02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Þórarinn Jónsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 474 ásamt tveimur öðrum hv. þm., og vil jeg minnast hennar fám orðum, enda þótt mjer virðist hv. þm. ekki gefa þessu máli sjerlega mikinn gaum, frekar en það væri eitthvert hjegómamál, þar sem sárfáir hafa verið í deildinni undir umræðum. Þessi brtt. fer fram á að fella niður síðustu málsgrein 1. gr. frv., þess efnis, að breyta megi með einföldum lögum því ákvæði, að þing skuli haldið annaðhvert ár. Er þessa breytingu bar á góma við 2. umr. þessa máls, þá mátti segja, að hæstv. forsrh. tæki henni ekki illa. En hann gat þess, að þar sem jeg hefði ekki meiri trú á þinghaldi annaðhvert ár en þetta, þá væri það ekki hugsunarrjett að bera fram brtt. um það að fella þetta ákvæði niður. Þetta kann nú að virðast rjett og er alveg talað út frá hjartarótum hæstv. forsrh. Því það verður ekki átakanlegar uppmálað vonleysi hæstv. forsrh. á þinghaldi annaðhvert ár en með þessu ákvæði, að því megi breyta með lögum. Og hver einasti þm., sem þinghaldið vill hafa árlega, vill ekki breyta þessu fremur en hæstv. forsrh. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, þó að hæstv. forsrh. teldi þetta ósamræmi hjá mjer.

Það, sem jeg vil þá árjetta, er það, að þó að jeg og við flm. höfum ekki fulla trú á þessu fyrirkomulagi, vil jeg samt láta reynsluna skera úr, en það hyggjum við, að best verði með því að gera ófrávíkjanlegt að hafa þinghald aðeins annaðhvert ár, nema þá með stjórnarskrárbreytingu. Og þó að menn felli sig ekki við ný lög, eins og þolleysi manna er á öllum sviðum, enda mörgum svo farið, að þeir vilja breyta um áður en nokkur varanleg reynsla er fengin, þá vil jeg og við flm. ganga svo skýrt frá þessu, að trygging sje fyrir því, að það fái að reyna sig, og að síður muni verða rokið í að breyta stjórnarskránni á ný, fyr en reynslan hefir skorið ákveðið úr.

Jeg hefi hlustað á hæstv. forsrh. halda því fram, að þetta ákvæði geti ekki komið til framkvæmda fyrst um sinn, vegna undirbúnings þúsund ára afmælishátíðar Alþingis. (Forsrh. JÞ: Þetta er alger misskilningur). Jeg hefi skilið hann svo, en sje ekki við nánari athugun, að þetta ákvæði geti á neinn hátt komið í bága við undirbúning hátíðarinnar. Nefndin, sem á að gera till. um undirbúninginn, á að hafa lokið því á næsta þingi, og verður þá að taka ákvörðun um kostnaðarundirbúninginn til tveggja ára, alveg eins og í fjárlögum. Jeg get því ekki sjeð, að undirbúningsstarfi hátíðarhaldanna sje ver borgið, þó að brtt. verði samþ.

Þegar jeg lít nú á allar þessar brtt., sem fram eru komnar, blandast mjer ekki hugur um, að þær eru ýmsar eins líklegar til þess að stofna málinu í hættu eins og tillagan um niðurfelling landskjörs, sem fram kom við 2. umr. Var hún til þess að sameina menn um aðaltillögu frv. og jafnframt bæta við því ákvæði, sem sjálfsagðast er, ef breyta á stjórnarskránni. Ef hæstv. stjórn hefði tekið þessu vel og unnið fyrir málið á þeim grundvelli, myndi það hafa fengið góðan enda. En nú sundrast menn um málið, vegna þess hvernig fór um þá tillögu. Þó vil jeg ekki skorast undan að fylgja frv. vegna þinghalds annaðhvert ár, ef brtt. okkar á þskj. 474 verður samþ. Fyrir mjer er þetta aðalkjarni málsins eins og það nú horfir við. Og jeg á bágt með að trúa því, að hæstv. forsrh. geti ekki fallist á brtt. okkar, ef hann á annað borð hefir trú á þinghaldi annaðhvert ár.

Að svo mæltu ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, enda býst jeg við, að nógu margir verði til þess að lengja umr.