04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3558 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Hæstv. forsrh. sagðist ætla að svara þeim fyrirspurnum, sem hjer voru bornar fram, og þá fyrst og fremst þeirri, sem jeg bar fram í gær. En mjer finst hæstv. ráðh. ekki hafa svarað henni. Jeg spurði, hvort stjórnin ætlaði að rjúfa þingið, ef fjárlögin yrðu afgreidd með viðlíka tekjuhalla og þau fóru með til hv. Ed. Jeg spurði um þetta vegna þess, að jeg gat ekki sjeð, að það væri nokkur meining í þessu tiltæki, annað en það, að hæstv. stjórn hefði ætlað sjer að neita að taka við fjárlögunum þannig afgreiddum; þá gat hún gert það og rofið þing til þess að bera það undir þjóðina, hvort hún óskaði, að afgreiðsla fjárlaganna væri þannig af hendi leyst. Annars var þetta meiningarlaust, þegar nýjar kosningar áttu hvort sem er að fara fram fyrir næsta þing, og þá hlaut það að verá meiningin að kalla saman aukaþing í haust, til þess að rjetta fjárlögin, því að annars hefði þetta verið alveg gersamlega meiningarlaust tiltæki.

Nú sagði jeg það fyrir mitt leyti, að jeg tryði því ekki, að hæstv. stjórn hefði nokkurntíma dottið þetta í hug, vegna þess að ef nokkur meining ætti að vera í því, þá yrði það að vera svona, og þá yrði svo mikill kostnaðarauki að því. Í stuttu máli var fyrirspurnin þessi:

Hafði það komið til orða, að stjórnin hefði í hyggju að rjúfa þing, ef það yrði viðlíka tekjuhalli á fjárlögunum að lokum eins og þegar þau voru afgreidd hjeðan til hv. Ed., og var það þá í þeim tilgangi að fá rjetting á fjárlögunum, eða var það aðeins út í loftið, úr því að það átti að kjósa nýtt þing fyrsta vetrardag?

Jeg sje nefnilega ekki, hvaða rjettarbót það hefði verið, svo að maður haldi sjer við það, sem slegið var á hjer við umr., að láta kosningar til nýs þings fara fram tveim mánuðum áður en reglulegar kosningar áttu að fara fram.

Jeg veit ekki, hvort á að skilja hæstv. ráðh. svo, að þetta hafi í raun og veru komið til mála, en ef það er, þá er það sú furðulegasta fluga, sem jeg get hugsað mjer.