04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það hafa verið bornar hjer fram tvær fyrirspurnir, sem jeg hefi ekki svarað ennþá.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) spurði um það í gær, hvort einhver saga væri sönn, sem hann hefði heyrt um það, að stjórnin ætlaði að rjúfa þing út af þeim tekjuhalla, sem væri á fjárlögunum, og kalla saman aukaþing til þess að setja ný fjárlög. Mjer heyrðist hv. þm. spyrja þannig. (JakM: Jeg spurði um þetta).

Eins og fjárlagafrv. er nú, eftir 2. umr. í hv. Ed., er það tekjuhallalaust, og getur því ekki legið fyrir nokkur átylla til að tala um þingrof í sambandi við það frv. eins og nú stendur. En náttúrlega gæti það komið fyrir, ef stjórninni sýndist þingið fara óhæfilega með fjárlögin, að hún ryfi þingið og óskaði að skjóta því til úrskurðar þjóðarinnar, hvort það væri hennar vilji að hafa fjárlögin svo úr garði gerð. En jeg held, að það sje augljóst eftir okkar stjórnarskrá, að það geti þó ekki haft nein áhrif á þau fjárlög, sem búið er að afgreiða, og jeg hygg, að aldrei muni vera lögð fjárlög til breytingar fyrir aukaþing.

En þó að jeg hafi bent á þetta sem almennan möguleika um afstöðu milli stjórnar og þings, þá vil jeg ekki láta felast í því neina ábendingu um það, að núverandi stjórn hugsi sjer að gera þetta, eftir þeirri afgreiðslu, sem nú liggur fyrir á fjárlögunum.

Þá spurði hv. þm. Dal. (JG), hvenær kosið yrði, ef stjórnarskrárbreyting yrði samþykt.

Það verður farið eftir gildandi ákvæðum og stofnað til kosninga innan tveggja mánaða eftir að það þingrof hefir farið fram, sem fram á að fara eftir að stjórnarskrárbreyting hefir verið samþykt. Það verður gert svo fljótt, sem hægt er að koma því í kring, og geri jeg ráð fyrir, að það verði reynt til hins ítrasta að láta kosningar fara fram fyrir slátt, þó að það geti ef til vill haft það í för með sjer, að stytta þyrfti eitthvað lögmæltan framboðsfrest, því að jeg tel ekki heimilt að láta kosningar bíða svo lengi, að þær verði látnar fara fram eftir slátt.