16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3599 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Það er náttúrlega sama, þótt maður eigi orðastað við hæstv. dómsmrh. (MG), og sennilega mun hann standa fyrir kosningunum.

Jeg vildi fá það skýrt og hreint, hvort það sje meining hæstv. stjórnar, ef frv. gengur fram, að láta kjósa fyrir slátt. Við skulum segja, að þingið yrði búið á miðvikudaginn; 4–5 dögum eftir þingslit getur stjórnin auglýst kosningarnar, og þá mundi framboðsfrestur vera samkv. kosningalögunum ekki nema hálfur mánuður, eða um það bil. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje heimilt við almennar kosningar að stytta frestinn, hvort sem þingrof er eða ekki. Jeg tel ekki rjett af Alþingi að láta ekki hæstv. stjórn svara til um það, hvernig hún ætlar að haga kosningunum; því að það skiftir afarmiklu máli, hvort hæstv. stjórn ætlar sjer að nota tækifærið og treysta á það, að þeir kjósendur, sem helst mega sjá af tíma um það leyti, beri sigur úr býtum.

Það skaut því einn hv. deildarmaður fram, að hæstv. forsrh. hefði gefið ótvíræða yfirlýsingu um það, að þetta mundi ekki koma til; en jeg hefi ekki heyrt þá yfirlýsingu. (MK: Jeg hefi heyrt hana). Að hann ljeti ekki kosningar fara fram? (BK: Hann sagði ekkert um það. — IHB: Það var um haustþingið). — Jeg vil, að þetta sje skýrt upplýst; því að ef það er meiningin að láta fara fram kosningu í byrjun júní, þá verður framboðsfresturinn 12 dagar frá því auglýsingin kemur út. Í 18. gr. kosningalaganna stendur nefnilega, að framboð verði að vera komin 4 vikum fyrir kjördag. Í 23. gr. er kjördagurinn ákveðinn 1. vetrardagur. Verður varla annað sjeð en að eins sje átt við kjördag, þótt þingrof hafi farið fram, og sjerstaklega þegar fellur saman stjórnarskrárbreyting og lok kjörtímabils. Tel jeg í slíkum kringumstæðum alveg óverjandi af hæstv. stjórn að fara að breyta til um kjördag. Jeg álít það algerlega ólöglegt að stytta venjulegan framboðsfrest við slíkar almennar kosningar sem þessar. Þótt hæstv. forsrh. hafi haldið því fram, að það mætti án þess að fremja lögleysu, þá er það útilokað samkvæmt 53.–54. gr. kosningalaganna. Ákvæðin þar eru svo skýr og greinileg, að ekki verður um vilst. Aðeins ef uppkosning verður nauðsynleg eða þingmannssæti autt, áður en kjörtímabil er á enda, þá má, ef þörf þykir, stytta hinn lögákveðna frest fyrir kosningar.

Þá væri líka fróðlegt að fá að vita, hvort hæstv. stjórn hugsar sjer að láta kosningar fara fram á slætti, t. d. um miðjan ágúst, og vega þannig aftan að kjósendum þessa lands, í því skyni að fá sína menn kosna, með því að andstæðingar hennar, alþýða manna og hinir fátækari bændur, eru þá síst viðlátnir og eiga erfitt og jafnvel ómögulegt með að sækja kjörfund. Þó er ekki víst, að það ranglæti hæstv. stjórnar veitti henni þau verðlaun, sem um er kept, að verða ofan á. Sem sagt, jeg vildi gjarnan fá að vita, hvað hæstv. stjórn hygst fyrir um væntanlegar kosningar, ef stjórnarskrárbreytingin verður samþykt, hvort hún ætlar að leyfa sjer að hafa framboðsfrest svo stuttan, að láta stofna til nýrra kosninga eftir liðugan mánuð.