28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson): Hv. meiri hl. nefndarinnar hefir tekið öðrum tökum á máli þessu en jeg hafði búist við og hafði ástæðu til að búast við. Vil jeg minna á það, að snemma á þessu þingi var borið fram frv. um breytingu á stjórnarskránni í þessari hv. deild af hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Var þá samkvæmt venju kosin stjórnarskrárnefnd, sjö manna nefnd, og var háttv. þm. Str. (TrÞ) kosinn formaður hennar. Eftir að hann var orðinn formaður nefndarinnar og hafði fengið til meðferðar frv. það, sem borið var fram hjer í hv. Nd., og vissi um, að stjórnin hafði borið fram annað frv. um breyting á stjórnarskránni í hv. Ed., þá ber þessi hv. þm. (TrÞ) fram þriðja frv., á þskj. 132, er fer fram á það, að halda reglulegt þing aðeins annaðhvert ár og setja fjárlög til tveggja ára. Og þó að greinargerð háttv. þm. sje ekki löng, þá má samt sjá af henni, að hann áleit, þá er hann samdi hana, þessa breytingu svo mikils virði, að ekki væri ástæða til að hafa í frv. því, sem þessi hv. deild hafði til meðferðar, önnur ákvæði, sem ágreiningur gæti orðið um og því gætu orðið frv. að falli. Jeg hafði því síst ástæðu til að búast við því, að hv. meiri hl. nefndarinnar, sem hv. þm. Str. er formaður í, og að honum meðtöldum, mundi verða til þess að bera fram brtt. við frv. stjórnarinnar, sem fara fram á enn víðtækari breytingar á stjórnarskránni en frv. stjórnarinnar, og auk þess breytingar, sem búið er að fella í hinni deildinni með 10:4 atkv. Jeg veit ekki, hvað er líklegt til þess að verða frv. að falli, ef ekki þessar brtt. hv. meiri hl. nefndarinnar. En þó tekur út yfir, er hv. þm. skrifar undir nál. meiri hl. með þeim ummælum, að það sje skilyrði frá hans hendi fyrir því að fylgja frv., að gerð verði sú breyting á stjórnarskránni, að landskjörið verði afnumið. Jeg hefði getað búist við því frekar, að hv. þm. Str. hefði lagt það til, að feldar yrðu úr frv. stjórnarinnar allar breytingar á stjórnarskránni, sem færu fram á annað en þinghald annaðhvert ár. En hitt sætir fádæmum, að skoðanaskifti hv. þm. skuli vera svo mikil, að hann ber nú fram brtt., sem ganga lengra en frv. stjórnarinnar og hætt er við að geti orðið frv. að fótakefli, ef of mikið kapp verður lagt á málið. Jeg skal fúslega játa það, að jeg tel brtt. nefndarinnar um afnám landskjörsins vera viðurkenningu þess, að það, eins og landsstjórnin einnig hefir fundið, sje svo mörgum göllum undirorpið eins og það nú er framkvæmt, að það sje nauðsynlegt að laga það. Stjórnin hefir í sínu frv. farið fram á þá lagfæringu á landskjörinu, sem allir ættu að geta sætt sig við, sem sje sneitt hjá því, að það þurfi að hafa sjerstaka kosningu um land alt vegna landskjörsins. Er gert ráð fyrir því, að það fari fram um leið og aðrar kosningar, og er gert ráð fyrir því, að þeir landsk. þm., sem eftir sitja í hv. Ed. frá fyrri kosningu, geti ekki við almennar kosningar orðið því til fyrirstöðu, að stefnur þær, sem rjeðu síðustu kosningu, fái notið sín í þinginu til fulls. Það er auðvitað ráðin bót á göllum þeim, sem á landskjörinu eru, með því að nema það í burtu, en þá eru líka um leið numdir á brott kostir þeir, sem því fylgja. Og þeir eru fyrst og fremst þeir, að landskjörið er nokkurskonar uppbót á kosningarrjetti manna í kjördæmum, sem fara varhluta af þm. að tiltölu. Og stjórnin álítur, að þessi breyting, sem er í stjfrv. á landskjörinu, geti nægt til þess að komast hjá almennri breytingu á kjördæmaskipuninni. Ef landskjörið er alveg afnumið, er hætt við því, að kröfur um breytingu á kjördæmaskipuninni komi frá þeim kjördæmum, sem fáa fulltrúa hafa og afskift þykjast vera, og það má búast við, að þessar raddir verði svo háværar, að ekki verði á móti staðið. Og sjerstaklega er vitanlegt, að afnám landskjörsins verður ekki til þess að fækka þingmönnum, og það verður því ekki til sparnaðar, sem er aðalástæðan, sem borin hefir verið fram, þegar stungið hefir verið upp á því að afnema landskjörið, því um leið hefir verið stungið upp á því, að fjölga mætti þm. upp úr 36 með einföldum lögum. Fyrirstaðan fyrir því að láta eftir ósk kauptúnanna um sjerstaka þm. stafar af því, að alþingishúsið leyfir nú ekki, að fleiri þm. eigi sæti á þingi en 42, en þegar þm. hefir verið fækkað ofan í 36 með afnámi landskjörsins, þá er sú ástæða fallin í burtu og þá væri auðvelt þess vegna að fjölga þm., og yrði ekki á móti kröfum um það staðið. Jeg álít því, að till. um afnám landskjörsins, eins og hún er borin fram, mundi ekki leiða til fækkunar þm. um nokkurt teljandi árabil og ekki verða til sparnaðar. Jeg skal játa það, að þetta mundi þó vera nær sönnu, ef um leið væri felt niður ákvæðið um það, að fjölga mætti þm. með einföldum lögum; en það er svo fjarri, að hv. meiri hl. hafi komið fram með það, heldur hefir hann tekið það ákvæði úr núgildandi stjórnarskrá upp í brtt. sínar, eins og til að undirstrika, að það sje ekki tilætlunin, að það ákvæði falli burtu.

Til þess að þetta verði ekki vjefengt, skal jeg lesa upphafið á fyrstu brtt. hv. meiri hl. nefndarinnar, sem er við 26. gr. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á Alþingi eiga sæti 36 þjóðkjörnir þingmenn. Tölu þeirra má breyta með einföldum lögum“.

Þetta er á þskj. 417. (TrÞ: Það stendur fleira á því þskj.). Já, það er satt, það stendur fleira í nál., og meðal annars ber það með sjer, að þeir hv. 6 þm., sem undirskrifa það, eru ærið ósammála um margt.

Annars þarf jeg litlu við það að bæta, sem hv. þm. Borgf. (PO) færði gegn því að afnema landskjörið. Rök hans voru skýr og ljós, og get jeg því leitt hjá mjer að fara frekar út í það.

Þá vildi jeg benda á, að þessir 6 hv. þm., sem skrifað hafa undir meirihl.-álitið, eru ekki aðeins ósammála um sumar þær gr. stjfrv., sem þeir gera engar breytingar á, heldur eru þeir einnig ósammála um margt það, er þeir hafa þó orðið ásáttir um að bera fram. í nokkrum stöðum í nál. er gert ráð fyrir, að fleiri eða færri þm. úr hv. meiri hl. muni bera fram brtt. við 3. umr. En þá vildi jeg leyfa mjer að benda þessum hv. þm. á, að samkvæmt þingsköpum er það óeðlilegt að koma fram með margar efnisbreytingar við 3. umr., og það því fremur, sem það er síðasta umræða málsins hjer og í síðasta sinn, sem hv. deild getur borið fram brtt. við frv. En hjeðan fer frv. til hv. Ed., sem hefir síðasta orðið um breytingar á frv. að því leyti, að þessi deild verður við eina umr. hjer annaðhvort að fallast á frv. eins og það kemur frá hv. Ed., eða fella það.

Jeg vildi geta þessa, af því að þegar venju fremur miklar efnisbreytingar eru samþ., þá þarf oft þar á eftir að athuga frv. og lagfæra til samræmis, og er því slæmt, að slíkar breytingar komi það seint fram, að ekki gefist kostur á slíkri athugun og samræmingu. Þess vegna vildi jeg mega skjóta því til þessara 6 hv. þm., sem meiri hl. skipa, að koma fram með brtt. frá hverjum klofningi fyrir sig nú við þessa umr.

Jeg held, að það ætti að vera óhætt tímans vegna, þó að tveir dagar færu til þessarar umr., og einskorða það ekki við daginn í dag að ljúka henni.

Þetta er þó ekki atriði fyrir mig, þar sem jeg er ekki sammála háttv. meiri hl., og býst heldur ekki við, að jeg geti fallist á þær breytingar, sem einstakir hv. nefndarmenn ætla sjer að bera fram við 3. umr.

Finn jeg svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta að sinni, en hvað frv. stjórnarinnar snertir, læt jeg mjer nægja að vísa til ástæðna fyrir því, og sömuleiðis til nál. háttv. minni hl. (PO) og ræðu hans, er hann flutti fyrir stundu.