta kosti í Ed.

Eins og jeg tók fram við 1. umr., þykir mjer frv. alt í meira lagi óheppilegt. Það er litað af afturhaldsanda og miðar að því að minka áhrif þjóðarinnar á þingið og fjarlægja þingið þjóðinni. Eina breytingin, sem frv. fer fram á og sýnist nokkurnveginn sanngjörn, er í 5. gr., um að gera það skýrt, sem nú er óskýrt, að við hlutbundnar kosningar skuli varamenn vera tiltækir, meðan nokkur er uppistandandi af þeim, sem á framboðslista voru. Jeg hjelt nú, að þessi grein gæti ekki orðið ágreiningsefni í þinginu að efni til, en þó skildist mjer á einum hv. þm., að hann vildi ekki unna Reykjavík þessarar rjettarbótar. Honum þótti sjálfsagt að láta eitt ganga yfir Reykjavík og önnur kjördæmi landsins, að hann sagði. En þarna er ekki líku saman að jafna. Í Reykjavík er hlutfallskosning, og er henni því miklu fremur jafnandi til landskjörsins. Ef ekki væri hjer annað á ferð en þessi breyting, þá væri hún heldur til lagfæringar á orðalagi stjórnarskrárinnar og mundi varla sæta miklum andmælum. En alt hitt, sem í frv. stendur, fer svo langt í afturhaldsáttina, að mig stórfurðar á því, að hv. minni hl. vill halda í nokkur atriði frv.

Frá háttv. meiri hl. hefir komið út álit, þar sem fallist er á hvert orð í stjfrv. Í þessu nál. eru fullyrðingar um, að mikill meiri hluti kjósenda í landinu heimti þær breytingar, sem hjer er farið fram á. Jeg þori aftur á móti að fullyrða, að um þetta hafi hv. meiri hl. ekkert fyrir sjer. Jeg veit ekki betur en að meginþorri manna telji sjálfsagt, að þing sje háð á hverju ári og að kjörtímabilið sje ekki lengt. Það er áreiðanlegt, að mikill meiri hl. kjósenda hefir aldrei krafist þessara breytinga á stjórnarskránni. Hitt kann að vera, að á nokkrum þingmálafundum hafi verið gerðar samþyktir í þessa átt. Og þótt oft megi marka þingmálafundi nokkuð, þá held jeg, að þetta eigi sjer ekki djúpar rætur. Það hefir helst verið samþykt þar, sem Íhaldið er svæsnast og þm. þess hafa beitt sjer fyrir því. — Jeg held, að jeg sje ekki síður kunnugur vilja fólksins um þetta en hver annar, og jeg hefi gert mjer mikið far um að kynna mjer hann, þar sem jeg hefi komið. Og það get jeg fullyrt, að menn eru eindregið á móti frv., þar sem jeg þekki til.

Þá er eitt af því, sem hv. meiri hl. telur frv. mjög til gildis, að komist það í framkvæmd, megi kjósa bæði landskjörna og þjóðkjörna í einu. En þarna er alveg verið að breyta um stefnu. Þegar samþykt var að skipa Ed. svo, sem nú er gert, var það álitið eitt aðalatriðið að láta þingrof ekki ná til hennar. Það má vera, að þá hafi þetta verið einskonar íhalds-„standpunkt“. (Forsrh. JÞ: Þetta er ljótt orð!). Já, ljótt er það, en jeg nota það líka um íhaldið. — En nú lítur út fyrir, að hæstv. landsstjórn álíti landskjörið alt of „demokratiskt“ fyrirkomulag og finnist enginn slægur fyrir íhaldið að halda lengur í það. En það var áreiðanlega hugsað sem íhald, að láta þingrof ekki ná til landsk. þm. Get jeg þar bent á, að síra Sigurður heitinn Stefánsson sagðist vera svo conservativ (hann notaði einmitt það orð), að hann vildi láta kjósa Ed. þannig, og vildi meira að segja láta kjósa miklu fleiri þannig, helst ekki færri en 10. — Nú skilst mjer, að fyrirkomulagið sje ekki lengur nógu „conservativt“. Hitt er raunar haft að yfirvarpi, að spara eigi kjósendum fyrirhöfn með því að hafa báðar kosningarnar í einu. Vitanlega er það haft bak við eyrað, að sá flokkur, sem mest bolmagn hefir í landinu, geti hagnast um fáein atkv. með þessu móti. Kannske er búist við rífari þátttöku í almennum kosningum en í landskjörinu einu, og á því ætlar íhaldið að græða. En jeg er ekki alveg viss um, að íhaldinu gangi þarna alt að óskum. Það getur verið, að sú alda, sem skolaði íhaldinu þangað, sem það nú er komið, sje þegar byrjað að falla. Þá verða þessar tillögur þeim ekki svo mjög í hag, sem þeir nú búast við.

Viðvíkjandi því að breyta stjórnarskránni út af varamönnunum viðlandskjörið, þá skilst mjer, að það sje óþarft. Eftir mínu viti er orðalag stjórnarskrárinnar alls ekki því til fyrirstöðu, að þeir, sem ekki komast að, geti allir verið varamenn og megi taka sæti á þingi, meðan nokkur er eftir. 28. gr. stjórnarskrárinnar getur ekki haggað þessari skoðun og síðasta málsgr. 29. gr. styður hana heldur. En það er rjett, að kosningalögin taka af öll tvímæli um þetta, því að þau segja, að varamenn skuli ekki vera fleiri en aðalmenn. Og eftir kosningalögunum mátti auðvitað til að láta fara fram landskjör á einum manni síðastl. haust. En svo sem jeg sagði, er stjórnarskráin því engan veginn til fyrirstöðu, að kosningalögunum verði breytt um þetta atriði. Það þyrfti ekki annað en fella niður orðið „jafnmarga“ í 73. gr. kosningalaganna frá 1915 og gera þá kröfu til þeirra, sem bæru fram lista, að þeir hafi á þeim jafnmörg þingmannsefni til vara eins og þeir hafa aðalmenn. Með því móti væri mjög eðlilegt að skýra ákvæði stjórnarskrárinnar, að „varamenn skulu vera jafnmargir“ eins og þingmenn á hverjum lista. — 28. gr. stjórnarskrárinnar byrjar á að tala um þann möguleika, að þm., kosinn í sjerstöku kjördæmi, falli frá á kjörtímabilinu, og segir, að þá eigi kosning fram að fara. Síðan er talað um, hvernig fari, ef landsk. þm. fellur frá, og er þar hvergi minst einu orði á, að kjósa skuli í stað hans. Það eina, sem sagt er, er, að varamaður eigi að taka sæti hans. Af þessu sýnist mjer sú ein ályktun verða dregin, að þingmenn skuli undir þessum kringumstæðum kjósa í sjerstökum kjördæmum, en ekki í landskjöri. Enda hefi jeg hvergi í stjórnarskránni sjeð gert ráð fyrir aukakosningum í landskjöri. — Ef farið er að rekja málið sögulega, þá get jeg fallist á, að ákvæði stjórnarskrárinnar 1915 mátti skilja svo, að enginn listi fengi fleiri varamenn en aðalmenn. En orðalag núgildandi stjórnarskrár finst mjer miklu fremur benda til þess, að ekki þurfi að takmarka tölu varamanna, ef kosningalögunum væri breytt svo, sem jeg talaði um. — Það væri e. t. v. einnig rjett að fella niður úr þeim lögum þau ákvæði, þar sem talað er um, að kjósa þurfi aukalega í landskjöri. Mergurinn málsins er sá, að hægt er að ná aðaltilgangi 5. gr. þess frv., sem hjer liggur fyrir, með því einu að breyta kosningalögunum. Aðeins verður ekki hægt að láta þetta rjettlæti ná til Reykjavíkurþingmanna án stjórnarskrárbreytingar. Hæstv. forsrh. sagði í dag, að engin stjórn mundi fara að gera þá lögskýringu, sem jeg hefi hjer verið að tala um. Má vel vera, að það sje satt og rjett, en þar fyrir gæti Alþingi leyft sjer það. — Því sýnist mjer þessi breyting á stjórnarskránni ekki svo afaráríðandi, að ekki megi láta hana eiga sig.

Þá eru komnar fram brtt. frá einstökum hv. þm., svo sem um það að fella niður landskjörið og fækka ráðherrum. Flm. eru ekki enn farnir að mæla fyrir þessum till., svo að rjettast væri að geyma sjer að mestu að ræða um þær í bili. En jeg vil benda á, að mjer sýnist brtt. háttv. 2. þm. Rang. (EJ) ekki vera annað en snoppungur á landsstjórnina. Þar er auðsjáanlega litið svo á, sem hæstv. stjórn sje ekki í sem bestu samræmi við stjórnarskrána með því að hafa aðeins tvo ráðherra. Hv. þm. reynir þannig að leiðrjetta það, sem hans heittelskaða stjórn hefir vangert, og verð jeg að vera honum alveg sammála um, að það er fullkomið stjórnarskrárbrot að hafa aðeins tvo ráðherra. Það skiftir ekki máli, þótt fordæmi sje fyrir þessu. Það er jafnólöglegt samt. Ef hæstv. stjórn vildi nokkuð leiðrjetta í stjórnarskránni, þá var sjálfsagt að taka þetta atriði fyrst. Hv. 2. þm. Rang. vill auðvitað láta líta svo út, sem þessi till. sje fram borin til sparnaðar, en ekki til þess að bjarga stjórninni. Það verður nú samt lítill sparnaður að þessu, ef ráðherrarnir bæta við sig, þó ekki sje nema hálfum launum þriðja ráðherrans. Það má kannske segja, að þeir hætti því, ef þetta ákvæði kemst inn í stjórnarskrána, því að þá hafa þeir ekki lengur heimild til þess.

Jeg get ekki látið niðurlagsorð mín vera önnur en þau, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls, að eigi á annað borð að fara að breyta stjórnarskránni, þá tel jeg, að það verði að gerast þannig, að lýðræðið njóti sín betur en eftir þeirri stjórnarskrá, sem nú gildir. Breytingum í afturhaldsáttina get jeg ekki fylgt.

Annars álít jeg þetta mál, eins og það liggur fyrir nú, aðeins vera kosningaleik hjá stjórnarflokknum. Þeir eru hjer að leika sama leikinn sem þeir ljeku á þinginu 1924. Báðir þykjast vilja breyta sömu atriðunum í stjórnarskránni, en þó ekki alveg eins, aðeins til þess að vera ekki sammála og geta felt tillögur hvor fyrir öðrum. Að hjer stefni í sömu átt og 1924, ræð jeg meðal annars af því, að nú þegar er fram kominn fjöldi af brtt. við frv., en þegar svo er komið, þá eru feigðarmörkin augljós. Það skyldi því ekki fara svo, að stóru flokkarnir sálguðu öllum brtt. og svo frv. sjálfu á eftir, og þvæðu svo hendur sínar eins og Pílatus og þættust hvor í sínu lagi saklausir af þessum skollaleik, og kendu svo hvor öðrum um.

Jeg vildi nú fyrir mitt leyti óska þess, að þessi yrði endir málsins og að þeir færu að ljúka þessu verki, þó ekki væri nema í sparnaðarskyni, því jeg sje eftir öllum þeim tíma og öllu því fje, sem fer í þessar óþörfu umræður, því það er víst, að forlög þessa máls eru þau, að verða moldað að þessu sinni.