30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að segja nokkur orð um brtt. þær, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) drap aðeins lauslega á.

Fyrst er 2. brtt., við 6. gr., um þá breytingu á 30. gr. stjórnarskrárinnar, að dómarar í hæstarjetti, bæjarfógetar, sýslumenn, bankastjórar og útibússtjórar skuli ekki vera kjörgengir. Það hefir rjettilega verið fundið að þeim annmörkum, að dómarar sjeu bundnir í stjórnmálum, og sú skipun hefir verið gerð að því er snertir dómara hæstarjettar, að þeim er meinað að gefa sig að stjórnmálum. Sumir glöggir lagamenn hafa álitið, að þetta væri ranglega skýrt, þar sem sumir bæjarfógetarnir, eins og t. d. bæjarfógetinn í Reykjavík, væru líka dómarar engu að síður. Ætti þeim því í sjálfu sjer að vera meinað kjörgengi, þar sem þeir eru fyrst og fremst dómarar. önnur störf þeirra eru í eðli sínu aðeins viðbót, en dómarastarfið er aðalatriðið. Það er enginn vafi á því, að bæjarfógetinn í Reykjavík dæmir á ári hverju 6–8 hundruð dóma, en hæstirjettur aftur á móti dæmir ekki nema 30–40 dóma. Það er því alveg sjálfsagt, að bæjarfógetinn í Reykjavík, sem er sá af dómurum landsins, sem mest hefir að gera, sje ekki þm. líka. Sje það rjett, að hæstarjettardómarar eigi ekki að taka þátt í landsmáladeilum, þá er það rjett um þann undirdómara, sem dæmir svona mörg deilumál eins og bæjarfógetinn í Reykjavík. Sama er og að segja um bæjarfógetana í stærstu kaupstöðunum úti um land. Þeir hafa svo mikil dómarastörf, að það er hugsunarrjett, að þetta nái líka til þeirra. — Jeg býst við, að sumum þm. sýnist nú, að sýslumennirnir ættu hjer að vera undanskildir. Það er auðvitað nokkru öðru máli að gegna með þá, þar sem þeir hafa miklu færri mál að dæma, og gæti því komið til mála, frá því sjónarmiði, að draga þar línu á milli. En jeg hygg rjettast og býst við því, að sú verði niðurstaðan í framtíðinni, að allir dómarar eigi að standa utan við landsmálabaráttuna. Jeg held, að því verði ekki neitað, að það er erfitt í voru fámenna landi fyrir dómarana, sem taka þátt í illvígri flokkabaráttu á þingi, að vera rjettlátir í dómum sínum. Tökum t. d. Skúlamálið. Jeg hygg, að engum blandist hugur um, að það mál var rjettar dæmt í hæstarjetti í öðru landi en í undir- og yfirrjettinum hjer heima. Stjórnmálaöldurnar, sem stóðu svona djúpt í þessu máli, hafa að minsta kosti ósjálfrátt haft áhrif á dómarana. Jeg nefni þetta dæmi, af því að það er þekt og alviðurkent. En dómurinn breyttist sakborningi í vil eftir því sem dómendurnir fjarlægðust deilustaðinn.

Svo framarlega, sem það er meining þingsins að breyta stjórnarskránni, og svo framarlega, sem stjórnin leggur kapp á að koma fram öðrum breytingum en þinghaldi annnaðhvert ár, þá er sjálfsagt að láta þessa till. okkar ganga fram. Stjórnin heldur fram til streitu breytingum, sem ekki hafa almenna þýðingu, heldur aðeins flokksþýðingu. Og þó að hún taki ekki tillit til okkar, sem hjer erum í minni hl., þá getur þó meiri hl. í Nd. tekið öðruvísi í málið en hún kynni að óska og komið fram með efnisbreytingar, ef stjórnin á annað borð vill fara að breyta stjórnarskránni. Jeg vil benda á, að sjálfsagt er að nota tækifærið og hreyfa þeim umbótum að draga dómarana út úr pólitíkinni. En ef það verður ekki gert nú og hallist stjórnarflokkurinn að því að drepa brtt., þá getur farið svo, að fitjað verði upp á breytingunni ár eftir ár með sama þráa og haldið hefir verið áfram með að bera fram stjórnarskrárbreytingarnar.

Jeg ætla ekki að nefna fleiri dæmi, heldur drepa aðeins á nokkrar almennar röksemdir. Við skulum athuga, hvernig fer fyrir dómendum, sem eru í framboði, hvernig þeim gengur að vera rjettlátir, er þeir eiga t. d. að dæma mál hinna frambjóðendanna eða manna, sem standa framarlega í andstöðuflokki. Þeir hugsa sjer nú ef til vill að vera rjettlátir. En jeg hefi þrásinnis sjeð dómara hjer í deildinni snúast fram og aftur í málum, eftir dutlungum flokks síns og þörfum hans. Getur slíkur maður gleymt flokksfylgi og flokkshagsmunum við að ganga úr þinghúsinu og heim í hús sitt til að fella þar dóma? Engum getur blandast hugur um, hve djúptæk rjettarbót brtt. okkar er. Það er þó enginn áfellisdómur á þá menn, sem frá sjónarmiði sögunnar verða dæmdir fyrir ranga dóma, þar sem andstæðingarnir hafa tapað málum fyrir pólitískum sýslumönnum, en unnið þau svo fyrir rjetti, er var algerlega hlutlaus. Þetta er að nokkru leyti eðlilegt. Hjer eiga menn hlut að máli, — og við erum allir menn. Tvískiftingin í pólitískan bardagamann og rjettlátan dómara gerist ekki svo einfaldlega sem hingað til hefir verið haldið. Jeg er því ekki að áfella mennina, en við eigum að breyta skipulaginu, svo að það freisti ekki dómaranna að brjóta sína helgustu skyldu, sem er að vera hlutlausir og rjettlátir.

Þá kem jeg að síðari lið brtt., sem segir, að bankastjórar og útibússtjórar skuli ekki vera kjörgengir. Jeg get verið stuttorður um þetta atriði, þar sem það var að nokkru leyti samþ. í fyrra í Nd., með samþykt Landsbankafrv., og af hæstv. forsrh. með einni gr. í bankafrv. því, er hann leggur nú fyrir þingið. En við höfum tekið skrefið fyllra og látum ákvæðið ekki aðeins ná til bankastjóra Landsbankans, heldur og til þeirra af bankastjórum Íslandsbanka, sem stjórnin skipar. Eins og nú er, eru þá 5 af 6 bankastjórum landsins, sem verða fyrir þessum rjettindamissi, ef brtt. verður samþykt. En aðeins einn þeirra, sá, sem skipaður er af hluthöfum Íslandsbanka, mundi geta boðið sig fram. Það er kunnugt, að risið hefir deila um það, hvort það væri ekki brot á stjórnarskránni að ætla með einföldum lögum að ákveða, að menn tapi rjetti sínum til kjörgengis án þess að það sje líka tekið fram í stjórnarskránni. Jeg dreg ekki í efa, ef það verður samþ. og ef t. d. annar bankastjóra Íslandsbanka mundi bjóða sig fram og kæmist að, að þá yrði það áreiðanlega dómstólamál, hvort einföld lög geti varnað manni þingsetu, ef ekkert stendur um það í stjórnarskránni. Jeg skal ekkert um það segja, hvernig sá dómur fjelli, en þetta er vafaatriði. Um þetta voru líka skiftar skoðanir í nefndinni, þó að mjer hinsvegar sje kunnugt um menn, sem efnislega fylgja hæstv. forsrh. í þessari sjálfsögðu breytingu, ef hægt er að koma henni við. Nú er hjer tækifæri til þess að skera hnútinn yfir, með því að samþ. brtt., og fellur þá niður kjörgengi allra bankastjóra og útibússtjóra. — Jeg vil minna á það, að Landsbankinn hefir í þessu efni gengið á undan með góðu eftirdæmi. Áður fyr voru sumir af áhrifamestu stjórnmálamönnum vorum bæði bankastjórar og þm. Þannig var það frá því fyrir aldamótin 1900 og alt fram til 1918. En síðan núverandi bankastjórar komu að bankanum, hefir enginn þeirra leitað eftir þingsetu. Og fyrir nokkrum árum bannaði svo bankastjórnin útibússtjórum sínum að vera þm. Bankastjórninni þótti það miður heppilegt, þar sem þeir voru þá langdvölum í burtu og gátu ekki sint störfum sínum, og eins gat líka viljað til, eins og hjá dómurunum, að erfitt var fyrir þá að gæta rjettlætis í lánveitingum sínum. Það hafa þótt misbrestir á þessu á Ísafirði um útibússtjóra Íslandsbanka þar. En Landsbankastjórnin hefir með þessu sýnt, að hún vill ekki, að starfsmenn sínir sjeu að vasast í pólitíkinni. Og þegar borið var undir hana ákvæði það, sem er í frv. um skipun seðlaútgáfunnar, er stjórnin ber fram, þá hafði hún ekkert á móti því, að það næði einnig til bankastjóra Íslandsbanka. — Það hefir verið spurt um það, hvort hægt sje stjórnskipulega að meina bankastjórum Íslandsbanka kjörgengis, eins og brtt. fer fram á. En þar sem bankinn lifir nú aðallega af landsins náð, af lánum Landsbankans og af ábyrgðum þeim, er landið veitir, þá er sjálfsagt að hlutast til um, að engar veilur sjeu á skipulagi hans.

Jeg verð að halda því fram, að brtt. við 30. gr. stjórnarskrárinnar sje spor í rjetta átt, spor, sem verði að stíga til þess að losa tvær stjettir manna, dómara og bankastjóra, við þá freistingu, sem þátttakan í hinni pólitísku valdabaráttu hefir í för með sjer fyrir sjálfa þá.

Þá eru það 2 brtt. við frv., sem jeg sjerstaklega vildi minnast á, en það eru 3. og 4. brtt. á þskj. 272, frá minni hl. stjórnarskrárnefndar, við 7. og 8. grein frv. 3. brtt. er um það, að samkomustaður Alþingis skuli vera í Reykjavík, eins og ákveðið er í 33. gr. stjórnarskrárinnar, en samkv. brtt. er ætlast til, að bætt verði við stjórnarskrárgreinina ákvæði um það, að eftir 1929 megi þó með einföldum lögum ákveða, að samkomustaður Alþingis skuli vera á Þingvöllum. Þessi brtt. er því aðeins heimild fyrir þingið, og þó að hún verði samþykt, þá getur vel farið svo, að hún verði ekki notuð. Hinsvegar er enginn vafi á því, að kringum 1930 verða Uppi með þjóðinni sterkar raddir um það að flytja þingið til Þingvalla. Væri það þá hentugt að þurfa ekki að breyta stjórnarskránni fyrir það eitt. Jeg ætla ekki nú að færa nein sjerstök rök fyrir þeim kostum, sem það hefir að flytja Alþingi til Þingvalla, en jeg vil aðeins benda á það, að það, sem knýr menn til þess að vera því fylgjandi, er fyrst og fremst þjóðernistilfinning þeirra og hið sögulega samhengi í pólitískri þróun þjóðarinnar. Á lýðveldistímabilinu, þegar landið var sjálfstætt ríki, þá var Alþingi háð á Þingvöllum, og við Þingvelli eru tengdar flestar stoltustu endurminningar þjóðarinnar. Og Þingvellir voru höfuðvirki þjóðarinnar á frelsisöldinni og alt inn í hinar dimmu aldir, er þjóðin misti sjálfstæði sitt og hneig undir erlent vald og vegur Alþingis tók að þverra. Einn merkur sagnfræðingur, sem mun hafa í hyggju áður en langt um líður að rita bók um Jón Sigurðsson, hefir sagt mjer, að til sje feikn af brjefum til Jóns Sigurðssonar, rituðum á þeim tíma, er baráttan um endurreisn Alþingis, um 1840, stóð sem hæst, er bendi eindregið í þá átt, að hugur þjóðarinnar hafi mjög hneigst að því, að hið endurreista Alþingi yrði háð á Þingvöllum. En eins og á stóð, þá áleit hinn mæti maður, Jón Sigurðsson, að svo miklir fjárhagsörðugleikar væru á því að heyja þingið á Þingvöllum, að það væri ógerningur. Þá vantaði þar algerlega viðunandi samkomuhús og landið hafði ekki sjálfstæðan fjárhag, en hinsvegar var hægt að basla við það að halda þingfundi í kenslustofu í Reykjavík, og þingmenn gátu búið úti í bæ. Þetta studdi mjög að því, að Jón Sigurðsson var með því, að þingið yrði háð í Reykjavík, þar sem það var hægt vegna húsakosts, sem enginn var á Þingvöllum. Nú eru allar ástæður breyttar frá því, sem þá var. Nú höfum við fjárlög, er sýna 10–12 milj. kr. tekjur á ári. Hvað kostnaðarhlið þessa máls snertir, þá getur þjóðin, ef hún vill, ráðist í þetta, því að kostnaðurinn mundi ekki verða nema lítið brot af árstekjum ríkisins meðan verið væri að koma þessu í framkvæmd og koma upp húsakynnum Alþingis á Þingvöllum. Jeg vildi aðeins benda á, að með þeirri eyðslu, sem við nú höfum árlega, þá væri oss þetta kleift. Í þessu sambandi skal jeg minna á, að það eru hin sögulegu rök, sem knúð hafa frændþjóð vora Norðmenn til þess að breyta nafninu á höfuðborg sinni og kalla hana Osló, eins og hún hjet áður en Noregur komst undir yfirráð Danakonunga. Þetta og margt fleira í sömu átt hafa Norðmenn gert til þess að styrkja frelsis- og sjálfstæðistilfinningu þjóðarinnar.

Þá er og annað, sem mælir með því að heyja Alþingi á Þingvöllum, en það er, að þingið hefir miklu betri aðstöðu til að vinna þar en í Reykjavík. Hjer dregur bærinn þingið í burtu frá þinginu og þingmenn eyða löngum tíma í það að ganga langar leiðir til og frá nefndar- og þingfundum, auk þess sem þingmenn kynnast ekki eins hjer og þeir mundu gera á Þingvöllum, því að þeir sjást oft ekki nema á þingfundum. Þar að auki er þingið varla starfshæft í þeim húsakynnum, sem það hefir hjer yfir að ráða, síðan háskólinn kom í húsið, því að hjer vantar alt nema fundasalina. Hjer vantar nefndaherbergi, vinnuherbergi fyrir þm. og bókasafn, þar sem farið gæti sæmilega um menn. Ef leysa á vandræðin með því að flytja háskólann í burtu og byggja yfir hann, þá er lítið sparað við það, því að það mundi verða eins dýrt og að byggja þinghús og heimavistarhús fyrir þm. á Þingvöllum. Væri miklu nær að láta háskólanum eftir þetta hús, enda væri það nægilegt fyrir hann með landsspítalanum og stúdentagarðinum. — Þessi röksemd er þó fyrir mjer minni en hin, að það er sjálfsagt stig í frelsisbaráttu þjóðarinnar að flytja Alþingi til Þingvalla, til þess að tengja böndin nánar við hina glæsilegustu tíma þjóðarinnar og hina fornhelgu menningu hennar og afreksmenn.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á 4. brtt. minni hl. nefndarinnar. við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Greinin hljóðar þannig:

„40. gr. stjórnarskrárinnar skal orða svo:

Ekkert lagafrumvarp, nema fjárlög, má samþykkja til fullnaðar fyr en það hefir verið rætt þrisvar sinnum í hvorri deild. Fjárlög skal ræða í sameinuðu þingi með þrem umræðum“.

Jeg skal taka það fram nú þegar, að jeg ætla mjer ekki að láta þessa till. koma til atkv. hjer í kvöld, en jeg vildi aðeins reifa hana og gefa hv. deildarmönnum tækifæri til að lýsa áliti sínu á henni. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnarskrárfrv. verði afgreitt til hv. Nd. í kvöld, en þar á sæti sá hv. þm., sem á hugmyndina, sem felst í þessari till., sem sje hv. 1. þm. N.-M. (HStef). — Jeg verð að segja það, að af öllum þeim brtt., sem komið hafa fram við stjórnarskrána á þessu þingi, þá er þessi till. merkilegust. Jeg hygg, að í henni felist eina leiðin til þess að stytta þingtímann, og ætti með till. að vera hægt að stytta hann fyrirhafnarlaust um 1/3, því að það er meðferð fjárlaganna, sem mestu veldur um það, hve langur þingtímimi er. — Eins og nú er háttað um meðferð fjárlaganna á þingi, þá er aðstaða Ed. um áhrif á þau mjög slæm. Fyrst er farið með þau til Nd. og til fjvn. þar. Hún hefir þau í 5–6 vikur áður en hún getur afgreitt þau, en á meðan getur fjvn. Ed. ekkert gert nema að halda eitthvað lítilsháttar af fundum, sem þó geta enga ákvörðun tekið, vegna þess að óvíst er, hvernig fjvn. Nd. hefir farið með fjárlagafrv. Síðan koma þau til þriggja umræðna í Nd., og það tekur um 3 vikur. Þarna eru komnar 8 vikur, sem þau hafa verið bundin við meðferð Nd. Þá kemur fjárlagafrv. til Ed., og menn vita, hvernig því er háttað. Þá eru þm. orðnir leiðir á því, hve þingið er orðið langt, og því er rekið á eftir fjvn. Ed. um að hraða meðferðinni meira en Nd. og frv. fer í gegnum deildina með járnbrautarhraða. Meðferð Ed. á fjárlagafrv. hefir því í rauninni sáralitla þýðingu. Fjárlögin eru — eins og þau verða — aðallega verk landsstjórnarinnar og Nd. Og þó að einhverjar breytingar sjeu gerðar á þeim hjer, þá eru þær sjaldan miklar. Þessi töf fjárlaganna í Ed. varir um þriggja vikna tíma í alt. Þegar svo fjárlagafrv. hefir verið rætt í Ed., þá fer það aftur til einnar umr. í Nd., svo til einnar umr. í Ed. og svo loks til sameinaðs þings. Þá hafa farið fram um það í þinginu alls 9 umr. Það er því þannig í sjálfu sjer, að það er aðallega meðferð Nd. á fjárlögunum, sem setur hinn endanlega svip á þau. Sumir munu segja það um till. þessa, að þar sem fjárlögin sjeu aðalverk þingsins, þá sje ekki hægt að láta sjer nægja meira en helmingi færri umræður um þau en önnur lög. En þessu er því til að svara, að Ed. er svo fámenn, að Nd. getur jafnan ráðið, hvernig lögin verða, ef deildirnar koma sjer ekki saman og þau þess vegna fara í Sþ., og þar sem það er ekki siður að fella fjárlagafrv., — þó að deildirnar hafi rjett til þess að lögum hvor um sig, — þá er öðruvísi ástatt um fjárlögin en önnur lög, og má því ekki bera fjárlögin saman við þau í þessu efni. Það er ekki hægt að kalla það kost á meðferð fjárlaganna, að þau sjeu rædd í báðum deildum, nema því aðeins, að Ed. geti haft á þau sömu áhrif og Nd.; en það hefir hún ekki, nema hvað hún getur komið fram með brtt. sínar við þau, — vegna þess hvað hún verður að flýta sjer meira en Nd. með að afgreiða þau. Eins og menn vita, þá er hægt að koma með nýjar brtt. við fjárlagafrv. í báðum deildum við allar umr. í þeim og hið sama má gera í Sþ. Þetta er til þess, að altaf hleðst meira og meira á fjárlögin og tekjuhallinn eykst meira og meira, ef sá gállinn er á þinginu. Ef stefnt er að tekjuhallalausum fjárlögum, þá er miklu betra að taka frv. aðeins til þriggja umr. í sameinuðu þingi, og best væri að kveða svo á, að ekki mætti koma fram með brtt. við frv., sem ekki hefðu verið komnar fram við 2. umr. þess.

Það er gömul þingvenja að slíta þingi svo að segja undir eins og fjárlögin hafa verið afgreidd. Ef menn vissu, að þingi yrði slitið eftir 8 vikur, í stað 12 vikna, þá er enginn efi á því, að þm. mundu nota tímann betur en þeir gera nú og að vinnubrögðin yrðu því miklu betri. Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir sannað, að það eru aðeins þingsköpin að því er meðferð fjárlaganna snertir, sem valda því, að þingin eru svo löng. En með þessari meðferð, sem nú er á fjárlögunum, er ómögulegt, að þingin geti staðið skemur. Ef stytta á þingin, þá verður því nauðsynlegt að gera meðferðina á fjárlögunum óbreyttari. Jeg vil geta þess, að það er hægt með því að breyta þingsköpunum og án þess að til stjórnarskrárbreytingar þurfi að koma. En verði þingið stytt á þennan hátt, þá verður samfara því að gera þá breytingu á starfi fjvn. — sem í þessu tilfelli yrði skipuð þm. úr báðum deildum —, að hún komi saman um 3 vikum fyrir þing, svo að hún hafi lokið störfum sínum áður en þingfundir hefjast. Þessa hugmynd mun fyrverandi forseti þessarar deildar, Guðmundur Björnson landlæknir, hafa komið fram með fyrstur manna, en síðar gerðum við hv. þm. Vestm. (JJós) tilraun til þess að koma henni fram, en hún náði ekki samþykki. Jeg dreg enga dul á það, að jeg tel brtt. þessa á þskj. 272 alveg sjálfsagða. í Finnlandi hefir þessi aðferð verið tekin upp, þannig að þingið kemur saman að hausti til þess að kjósa fjvn. og taka á móti fjárlagafrv., en síðan fara allir þm. heim aftur og eru heima fram yfir jól. Um nýár kemur þingið svo saman aftur, og þá eru fjárlögin tilbúin, og situr þingið svo fram á vor.

Við getum vitanlega ekki komið þessu við, eins og Finnlendingar, að koma saman að haustinu til þess að kjósa fjvn., en við getum komið því við, að fjvn. komi saman nokkru fyrir þing — ekki að vísu fyrir það þing, sem háð er næst eftir að nýjar kosningar hafa farið fram. Jeg hreyfi þessu hjer vegna þess, að þetta er nátengt því að gera umbúðir þingsins óbreyttari.

Að lokum vil jeg geta þess út af ræðu hæstv. forsrh., að jeg er í engum vafa um það, að takmark hans með því að færa saman kosningu landskjörinna og kjördæmakosinna þm. er það að spilla fyrir því, að stjórnarskrárbreytingin nái fram að ganga. Hæstv. ráðh. sagði, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að till. yrði drepin, en honum datt ekki í hug að benda á það, að taka mætti málið af dagskrá og gera smábreytingar við frv. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að þessi aðferð hæstv. ráðh. er ólík aðferð okkar Framsóknarflokksmanna, bæði nú og á þinginu 1924. Við reyndum þá af fremsta megni að fá samkomulag um það atriði, að þing yrði háð annaðhvert ár, en stjórnarflokkurinn hjelt fast við ýmsa fleyga og drap síðast frumvarpið.

Jeg vil um leið nota tækifærið til þess að leiðrjetta misskilning, sem virðist hafa vakað fyrir hæstv. stjórn um það, að hún þyrfti að færa landskjörið frá vorinu 1930. Stjórnin hefir gengið út frá því, að það væri óhjákvæmilegt, að landskjörið 1930 færi fram 1. júlí það ár og lenti í hátíðahöldunum. En ef hæstv. forsætisráðherra athugar orðalag laganna, þá stendur, að kjördagur landskjörsins skuli „að jafnaði“ vera 1. júlí. Orðin „að Jafnaði“ munu aldrei hafa verið skilin bókstaflega nema í vor. Við landskjörið 1916 og 1922 var ekki kosið 1. júlí. Það væri því leyfileg lögskýring hjá stjórninni að ákveða kjördaginn 15. júní eða 15. júlí, eða einhvern annan dag, eftir hentugleikum. Jeg vil taka þetta fram, af því að stjórnin hefir lagt áherslu á það, að hún hafi þurft að breyta þessu vegna hátíðahaldanna 1930, en það er fyrirsláttur einn, eins og jeg hefi sýnt.