04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Guðnason:

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð út af aths. hæstv. forsrh. í gærkvöldi við brtt. mína á þskj. 489. Hæstv. ráðherra hafði á móti báðum þeim breytingum, sem jeg ber fram, og jeg verð að segja, að mjer kom það mjög á óvart. Fyrri breytingunni, að færa kosningarjettinn til landskjörs niður í 30 ár, hjelt jeg satt að segja að yrði ekki með nokkrum rjetti haft á móti. Þegar menn eru orðnir 30 ára, eru þeir búnir að fá þann þroska, sem þeir yfirleitt fá, og eru eins staðfastir og góðir kjósendur og þeir yfirleitt verða. Jeg ætla að sá hópur, sem við bættist, ef mín tillaga yrði að lögum, yrði síst lakari en sá, sem fyrir er, enda er það að vonum, þar sem sú kynslóð sem nú vex upp, hefir haft miklu betri aðstöðu til mentunar og þekkingar á landsmálum en undanfarandi kynslóðir. Í kringum 30 ára aldurinn eru líka flestir búnir að velja sjer fasta stöðu og komnir í þá aðstöðu í þjóðfjelaginu, að geta fundið til þeirrar ábyrgðar, sem kosningarrjettinum fylgir.

Þó furðaði mig ennþá meira á því að heyra hæstv. ráðh. leggja á mót hinu atriðinu í brtt. minni ákvæðinu um skuld fyrir þeginn sveitastyrk. Það sem hvað mest hvatti mig til að bera fram þessa tillögu, var einmitt fátaækralagafrv. hæstv. stjórnar, sem nú liggur fyrir Alþingi, þar sem jeg hygg, að segja megi að verið sje að fara í kringum eða að minnsta kosti eins nærri stjórnarskránni og framast má gera. Þar sem hæstv. atvrh. (MG) hefir lagt fátækralagafrv. fyrir þingið, bjóst jeg ekki við, að ágreiningur væri innan stjórnarinna um þetta efni. Ef brtt. mín verður samþ. verður hægara að setja löggjöf um þetta efni, án þess að fara í kringum stjórnarskrána, sem ekki getur talist vel viðeigandi. Þar sem einmitt þetta ákvæði í fátækralögunum hefir fengið svo góðar undirtektir hjer í háttv. deild, vænti jeg þess að brtt. mín verði samþykt.

Úr því að jeg stóð upp, vildi jeg í sambandi við frv. vekja athygli á einu atriði, sem snerti það, en að vísu óbeint. Ef stjórnarskrárfrv. verður samþykt á þessu þingi, ber samkvæmt stjórnarskránni að rjúfa þing og stofna til nýrra kosninga áður en tveir mánuðir eru liðnir frá þingrofi. Jeg veit, að stjórnin getur ráðið hvenær á þessum tíma kosningar fara fram, en jeg tel víst, að þm. þyki skifta ekki litlu máli að fá að vita nákvæmlega um tímann. Vitneskja um það efni gæti haft nokkra þýðingu fyrir afdrif málsins í þinginu, og vil jeg því beina því til hæstv. stjórnar, að hún skýri frá, hvenær kosningar færu fram, ef frv. yrði samþ. Jeg tel víst, að hún sje þegar búin að hugsa sjer, hvað gera skuli, og þar sem bráðum er lokið þingtímann, er hjer gott tækifæri fyrir hæstv. stjórn að geta þess, hvenær hún ætli að láta kosningar fara fram.